Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Skokvari

Á Þýzkalandi bjó kall einn út á skógi. Hann átti konu. Þeim varð ekki barna auðið því kona hans gat ekki barn átt og gaf bóndi henni það mikið að sök. Liðu so fram langir tímar að kall var aldeilis orðinn úrkula vonar að hún mundi barn geta. Varð hann þá svo reiður að við sjálft lá að hann ræki kellingu sína í burtu. Í þessum óyndisúrræðum gengur hún út á skóg. Hittir hún þá kerlingu eina er hafði verið vinkona hennar og segir henni frá vandræðum sínum; hún segist skuli bæta úr vandræðum hennar og gefur henni epli eitt og segir henni að éta það. Það var gult á lit og nokkuð ólíkt öðrum eplum. Eftir það segir hún kerlingu að fara heim og segir hún skuli nú gleðja kall sinn með því að segja honum að þau muni bráðum eignast son. Gengur hún nú heim og gerði sem kerling sagði henni. En þó bónda þætti þetta nokkuð undarlegt þá trúir hann því samt og varð henni nú nokkuð betri en áður. Líða nú tímar fram þangað til bóndi þykist sjá að hún muni ólétt vera. Og á réttum tíma frá því hún fann vinkonu sína elur hún frítt og fallegt sveinbarn. Ekki létu þau neitt kalla hann, heldur var hann nafnlaus fyrst fram eftir. En so mikið eftirlæti höfðu þau á honum að aldrei mátti hann ganga úr höndunum á öðru hvurju þeirra.

Eitt sinn kemur kall heim af dýraveiðum. Gengur þá kerling út á móti honum og ber barnið á handlegg sér. Fer þá kall að brúka barnagælur við sveininn og segir: „Nei, sko, kvar –.“ Grípur þá kerling fram í og sagði: „Þar gafst honum nafnið og skal hann heita Skokvar“ – og hélt hann því nafni eftir það. En þó Skokvar væri vel kominn á fót vildu þau aldrei sleppa honum frá augunum á sér; en hann var mjög gefinn fyrir að hlaupa frá kotinu til að forvitnast um hvað hann gæti heyrt og séð.

Einu sinni kom hann auga á veiðimenn er vóru að [veið]a silung úr vatni stóru og voru það veiðimenn konungs. Bauð hann þeim þá fljótt þénustu sína og vildi fara að veiða með þeim, en þeir kváðust ekki gefa neitt um hans þénustu. Gengur hann so heim og segir móður sinni að búa um sig í eldhúshorninu um kvöldið; en hún vill það ekki gera, en mátti þó til að gera sem hann vildi; og leggst hann þar um kvöldið, en þau fara að hátta kall og kerling. En þegar Skokvar vissi að þau vóru háttuð stendur hann upp og fer þangað sem hann sá veiðimennina daginn fyrir og tekur nú veiðarfæri þeirra og fer að veiða og gekk honum það vel þó hann hefði ekki reynt það fyrri og veiðir nú so sem hann gat borið. Síðan fer hann heim með afla sinn og fleygir því í göngin fyrir framan baðstofudyrnar. Síðan gengur hann í eldhúshornið og fer að sofa; og var hann nú tólf vetra gamall þegar hann byrjaði á þessum veiðiskap. Kerling vaknar snemma um morguninn og atlar að fara að vitja um son sinn. En þegar hún stígur fram fyrir baðstofudyrnar veit hún ei fyrri til en hún slengist kylliflöt um kös nokkra er fyrir henni varð. Blótar hún þá mikið. Gengur þá Skokvar fram úr eldhúsinu og segir: „Því blótar þú sona fyrstu veiði sonar þíns?“ Varð hún þá glöð við og blessar mikið yfir son sinn. Ekki er getið um að Skokvar hafi sofið lengur í eldhúshorninu, en alltaf fór hann á hvurri nóttu og veiddi með veiðarfærum kóngsmanna þegar þeir vóru ekki við og það gekk honum so vel að kall og kerling höfðu allsnægtir, en höfðu þó lítið til að lifa á áður.

Loksins fór honum að leiðast þessi veiðiskapur og gengur nú út á skóg og vill nú fara að veiða fugla, en hafði ekkert verkfæri nema slöngu eina. Sá hann þá hvar hermaður reið á skóginum albrynjaður og hafði hann aldrei séð vopnaðan mann fyrri. Skaut þá hermaðurinn í fuglahóp með pístólu er hann hafði og felldi hann tíu í því skoti. Þegar Skokvar sér þetta gengur hann til veiðimannsins og biður hann að gefa sér þetta vopn er hann drepi so marga fugla með í einu skoti. Leit þá veiðimaður til Skokvars og sá að hann var afbragð annara manna bæði að vexti og fríðleika. En allt fyrir það var hann so framúrskarandi tötralega búinn. Gaf hann þá Skokvari pístóluna og nokkuð af skotpening og sýndi honum so aðferðina að skjóta; en þetta var veiðimaður konungs. Kveður hann nú Skokvar og skilja þeir nú með vináttu. Gengur nú Skokvar víða um skóginn og veiðir nú so mikið að hann gat naumast risið undir veiði sinni. En á leiðinni heim kemur hann að koti einu. Var hann þá so þreyttur orðinn að hann snarar ofan af sér byrðinni og sezt á hellu fyrir utan bæjardyrnar til að hvíla sig. Sér hann þá börn ganga út úr kotinu og var drengur einn elztur að sjá; hann var hér um bil sjö eða átta vetra gamall. Stendur þá Skokvar upp og atlar að halda á stað með byrði sína. Kallar þá þessi elzti drengur til hans og biður hann að gefa móður sinni nokkuð af fuglunum og segir hún ætli að deyja í hungri og segir að hún eigi sjö börn á palli, en faðir sinn sé dáinn. Snýr þá Skokvar aftur og spur sveininn að heiti; en hann kvaðst Trausti heita. Kastar þá Skokvar frá sér byrðinni og segir að konan skuli hirða það. Hlaupa þá börnin inn með fagnaði og sögðu móður sinni frá fuglakippunni, en hún kemur út strax og þakkar Skokvari innilega fyrir gjöfina og segist ekki hafa átt nokkurt bjargræði í bænum. Síðan segir hún við hann að það fyrsta dýr er hann muni skjóta á skógnum það muni verða upphaf hans gæfu. „En allt fyrir það,“ segir hún, „mun ekkert gagn verða hvurki að mat né húð af því.“ Að so mæltu skilja þau. Gengur nú Skokvar heim til sín og skýtur hann þá nokkra fugla á leiðinni. Vóru þá foreldrar hans orðin mjög sorgbitin af hræðslu um hann. En þegar hann kom heim fögnuðu þau honum mikið og ekki sízt þegar hann kom með ferskan rétt fyrir þau, nefnilega fugla þá er hann hafði veitt.

Daginn eftir gengur Skokvar á skóg; en þegar hann kemur út á skóginn sér hann dýr eitt er aldrei hafði hann eins undarlegt séð. Skýtur hann þá til þess og lá það þegar dautt. Gengur hann þá til þess og sér að það er mjög horað og skinnið er allt so sem hrufótt so hann álítur það ónýtt; en allt fyrir það fer hann og flær af því húðina. En þegar hann er búinn að því sér hann í skrokknum taugar einslags er honum þótti mjög skrýtnar. Fer hann þá að skoða þær og eru þær mjóar sem hörþráður, en gular á lit; og so eru þær sterkar að ekki slitna þær þótt hann taki á þeim af afli. Síðan dregur hann þessar taugar þrjú hundruð að tölu úr skrokk dýrsins. Vefur hann þær síðan upp í hankir og gengur nú heim til sín. Veiðir hann nú á hvurjum degi ýmist dýr og fugla eða þá silung úr vötnum so foreldrar hans höfðu allsnægtir. Víkur nú sögunni frá honum um stund.

Konungur sá er réði fyrir landi þessu var auðmaður mikill, vinsæll mjög við sína menn og sá mesti vitmaður. Hann átti drottningu væna. Áttu þau dóttur eina er var afbragð annara kvenna bæði að fríðleik og menntum. Hún var so framúrskarandi stillt að aldrei sást hún hlæja hvað mikil gleði sem fyrir hana bar so konungur hét að gifta hana öngvum nema ef einhvur [væri] sem gæti látið hana hlæja; en það reyndu margir og gat enginn. Konungur lét búa henni til kastala og hafði hún þar marga þjónustusveina og þjónustumeyjar. En eftir það hún var komin í kastalann mátti enginn inn til hennar ganga, heldur urðu allir (er til hennar vildu vinna með því að láta hana hlæja) að leika við gluggana. Liðu nú nokkur ár að enginn gat unnið til kóngsdóttur, því öngvum var unnt að láta hana hlæja með hvurjum ímyndislátum sem þeir reyndu til þess.

Einn dag sat kóngsdóttir við gleðiveizlu í höll föður síns; en að kvöldi gengur hún í kastala sinn og atlar að fara að ganga til hvílu og þjónustumeyjar hennar. Varð henni þá litið upp í mænirinn á kastalanum. Sér hún þá hvar maður allsnakinn hangir neðan í mænirnum og leikur hann fram og aftur um allan mænirinn, en ekki sá hún hann hafa fótfestu nokkurstaðar og ekki sá hún hann heldur hanga á neinu. En við þessa sýn brá henni so mikið að hún skellihló og þær allar þjónustumeyjar hennar hlógu mikið að þessari sýn. Síðan ganga þær allar til hvílu og ímynduðu sér að þetta gæti ekki verið annað en missýningar. En um nóttina vaknar kóngsdóttir og er þá kominn maður í sæng til hennar. Biður hún hann þá í burt fara og segir honum að það kosti líf hans ef faðir sinn viti af þessum hans anstöltum. En hann biður hana að minnast þess að hann sé búinn að vinna til hennar með því að láta hana hlæja. Eftir það tala þau lengi saman og féll allt vel með þeim. Segir hann henni þá að hann vilji vera hjá henni í þrjár nætur og biður hana að ljá sér eitthvurt fylgsni að vera í á daginn þar sem enginn verði var við sig. Segir hún þá að hann skuli fara inn í skáp er stóð hjá rekkju hennar því þar muni enginn verða var við hann. Var hann so hjá kóngsdóttur í þrjár nætur, en að þeim liðnum fer hann í burtu.

Líða nú tímar fram þar til fólk þykist sjá að kóngsdóttir muni ólétt vera. Verður kóngur þá so reiður og lætur kalla til sín dóttur sína og spur hana hvurt það sé satt; en hún kvaðst ekki geta borið á móti því. Skiptir hann sér þá ekki af því nema gengur í burtu. Nokkrum tíma síðar fæðir hún frítt meybarn. Þegar konungur heyrði það að dóttur hans væri búin að ala barnið gengur hann til hennar og spur hana að hvur sé faðir að barninu. En hún kvaðst ekki geta sagt það því hún segir það hafi komið maður í rúm til sín og hafi hún ekki þekkt hann; en sá hinn sami sé búinn að vinna til sín því hann hafi látið sig hlæja. Kóngur undrast þetta næsta mjög.

En einu sinni á því sama ári var konungur á máli við menn sína og var þá fjölmennt í höllinni. Gengur þá ókunnur maður í höllina og fyrir konung. Hann var klæddur í konunglegan skrúða að neðanverðu, en á höfðinu brúkaði hann hettu so ljóta að aldrei þóttust menn hafa séð eins auðvirðilegt höfuðfat. Hann gengur fyrir konung og mælti: „Ég er sekur við konung.“ Að so mæltu gengur hann burt. Tók þá enginn neitt eftir þessu fyrri en hann var kominn burt. Fekk þá konungur eftirþanka um hvur gesturinn muni hafa verið. Líður nú þetta ár að ekkert bar til tíðinda. Næsta ár eftir stefnir konungur þing. Ræddi hann þá mörg mál við menn sína. Var þá fjölmenni mikið saman komið í höll konungs. En fjóra menn setur hann út til að gæta ef nokkur ókunnur maður gangi í höllina að láta hann ekki sleppa lausan. Nokkru síðar gengur maður í höllina. Hann hafði gullkórónu á höfði, en neðanverður var hann so tötralega klæddur sem förukall væri. Hann gengur fyrir konung og mælti: „Ég er sekur við konung.“ Eftir það snýr hann burt og fer þar í gegnum mannhringinn er ekki vóru vopnuðu mennirnir er áttu að gæta hans. Varð þá kóngur ákaflega reiður og skipar mönnum að fara eftir honum, en það kom fyrir ekkert því hann var strax hvorfinn. Nú þriðja árið kallar konungur menn sína á málstefnu við sig á slétta völlu nokkra. Setur hann þá þrefaldan mannhring og lætur vera hlið opin á hvurjum hring so hvur geti gengið inn í mannhringinn sem vill, en sjálfur sat hann á stól innan í miðjum hringnum. Síðan skipar hann þeim sem vóru í innsta hring og so öllum og leggur ríkt við að passa það hvur sem gangi inn í mannhringinn að láta hann ekki út sleppa. Nokkru síðar kemur maður. Hann var allur klæddur kónglegum skrúða; þó sambauð kórónan hvurgi nærri öðrum búningi hans. Hann gengur inn í mannhringinn og fyrir konung og mælti: „Hlýðið nú, konungur, sögu minni. Gekk ég út á víðan völl; sá ég þá eik stóra að hún breiddi lim sín út um allan völl. Önnur eik minni stóð hjá og lá undir greinum hinnar. Þar stóð út úr kvistur; á þeim kvisti var hreiður. Í hreiðrinu sat hæna; hænan lá á eggi. Eggið lá á bót og á bótinni var lús.“ Að so mæltu segir hann: „Ég er sekur við konung“ – og um leið atlar [hann] að snúa út. Vóru þá menn komnir í þau hlið sem opin voru þá hann gekk inn. Stökkur hann þá út yfir þrefaldan mannhringinn og hvarf burt. Skipar þá kóngur að elta hann og var það gert, en það kom fyrir alls ekkert því hann var þegar hvorfinn þeim.

Eftir það býður kóngur hvurjum manni jarlsdæmi er færi sér þennan mann. Var þá Trausti er fyr var getið kominn í hirð konungs og bauðst hann til að fara. Fór hann þá á stað og gekk að híbýlum Skokvars. Var það þá orðið eitt lítið hús fallegt og stóð það þá opið. Gekk þá Trausti inn. Sá hann þá hvar maður sat á palli og þekkti hann gjörla og var það Skokvar. Heilsast þeir þá og minntust með kærleika hvur við annan. Bað þá Trausti Skokvar að koma með sér á konungsfund og kvaðst vera eftir honum sendur og segir að konungur muni ekkert gera honum illt þó hann sé við hann sekur. Skokvar lætur það að orðum hans og býr sig í konunglegan skrúða þann fagrasta. Síðan ganga þeir til hallarinnar. Gengur þá Skokvar fyrir konung, tekur af sér kórónuna, leggur höfuð sitt í hné á kóngi og bað sér miskunnar. Konungur bað hann upp standa og sagði að dóttur sín skyldi ráða höfði hans. Var hún þá sótt. Kom hún þá strax og bar dóttur sína með sér. En er hún sá Skokvar varð mikill fagnaðarfundur; hlupu þau þá hvurt í fangið á öðru. Kóngur brosti að. Eftir það spur hann dóttur sína hvað hún vildi gera við þennan mann; en hún kvaðst fyrir það fyrsta vilja að hann hefði líf og fullt frelsi. Eftir það spur konungur menn sína hvurt þeir muni hvað sá maður hefði talað er síðast hefði komið á þing til sín; en enginn mundi. Kóngur kvaðst þá skyldi segja það er hann hefði talað og leggja það út um leið. Byrjar þá kóngur og mælti: „ ,Gekk ég um víðan völl; sá ég eina eik standa alblómgaða.' Þar meinar hann mig og mitt ríki; en minni eikin er hann sagðist séð hafa þar meinar hann drottningu mína. ,Á þeirri minni eik var kvistur og á kvistinum var hreiður'; það meinar kastali dóttur minnar. ,Í hreiðrinu lá hæna'; þar meinar hann dóttur mína. ,Hænan lá á eggi'; þar meinar hann barn dóttur minnar. Og ,eggið lá á bót'; þar meinar hann þá bót er ég við lagði að hann skyldi lífi halda þó hann gæfi sig á minn fund. ,Á bótinni var lús'; þar meinar hann sjálfan sig.“ Þegar konungur hafði lokið þessari ræðu dáðust allir að vitsmunum hans. Eftir það var hinn ókenndi maður beðinn að segja ævisögu sína. Byrjar hann þá ævisögu sína og segir hana frá upphafi og þar til nú er komið. Tekur þá konungur til máls og segir: „Þar eð þú hefur unnið til dóttur minnar með því að láta hana hlæja þá er bezt að þú njótir hennar því ég veit að það er hennar eiginlegur vilji.“ Eftir það fær konungur honum kórónu sína og gefur honum strax konungsnafn og biður alla menn sína að vera honum eins trúa og þjóna honum eins og þeir hefði gert sér áður. Var þá strax haldið brúðkaup þeirra Skokvars og kóngsdóttur. En þá veizlan stóð sem hæst gekk kona í höllina. Hún gekk við tvær hækjur og var hvít af hærum. Gekk hún þá fyrir Skokvar sem nú var orðinn kóngur og hinn eldri kóng og kvaddi þá. Fengu þeir henni strax stól að sitja á og mæltu að hún mundi kunna frá mörgu að segja þar hún væri so gömul. En hún kvaðst vera þar komin til að segja ævisögu Skokvars, því þó hann kannski sé búinn að segja hana þá muni hún geta sagt frá fleiru. Byrjar hún þá ræðu sína þannin og mælti:

„Fyrir hálft annað hundrað árum réði konungur fyrir landi þessu. Hann átti tvö börn; hét annað Freysteinn, en annað Marín. Voru systkin þessi vel menntuð og afbragð flestra annara manna. Eitt sinn kom það fyrir að kóngi féll til mikil sorg þar drottning hans andaðist er hann hafði unnt framúrskarandi. En þá var sonur hans fjórtán vetra, en dóttur hans tólf ára. En eftir það að konungur missti drottningu sína var hann so hryggur og harmfullur að menn héldu hann mundi naumast það afbera. Fóru þá bæði ráðgjafar hans og fleiri að ráðleggja honum að fara og leita sér konfangs hvað og hann gerði líka. Ekki er getið um hvurt hann fór, en þess er bara getið að sú er hann fékk var af smákóngaætt; en hún var mikið fríð og virtist konungi vel í fyrstu. En er fram liðu stundir lagði hún miklu meiri ást við konungsson, en hann vildi fyrir öngvan mun svíkja föður sinn. Gerði hún þó margar tilraunir að lokka kóngsson, en það kom fyrir ekkert. Varð hún þá so reið að hún hljóp út af borginni eitt sinn er kóngsson var genginn á skóg til dýraveiða. Gengur hún þá þar til hún hittir hann. Leggur hún þá á hann og segir: „Þú skalt verða að epli einu bleiku að lit og skal það festast við stærsta tré hér á skóginum og skal öngvan mann né skepnu hungra so að það eti þig.“ Að so mæltu gekk hún leið sína. Ekki vissi konungur eða neinn af þessu vonda fyrirtæki drottningar. Eftir það gengur drottning að kastala kóngsdóttur og biður hana að ganga með sér; ganga þær þá nokkuð frá borginni. Segir hún þá kóngsdóttir frá álögum þeim er hún hafi lagt á bróður hennar fyrir óhlýðni er hann hafi sýnt sér. Síðan segir hún við kóngsdóttir: „Þú skalt einnin út á skóg fara og skaltú alla tíð sýnast ein förukerling og ekki skaltú á öðru lifa en jarðeplum og blávatni og skulu þið sona vera í hundrað ár; en að þeim liðnum skaltu vita hvurt þú finnur hvurgi þann mann er þrjátíu ár hafi lifað með konu sinni, en hún hafi ekkert barn getið. Og skaltu þá taka það fyrnefnda bleika epli og gefa þeirri konu er so lengi hefur verið með manni sínum (án þess þeim yrði barns auðið) er ég áður um gat og segja henni að borða það og kemst þá kóngsson úr álögunum. En þá konan hefur eplið borðað mun hún barn geta á réttum tíma þar frá og fæðir hún þá sveinbarn sem fyr var getið í sögunni. En ekki skaltu af skóginum komast fyrri en sá sveinn er orðinn kóngur.“ Síðan yfirgaf drottning mig,“ segir þessi aldraða kona er fyr var getið að í höllina gekk, – „því ég var sú kóngsdóttir er hún lagði þetta á og Skokvar er minn sannur bróðir því hann varð af því epli er konan borðaði. En nú er það fram komið að hann er orðinn kóngur og því losaðist ég úr þeim vondu álögum er ég varð alltaf að vera sem versta förukerling út á skógi.“

En er kerling hafði lokið ævisögu þeirra systkina bað hún að ljá sér rekkju og lagðist þar í. En þá lítil stund var liðin var hún þegar dáin sökum elli og margslags mæðu. Þess ber að geta að þá drottning hafði lagt á systkinin og kóngur varð þess var að þau vóru hvorfin lét hann leita þeirra og harmaði þau mikið. Hafði þá drottning byrlað honum eiturbikar og drepið hann.

Síðan sezt Skokvar að ríki sínu og ríkti þar til elliára. Nokkur börn átti hann með drottningu sinni, en ekki er[u] neitt nafngreind nöfn þeirra. Ljúkum vér so sögunni af Skokvari kóngi.

Mér gleymdist fyrri í sögunni að geta þess að þegar kóngsdótturin sá manninn allsnakta leika upp í mænirnum á kastala sínum að það var Skokvar og hékk hann þar á þeim fyrnefndu taugum er hann dró úr skrokknum á dýrinu því er hann skaut fyrst á skógnum; því þær höfðu þá náttúru að hvar sem hann kastaði þeim til eða lagði þær þar voru þær so fastar að enginn náði þeim nema þegar hann vildi sjálfur. En ekki sá kóngsdóttir þessar taugar er hann hékk á vegna þess þær vóru so mjóar.