Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Tístram og Ísól björtu

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1864)
Sagan af Tístram og Ísól björtu

Eitt sinn réð kóngur og drottning fyrir landi einu. Þeim varð ei barna auðið; féll kóngi það þungt og sakaði drottningu um það.

Eitt sinn fór kóngur í leiðangur; sagði hann þá við drottningu að yrði hún ekki barnshafandi er hann kæmi aftur yrði það hennar bani. Drottning varð mjög hrygg af orðum hans og grét beisklega. – Eitt kvöld var hún úti stödd; kom þá kona ein til hennar og spurði því hún gréti. Drottning sagði sem var. Aðkomukonan bað hana ganga með sér. Hún gjörir það og gengu þær til sjávar. Þar var bátur einn lítill; setur aðkomukonan hann fram og biður drottningu að stíga á hann; rær hún síðan unz þær sjá land. Þar voru mörg silkitjöld á landi. Hin ókunna kona fær drottningu rauðan og bláan silkiskrúða, en sjálf er hún í svörtum. Þetta var kóngurinn, eiginmaður drottningar, er landtjöldin átti. Gengu þær nú gagnvart herbúðunum. Þetta sáu sveinar kóngs og sögðu honum að þar gengu fagrar meyjar. Kóngur mælti: „Færið mér mærina þá fagrari.“ Þeir gerðu svo og fóru með hana til kóngs; gekk hann í sæng með henni um kvöldið og samrekkti henni um nóttina. En er undir morgun leið tók gamla konan í hönd drottningar og fór með hana sömu leið til bátsins; reri hún sem fyrri. Þegar þær komu til lands fylgir hún drottningu til hallar og biður hana vera glaða því að nú sé hún orðin barnshafandi. Nokkru síðar kom kóngurinn heim og var hann hinn sami við drottningu sína; ól hún barnið og dó síðan. Ólst nú barnið upp hjá föður sínum; var það stúlka og fyrir fegurðar sakir var hún kölluð Ísól bjarta.

Það var snemma iðja hennar að vera oft hjá veikum. Með sjónum voru græðsluhús, þangað gekk hún einatt. Einu sinni þegar hún reikaði með sjó fram sá hún stórt skrín og rak í það fótinn; heyrðist henni þá sem barn gréti í skríninu. Kóngsdóttir átti kastala einn fagurbúinn og hafði hún sér tvær þernur er hétu Eyja og Freyja; þessum bauð hún að taka skrínið, en þær hlógu og sögðu að það sæmdi henni ekki, er væri kóngborin, að bera kuðungaskrínu úr fjörunni heim til sín. Kom þá þykkja í Ísól og kvaðst sjálf geta borið skrínið og tók hún það undir hönd sér. Fer hún nú með skrínið í kastala sinn og lauk því þar upp; sá hún þar sveinbarnsandlit undurfagurt og var ritað í skrínislokið með gylltum stöfum: „Tístram kallaði hún sveininn sama.“ Epli lá í munni barnsins og hafði það hrokkið út úr því þegar Ísól setti fótinn í skrínið. Hún varð glöð við þetta, en þernurnar urðu hljóðar við. Hún gekk til föður síns og bað hann lofa sér að ala barnið upp unz það yrði tólf ára. Svo hafði staðið á sveini þessum að hann var kóngborinn. Ljósu hans þótti hann svo fagur er hann fæddist að hún fór þannig með barnið af hatri til drottningar og lét dauðan hvolp hjá henni í staðinn; varð kóngurinn þá svo reiður að hann myrti drottningu sína, en fám dögum síðar beið hann ósigur fyrir ræningjum og drápu þeir hann.

Einu sinni þegar kóngur (ᴐ: faðir Ísólar) gekk með sjó fram sá hann fyrir sér konu eina fagra og gekk á fund hennar. Hún var að greiða hár sitt með gullkambi. Hann gekk að henni, minntist við hana og bað hana með sér fara. En hún grét og bar sig aumkunarlega. Hann huggaði hana sem hann kunni og kvaðst skyldi gera hana að eigindrottningu sinni. Þá brosti konan og hugsaði sér gott til glóðarinnar. Dóttur átti hún er Ísóta svarta hét, en ekki lét hún kóng af því vita og giftist hann henni þann sama dag.[1] Ísól var þar ekki við; því hún var ávallt í kastala sínum nema hvað hún gekk sér til skemmtunar út á skóg.

Þegar kóngur og drottning höfðu eitt ár saman verið kastaði hún fæð á hann; gekk hann fast á hana að segja sér hvað fákæti hennar ylli. Hún sagði sér þætti hann hirða lítið um lönd sín og ríki. Við þessi orð brá honum mjög og bjó þegar mikinn skipaflota; hélt síðan af stað og tók Tístram með sér; var hann þá tólf ára. Ísól saknaði hans mjög, en tryggðir bundu þau sín á milli; skildi hún við hann grátandi og skemmumeyjar hennar. Sigldu þeir svo burt. Drottning var nú ekki aðgjörðalaus; rak hún þræla sína út á skóg og sagði þeim að gera stóra gröf og djúpa og byrgja hana síðan með neti, hálmi og skógargreinum. Þrælarnir gerðu eins og hún lagði fyrir, og þegar þeir höfðu lokið starfa sínum sögðu þeir drottningu til. Daginn eftir var ágætt veður og gekk stjúpa Ísólar til kastala hennar. Ísól býður hana velkomna, en þó var hún fákát mjög; vildi stjúpa hennar ræta af henni með öllu er gæti verið henni til gleði. Hún bað hana ganga á skóg með sér og þernur hennar og það gerði hún; gekk drottning við hægri hlið Ísólar og Ísóta við hlið Freyju; töluðu þær margt saman unz þær duttu í einu í gryfju eina allar þrjár, kóngsdóttir og þernur hennar; hlógu þær mæðgur þá hlátur stóran sem flögð. Þá mælti stjúpan: „Nú er mátulega komið, í stað þess að þú, Ísól bjarta, áttir að eiga Tístram skal nú Ísóta svarta eiga hann.“ Byrgja þær nú gryfjuna og ganga heim í glöðum hug og þykjast vel hafa komið ár sinni fyrir borð; hótaði drottning að drepa hvern þann er nefndi Ísól björtu á nafn. Ísóta svarta sat nú í kastala hennar.[2]

Nú er frá því að segja að kóngur kemur heim úr leiðangri og Tístram með honum; gengu þær til strandar á móti þeim, drottning og dóttir hennar; er þeim ekið í gulllegum vögnum heim til borgar. Tístram spyr að Ísól, en í stað þess að svara ber drottning honum drykk og biður hann drekka.[3] Tístram gerir það; en þegar hann hefur drukkið bregður honum undarlega við, því hann man þá alls ekki eftir Ísól, heitmey sinni. Situr hann nú hjá kóngi í góðu yfirlæti og er drottning ávallt að hvetja hann til að eiga Ísótu og lofar hann því; því hann mundi ekki eftir heitmey sinni. Ísóta sótti mjög fast á að hann ætti sig heldur fyrr en síðar.

Nú er að segja frá Ísól og þernum hennar að þær sátu innbyrgðar í gröfinni og eftir langan tíma deyja þær Eyja og Freyja; en Ísól[4] tekur skæri upp úr vasa sínum er móðir hennar hafði gefið henni í tannfé, og skyldi hún þau aldrei við sig skilja. Með þeim býr hún til tröppur upp úr gröfinni og kemst hún svo upp, en missir skærin ofan í gryfjuna;[5] getur hún nú ekki unnið það fyrir að fara niður til þess að ná þeim, heldur gengur hún af stað unz hún kemur í eitt rjóður. Þar nemur hún staðar og veltir fyrir sér hvernig hún eigi að fara; þykir henni tiltækilegast að fara heim til borgar,[6] en fara þó huldu höfði svo hún þekkist ekki. Tekur hún því það ráð að hún gerir sér klæðnað úr skógarlaufum og fer í hann. Síðan gengur hún af stað til hallar kóngs, kemst í eldaskála og hittir eldabusku; var hún svöng mjög og biður eldabusku að gefa sér matarbita, en býður henni að bæta fyrir hana í staðinn og gera að fötum hennar; þáði kerling það. Ísól bætti og saumaði svo vel að eigi þóttust menn hafa séð slíkt handbragð.

Nú líður að brúðkaupi Tístrams og Ísótu og skal brúðarefnið sauma þeim föt; er hún nú í standandi vandræðum stödd því ekki gat hún saumað klæðin og var það þó ekki af því að ekki væri nóg lagt til, heldur af hinu að hún var vanari að leggjast með þrælum en stunda hannyrðir. Út úr vandræðum fer hún nú til eldabuskunnar og biður hana að hafa einhver góð ráð. Hún segist hafa kerlingu í fórum sínum sem sé vel fallin til að sauma klæðin. Ísóta verður mjög fegin og fær henni efnið í klæðin, en hún fer til Ísólar og biður hana að sauma þau. Ísól saumar nú klæðin á þann hátt að hún leggur alla sauma á klæðum brúðgumans með gulli, en hvergi brúðarklæðin. Fær hún nú kerlingu fötin þegar þau eru búin og fer hún með þau til Ísótu. Ísóta tekur við þeim og líkar henni stórilla þegar hún sér föt hans svo dýrleg, en sín óvönduð, en svo búið varð að standa því ekki mátti fresta brúðkaupinu þar eð brúðurin var komin að falli. En þó dróst brúðkaupið of lengi því nóttina fyrir varð hún léttari og var það barn þrælborið. Nú tekur hún það til bragðs að hún sendir eftir konunni ókunnugu sem saumaði klæðin og biður hana að bera klæði sín og ganga í sinn stað einungis þann daginn því það sé heiðursdagur sinn; biður hún hana gera þetta fyrir sig því hún liggi í blóðböndum eftir barnburð, en þess biður hún hana lengstra orða að tala ekki orð því hún var hrædd um að allt mundi þá komast upp og Tístram mundi yfirgefa sig. Ísól gerir sem hún beiddi. Fer nú veizlan fram og ganga brúðhjónin með mikilli fylgd á skóg sér til skemmtunar.[7] Vill þá svo til að þau ganga hjá tóftarrúst einni. Þá segir brúðurin:

„Áður varstu björt á fold,
nú ertu orðin svört af mold,

skemma mín.“ Tístram spurði hvað hún segði, en hún þagði. Síðan gengu þau lengra og hjá læk einum, þá mælti hún:

„Hér rennur lækur sá
er Tístram og Ísól bjarta
bundu sína ást og trú;
hann gaf mér hringinn,
ég gaf honum glófana,
og vel máttu muna það nú.“

Hann spurði hana hvað hún segði svo oft, en hún þagði. Ganga þau nú lengra og hjá gryfju stórri, þá sagði hún og leit á gryfjuna:

„Hér liggur Eyja og Freyja,
báðar mínar skemmumeyjar.
Skæri mín þeim skildi ég hjá
og dauðum gekk svo báðum frá.“[8]

Enn spyr hann hana hvað hún tali og vilji ekki segja sér. En hún þegir. Gengu þau síðan heim. Um kvöldið fer Ísól til Ísótu og segist hafa lokið þessu fyrir hana, sé nú kominn tími til að ganga til rekkju. Ísóta dregst nú með veikan mátt í brúðarföt sín og gengur til sængur. Er Tístram þá kominn upp í, en hún ætlar þegar eftir. Hann mælti: „Bíddu við, þú ferð ekki upp í hvílu mína fyrr en þú segir mér orð þín hjá rústunum.“ Henni varð bilt við, en áttaði sig þó bráðum og kvaðst hafa gleymt fingurgulli sínu og yrði hún að sækja það fyrst. Fer hún síðan út og finnur Ísól og spyr hana því hún hafi ekki þagað eins og hún hafi beðið hana, og hvað hún hafi sagt hjá rústinni. En hún hafði upp hin sömu orð. Hún fer nú inn, hafði upp orðin og mælti síðan: „Nú vil ég fara upp í.“ Hann svarar: „Nei; þú bíður við. Hvað sagðirðu hjá læknum?“ Hún læzt hafa gleymt einhverju og fer aftur fram og er hin reiðasta; talar hún þá þessum móðgunarorðum til Ísólar: „Hvern þremilinn kjaftaðirðu hjá læknum?“ Ísól sagði henni orð sín og varð hún að hafa þau fjórum sinnum upp fyrir Ísótu þangað til hún lærði þau. Gengur hún nú inn með fasi miklu og segist ekki hafa talað stórt og segir honum orðin. Er henni nú orðið mjög kalt og segist hún verða að fara upp í, því sér sé illt. Hann svarar: „Ekki fyrr en þú segir hvað þú talaðir hjá gryfjunni;“ fer hún nú fram í þriðja sinn. En hann fer að gruna margt og læðist á eftir henni og hefur sverð sitt í hendi. Heyrir hann þá að hún atyrðir einhvern og gætir nákvæmar að og hlustar á talið. Heyrir hann nú að hún segir að hún megi þola þetta af honum í blóðböndunum einungis vegna kjaftæðisins í henni. Ísól segir henni orðin og ætlar hún inn aftur með það. En Tístram hafði brugðið sverðinu í dyrunum og lagði hana í gegn. Síðan gengur hann að rúmi drottningar og drap hana. Fer hann svo til Ísólar, en þekkir hana þó ekki, kallar hana inn til sín og setur sverðið fyrir brjóst henni og segist muni drepa hana nema hún segi sér satt. Ísól gjörir það. Þá þekkir Tístram hana og verður þar fagnaðarfundur. Þau ganga nú að hvílu kóngs og verður hann mjög feginn dóttur sinni. Síðan giftust þau og tók Tístram við kóngdómi eftir tengdaföður sinn og ríkti til dauðadags.

  1. Aðrir segja svo frá byrjun þessarar sögu að Tístram hafi verið sonur kóngsins og drottningarinnar. En kóngurinn hafi haft þann vana að láta jafnan ganga á fjörur og vita hvað að landi bæri, hafi þá menn hans einu sinni komið heim með bikaðan stokk ekki mjög lítinn; lét kóngur opna hann og var í honum meybarn undurfrítt og var epli í munni þess. Kóngi þótti vænt um þenna fund og lét hressa barnið við og fóstra það með syni sínum og kallaði það Ísoddu. Þau kóngur og drottning unnu jafnmikið ísoddu sem Tístram og kölluðu hana dóttur sína. Þegar börnin eltust og voru fram undir það fullvaxta hétu þau hvort öðru tryggðum svo ekki vissu foreldrar þeirra né aðrir því þau voru alltaf saman og allir álitu þau sem skilgetin systkin. Eftir þetta tók drottning sótt og gerði þá boð eftir börnum sínum til að blessa þau, biðja fyrir þeim og minnast við þau. Um leið gaf hún Ísoddu linda, gullskæri og gullhring og sagði hún skyldi aldrei skilja þetta við sig og hver sem hefði lindann um sig fyndi aldrei til svengdar. Eftir þetta andast drottning og varð þá harmur mikill í borginni, en mest hörmuðu þau kóngur og börn hans lát hennar. Þau Tístram og Ísodda áttu kastala einn bæði saman skammt frá kóngsborginni; sátu þau þar inni löngum, hann með sveinum sínum og hún með meyjum sínum; af þeim eru tvær nefndar sem næst gengu kóngsdóttur um alla hluti og henni voru kærastar; þær hétu Ey og Mey (Þey). Kóngur hafði ofan af fyrir sér með útreiðum og útgöngum og fór þá oft einmana. Á einni þeirri ferð fór hann lengra en hann var vanur; kom hann þá fram í skógarrjóður eitt, þar sá hann konur tvær fríðar, aðra nokkuð við aldur, en hina unga; þær voru daprar í bragði og gekk kóngur til þeirra og heilsaði þeim. Eldri konan greiddi sér með gullkambi þegar kóngur kom að þeim, og sveiflaði hárinu til hliðar þegar hún varð mannsins vör, og tók kveðju kóngs. Þau spyrja hvort annað um ástand þeirra og lézt eldri konan vera nýbúinn að missa kóng sinn fyrir víkingum sem á hann hefðu herjað og hefði hún þá farið úr landi með dóttur sína og gengið hér á land af skipunum, því sér hefði þótt svo fagurt hér á land að líta. En þegar hún hefði komið aftur þangað sem skipin voru hefðu þau verið öll á burtu og því hefðu þær mæðgur orðið þar eftir. Bað hún nú kóng að lofa [sér] að hafast við með hirð hans og lét hann það eftir henni. En skammt leið um að eldri konan kom sér svo í mjúkinn við kóng að hann átti hana. (Síðan fer líkt og fram segir í hinni sögunni.)
  2. Hin sögnin segir að þær drottning og dóttir hennar hafi ekki komið heim fyrr en nóttina eftir að þær gengu með Ísoddu og meyjum hennar, hafi þær þá lagt eld í kastalann og brennt hann upp.
  3. Kóngur spurði sjálfur að því þegar drottning kom til strandar á móti honum því Ísodda væri ekki með henni. En drottning sagði sem fyrr segir að eina nótt skömmu eftir að kóngur var farinn burtu hefði kastali hennar brunnið upp og hefðu þær stallsystur líklega farið eitthvað ógætilega með eld eða ljós. Af þessu varð Tístram óhuggandi og þá bar stjúpa hans honum drykkinn, en hann drakk og fór þá sem hér segir.
  4. Hún dó ekki af því lindinn forðaði henni hungurmorði.
  5. „og fingurgullið“ segir hin sögnin.
  6. Í garðshorn, sem var hjá borginni, og kallaði sig Næfrakollu; þar hafðist hún við hjá karli og kerlingu, gerði allt fyrir þau sem gera þurfti, var þeim trú og hlýðin; en þeim þótti vænt um hana því bæði var hún hannyrðasteinka hin mesta og kunni vel til matgerðar. Karl sagði drottningu frá kvenmanni þessum, hældi henni á hvert reipi og bauðst til að ljá drottningu hana þegar hún vildi.
  7. Hin sögnin getur hvorki um klæðasauminn né barneign Ísótu, en að það hafi verið venja brúðgumans að ríða út við fámenni þrjá daga á undan brúðkaupi sínu á afvikna staði til að biðjast fyrir. Drottning valdi þá Tístram til fylgdar Næfrakollu því hún hugsaði að hann mundi ekki verða ástfanginn af henni, en beiddi hana þess þó lengstra orða að tala sem fæst við Tístram. Fyrsta daginn riðu þau hjá rústum þeim sem eftir voru af kastala þeirra. Þá segir Næfrakolla:
    „Hér uxu laukar
    og hér göluðu gaukar.“
    [sbr. vísuna sem oftast kemur fyrir í sögunni af Mjaðveigu Mánadóttur
    „Hvað sagðirðu núna?“ segir Tístram. „Ég sagði ekki neitt,“ svaraði Næfrakolla; „rídd þú og rídd þú.“ Annan daginn riðu þau út á skóg hjá gryfjunni sem drottning hafði steypt þeim stallsystrum í. Þá segir Næfrakolla:
    „Hér liggur mitt fingurgull og skæragull,
    hér liggur mín Ey og Mey.“
    Eftir það fóru þeim sömu orð á milli og fyrri daginn. Þriðja daginn riðu þau yfir læk einn á skóginum, þá segir Næfrakolla:
    „Hér er nú sá lækur
    sem Tístram og Ísodda bundu sína ást og trú,
    og vel skyldirðu halda hana nú.“
    Þeim fara enn hin sömu orð á milli og fyrsta daginn og vill Ísodda ekkert segja honum meira. Daginn eftir var búizt við brúðkaupi Tístrams og dóttur drottningar, en Næfrakolla var fengin hjá karli og kerlingu til að ganga mönnum fyrir beina, og fór það allt í sniðum. Um kvöldið lét Tístram kalla hana fyrir sig inn í höllina þar sem allir heyrðu á orð þeirra og spurði hana hvað hún hefði átt við með því sem hún hefði sagt fyrsta daginn hjá kastalarústunum. Hún sagðist hafa sagt það eitt sem satt var; því hún hefði átt laukagarð hjá kastalanum, en hann hauka (gauka?) marga og hefðu þau skemmt með hvorutveggja. Þá spyr hann hana hvað það hafi átt að þýða sem hún hefði sagt hjá gryfjunni. Hún segist hafa sagt söguna eins og hún gekk, að þeim stallsystrum hefði verið steypt þremur í gryfjuna og þar hefðu þær Ey og Mey orðið hungurmorða, en lindinn hefði hlíft sér og hún hefði getað komizt upp úr gryfjunni með aðstoð skæranna, en misst þau aftur ofan í og fingurgullið. „Hvernig stendur á þessu?“ segir kóngsson, „mér finnst þetta svo undarlegt.“ Þá spyr hann hana enn hvað hún hafi verið að tala um síðasta daginn. Hún segist hafa verið að rifja upp fyrir honum og minna hann á að þau hafi heitið hvort öðru tryggðum hjá læknum á skóginum. „Hvernig er þessu varið?“ segir kóngsson; „mér finnst eins og þú sért Ísodda eða því fórust þér þannig orð?“ Næfrakolla segir: „Af því ég er Ísodda.“ Þá hnykkti öllum við sem í höllinni voru; en þær mæðgur færðust í tröllshamina og urðu margir til að ganga áður en þeim varð komið í bönd og í dýflissu. Eftir það sagði Ísodda upp alla sögu eins og hún hafði gengið. Settist hún svo á brúðarbekkinn hjá Tístram, en þær mæðgur voru settar aftan í ótemjur sem slitu þær sundur. Tístram tók við ríkisstjórn af föður sínum og unnu þau Ísodda hvort öðru mikið.
  8. Þessa vísu hefur herra Gísli Brynjúlfsson þannig (sjá athugasemd við næstu sögu á undan):
    „Hér liggur Ey og Þey,
    báðar mínar skemmumey;
    skildi' ég eftir skærin hjá,
    gekk ég báðum dauðum frá.“