Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af flókatrippunum
Sagan af flókatrippunum
Kóngur hét Tóki; hann átti ríki og ráðgjafa marga. Einn þeirra hét Rauður; hann var kóngi so handgenginn að allt er Tóki vissi sagði hann Rauði. Kall og kerling áttu þrjá syni; yngsti hét Sigurður. Hann gerði allt sem verst var og var látinn sofa í öskustónni.
Og er fram liðu tímar vildu eldri bræður fara og biðja konungsdóttur og fengu þeir nesti og nýja skó. Gengu þeir nú til þess er þeir komu í dal allan grasi vaxinn. Þar settust þeir niður og borðuðu. Sáu þeir sjö ótamin trippi þar í dalnum og eitt af þeim gekk til þeirra og spurði þá að hvurt þeir vildu hafa sig með eða mót, og þeir sögðu að þeim væri sama; gekk það í burtu. Fóru þeir nú til borgar heim og þótti kóngi kynlegt að þeir skyldu voga sér að biðla til dóttur hans. Vissi hann ei hvurnin hann skyldi launa þeim það og sagði að bónorðið ættu þeir að eiga við Rauð ráðgjafa sinn. Er ekki getið um aðgang þeirra öðru vísi en Rauður lét hengja þá á gálga. Heyrðist þetta í kallskot og vildi yngsti sonurinn fara sömu ferðar og að minnsta kosti hefna bræðra sinna þó óverðugir væru þess. Gekk hann nú sömu leið er bræður hans höfðu gengið og allt í dalinn, settist í sama stað og þeir og borðaði þar. Sá hann nú sjö trippin og eitt kom og spurði hann: „Viltu hafa mig með eða móti?“ Drengurinn sagði að ekki væri so aumt jarðarkvikindi til að hann ekki vildi heldur hafa með en mót. Þá sagði trippið: „Þar þú ert skólítill þá skal ég bera þig til hesthússtalls míns;“ og var það nú hjá borgargarðinum. Fer nú drengurinn af baki trippinu; það gekk að stallinum; sagði það við drenginn: „Þú munt nú eins og aðrir fá að semja við Rauð um konungsdóttur og skaltu setja so að þið í þrjá daga leitið hvur að öðrum og finni Rauður þig þrisvar sinnum og þú hann aldrei skal hann eiga konungsdóttur. En finnir þú hann í þrjú skipti og hann þig aldrei nýtur þú hennar. Á morgun felur þú þig og kemur til mín áður.“ Fer nú Sigurður til Tóka konungs og vísar hann honum til Rauðs og setja þeir nú þessa skilmála. Um morguninn fer drengur til trippis síns og segir hvurnin fór. Segir þá trippið: „Í dag læt ég þig að strái verða í jötu minni.“ Leitar Rauður um daginn og finnur drenginn ekki. Nú skal Rauður fela sig, og segir trippið í dag skuli hann láta sér hægt um leitina til þess er kóngur fari að ýta undir hann; þá skuli hann segja: „Ég leita ekki í neinum stað, en í höfðinu á yður vil ég leita lúsa.“ „Og fáir þú það ekki skulir þú ómark gera leitina – því Rauður er ein lús í hvirfli kóngs. Taktu óþyrmilega til hennar og klíptu hana vel; mun hann þá segja til sín.“ Reyndist allt ettir sögu trippisins og bað Rauður Sigurð fyrir að drepa sig ekki þegar hann kreisti lúsina. Nú átti Sigurður að fela sig og fór hann til trippis síns og sagði það honum að verða að einu hári í tagli sínu. Leitaði Rauður allan þann dag til kvölds og fór jafnnær, og var nú að morgni annar feludagur Rauðs. Sagði trippið við Sigurð að eldakonur syðu í dag slátur – „og eru lungu bundin við eyru pottsins. Þeim máttu til og ná, því í þeim er baun stór og er það Rauður. Hana skaltu berja með hamri.“ Og fer nú drengur og í eldabúr, og er hann að dyrunum kemur senda þær á móti honum eld og sjóðandi vatn. Drengur getur samt náð lungunum og finnur baunina og ber hana til er Rauður er þar út kominn. Var nú seinasti dagur drengsins. Fer hann að trippinu; það lætur hann verða að einu hári í faxi sínu. Rauður fer nú í hesthúsið og leitar í jötunni hár fyrir hár og strá fyrir strá, klippir af trippinu allt hárið. En er hann ætlar að klippa faxið slær og bítur það hann so hann má fara so búinn heim og hefur ekki getað Sigurð fundið. Á nú hann ettir í eitt skipti að leita að Rauði. Segir nú trippið að kóngurinn eigi hvolpatík í einu kamesi upp á hæstu loftum; – „hún liggur á þremur hvolpum og einn þeirra er svartur og í honum er Rauður og áttu að kreista [hann] og kvelja til þess er Rauður komi úr honum;“ muni hann að vísum lyklum geta gengið að öllum hurðum nema [kamesi] því er tíkin sé í og geymi konungur hann sjálfur og ef hann ekki fái lykilinn skuli hann þá fundinn vera. Allt fer nú sem trippið hefur sagt og fær drengurinn viðstöðulaust alla lykla nema að þessu eina herbergi og þrátta þeir nú um hann og má nú kóngurinn til og fá honum lykilinn. Fer hann nú fljótt þangað og finnur melluna langt innar undir rúmi þar. Og nær hann nú svarta hvolpinum, fer með hann út, kreistir og lemur og ber til þess er Rauður springur þar út og er[u] nú unnar þrautirnar. Fer nú Sigurður til trippisins og þakkar því fyrir hjálpina; en trippið biður hann nú bezt ettir sér muna á heiðursdegi sínum og koma þá til sín.
Nú er Rauður hengdur á gálga og menntar nú kóngur Sigurð til þess að hann er fær um að eiga dóttur hans og er nú brúðkaup þeirra haldið. En er það var úti og hjónin áttu til sængur að ganga verður Sigurði so illt við að hann hleypur út og með ákefð að hesthúsi og er þá trippið horfið. Verður hann nú hræddur og leitar. Gengur hann nú í dalinn er þau áður voru. Sér hann nú að sjö menn liggja og hjá hverjum þeirra trippishamur. Dreypir hann nú á þá alla og brennir upp hami þá er þar voru og þakka þeir nú honum ósegjanlega lífgjöf þeirra því Rauður hafði lagt á þá alla og höfðu þeir allir beðið konungsdóttur. Varð nú stór gleði af þessu í ríkinu og skildu þeir allir með mestu vinsemd.
Lýkur so sögunni af trippunum.