Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af hestinum Gullfaxa og sverðinu Gunnfjöður

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Sagan af hestinum Gullfaxa og Sverðinu Gunnfjöður

Í fyrri dögum réð smákóngur fyrir ríki sínu; hann átti sér eina drottningu og með henni einn son sem hét Sigurður. Þegar hann var tíu ára gamall tók drottningin sótt og andaðist. Að fornum sið lét kóngur heygja drottningu sína skammt frá borginni hvar hann sat oft á daginn að syrgja drottningu sína.

Einn góðan veðurdag sat konungur eftir vana á haugi drottningar sinnar; sér hann hvar vel klædd kona gengur. Hann spyr hana að heiti og hún segist heita Ingibjörg, og hún segir hvert hann, kóngurinn, skuli vera hér úti einn. Kóngur segist hafa misst drottningu sína og vera að syrgja hana, en hún segist hafa misst mann sinn í gær og sé þá rétt að þau taki saman. Kóngi fell hún vel í geð og segir henni að fylgjast með sér til ríkis síns og gjörði brúðkaup til hennar fáum dögum síðar. Nú verður kóngur glaður aftur og ríður oft á skóg að skemmta sér; en Sigurður elskaði mikið stjúpu sína og var kyr heima hjá henni.

Eitt kveld segir Ingibjörg við Sigurð: „Á morgun skalt þú fara með föður þínum;“ – en Sigurður segist helzt vilja vera heima hjá henni. Næsta morgun þegar kóngur ríður út og Sigurður á að fara með föður sínum af stað vill Sigurður eigi hlýða stjúpu sinni; en hún segir að hann hafi eigi gott af því og megi gá að því að hlýða sér betur eftirleiðis; en þegar kóngur er farinn tekur hún Sigurð og felur hann undir rúminu sínu og segir að hann megi vera þar kyr þangað til hún kalli. Að þessu liðnu heyrir Sigurður dunur miklar og honum finnst gólfið skjálfa. Hann sér að tröllkona kemur í dyrnar og veður jörðina í ökla og segir: „Heil sértu, Ingibjörg systir. Er Sigurður kóngsson heima?“ „Nei,“ segir Ingibjörg; „hann reið með föður sínum í morgun út á skóg að skemmta sér.“ Ingibjörg ber þá mat á borð fyrir systur sína og þegar þær hafa matazt segir tröllkonan við systur sína: „Ég þakka þér fyrir beztu krásina, bezta lambið, beztu ölkonuna og bezta drykkinn. Er Sigurður kóngsson heima?“ Ingibjörg segir nei. Nú kvaddi tröllkonan systur sína og gekk burtu. Þá segir Ingibjörg Sigurði að koma fram úr felustaðnum.

Nú kemur kóngur heim um kveldið og veit ekki neitt af því sem fram er farið. Næsta morgun þegar kóngur ætlar af stað segir Ingibjörg Sigurði að hann skuli fara með föður sínum. Hann svaraði á sömu leið sem fyrra daginn og kvaðst vilja vera heima. Nú felur hún Sigurð undir borðinu og segir hún að hann hafi illt af því að hlýðnast sér eigi. Að því liðnu byrjar jarðskjálfti mikill og tröllkona kemur í dyrnar sem veður jörðina í kálfa og segir: „Heil sértu, Ingibjörg systir. Er Sigurður kóngsson heima?“ „Nei,“ svaraði Ingibjörg; „hann fór í morgun út á skóg með föður sínum að skemmta sér.“ Nú ber Ingibjörg mat á borð fyrir systur sína, en þegar þær eru mettar orðnar stendur tröllkonan upp og segir: „Ég þakka þér fyrir beztu krásina, bezta lambið, beztu ölkonuna og bezta drykkinn. Er Sigurður kóngsson heima?“ Ingibjörg svaraði nei og skiljast þær við svo búið. Nú kemur Sigurður fram undan borðinu til stjúpu sinnar og hún segir við Sigurð að þeim liggi mikið á að hann sé ekki heima á morgun, en Sigurður kvað það eigi saka.

Að næsta morgni þá kóngur er ferðbúinn kemur Ingibjörg á tal við Sigurð og segir hún að hann skuli nú af stað með föður sínum, en Sigurður þverneitar. Þegar kóngur er farinn, tekur hún Sigurð og felur hann á milli þils og veggjar. Í því sama byrjar jarðskjálfti mikill og Ingibjörg sér að hin þriðja systir sín kemur í dyrnar sem veður jörðina í kné og segir með óttalegri röddu: „Heil sértu, Ingibjörg systir. Er Sigurður kóngsson heima?“ „Nei.“ segir Ingibjörg; „hann er með föður sínum út á skógi að skemmta sér.“ „Það er lygi,“ segir tröllkonan og þrætast þær þá um það; segir Ingibjörg að ekki sé [hann] heima. Þegar þær hafa þrætzt mikið ber Ingibjörg mat á borð fyrir systur sína, en þegar hún hefur matazt segir tröllkonan: „Ég þakka þér fyrir beztu krásina, bezta lambið, beztu ölkonuna og bezta drykkinn. Er Sigurður kóngsson heima?“ „Nei,“ svaraði Ingibjörg, „og hefi ég sagt þér það áður að hann fór með föður sínum í morgun að skemmta sér;“ en þá segir tröllkonan með dimmri röddu: „Sé hann svo nálægt að hann heyri mál mitt þá mæli ég um og legg ég á að hann verði hálfur brenndur og hálfur visinn og hafi hverki frið né ró fyrr en hann finnur mig.“ Að því liðnu skiljast þær. Þá tekur Ingibjörg Sigurð fram og er hann þá hálfur visinn og hálfur brenndur. „Nú sérðu hvernig fór, en nú er að brúka tímann, því faðir þinn kemur senn heim.“ Hún tekur hnoða úr kistu einni og þrjá gullhringa og segir við Sigurð: „Þá þú lætur hnoða þetta á jörðuna mun það velta þangað til það nemur staðar við björg ein og munt þú fylgja því; þá sér þú að fram á björgin kemur tröllkona ein og er það hin fyrsta systur mín; og hún mun kalla niður til þín og segja: „Gott og vel; hér er kominn Sigurður kóngsson; hann skal í pottinn í kveld;“ – og skalt þú samt vera óhræddur, og hún mun draga þig upp til sín með krókstjaka einum. Þá heilsar þú frá mér og færir henni hinn minnsta gullhring og mun hún þá verða léttbrýn við þá hún sér gullið og bjóða þér til glímu; en þá þú ert máttlaus mun hún bjóða þér að drekka af horni einu þar til þú færð krafta þá að þú ert orðinn hennar yfirmaður og hún lætur þig vera hjá sér til næsta morguns. Sömu aðferð munu og hinar brúka; en mundu mig um það þegar hundur minn kemur til þín og flaðrar upp um þig og tárin renna niður eftir trýninu á honum þá mátt þú flýta þér heim, því þá liggur lífið mitt við og mundu þá eftir stjúpu þinni.“

Nú leggur hún hnoðað á jörðina og Sigurður skilst við stjúpu sína með trega miklum; og að kveldi sama dags nemur hnoðað staðar við hin fyrstu björg og Sigurður sér að fram á björgin kemur tröllkona ein. Þegar hún sér Sigurð kallar hún og segir: „Gott og vel; hér er kominn Sigurður kóngsson; hann skal í pottinn í kveld. Stattu upp, lagsmaður, og komdu að glíma við mig“ – og í því sama réttir hún krókstjaka niður og dregur Sigurð upp til sín. Sigurður skilar heilsan frá systur hennar og fær henni hinn minnsta gullhring. Tröllkonan verður léttbrýn þá hún sér gullið, og býður Sigurði til glímu; og þegar hún finnur að hann er máttlaus gefur hún honum að drekka af horni einu þar til hann fær meiri krafta.

Að næsta morgni leggur hann hnoða sitt á jörðina; það nemur ei staðar fyrr en við björg ein. Sigurður litast um og sér tröllkonu eina koma fram á björgin; hún var stærri en sú fyrsta. Hún kallar upp og segir: „Gott og vel; hér er kominn Sigurður kóngsson; hann skal í pottinn í kveld. Stattu upp, lagsmaður, og komdu að glíma“ – og í því sama dregur hún Sigurð upp til sín. Hann heilsar frá stjúpu sinni og gefur henni þann annan gullhring; hún verður glöð þegar hún sér gullið, og býður honum til glímu; en þegar hún finnur að hann er máttlítill gefur hún honum að drekka úr horni einu þar til hann er svo sterkur að hann getur fellt hana með annari hendi.

Að morgni þriðja dags leggur hann hnoða sitt á jörðina og það veltur þangað til það nemur staðar við hin þriðju björg. Þá verður Sigurði litið upp; sér hann þar ógurlega tröllskessu koma fram á björgin. Þegar hún sér Sigurð segir hún: „Gott og vel; hér er kominn Sigurður kóngsson; hann skal í pottinn í kveld. Stattu upp, lagsmaður, og komdu að glíma.“ Í því sama dregur hún hann upp til sín. Hann skilar heilsan frá stjúpu sinni og færir henni hinn þriðja gullhring; hún verður glöð við gullið hið rauða og býður Sigurði að glíma; og þá er hún finnur að hann er máttlaus gefur hún honum að drekka af horni einu þangað til hann getur fellt hana á bæði kné. Tröllkonan segir við Sigurð: „Hér skammt frá er vatn eitt. Þangað skalt þú fara; þar muntu sjá litla stúlku er leikur sér að ferju einni. Þú skalt passa upp á að þú komir þér vel við þessa stúlku. Hér er gullhringur lítill sem þú skalt gefa henni og mun þá duga. Nú er þú orðinn frískur aftur og munu þín fyrirtæki vel heppnast.“

Að því liðnu skiljast þau og Sigurður gengur þangað til að hann kemur að vatni því sem áður var um talað; þar sér hann stúlku sem leikur sér að ferju einni. Hann gengur til hennar og spyr hana að nafni; hún segist heita Helga og foreldrar sínir búi hér skammt frá. Sigurður gefur henni hringinn og býðst til að leika sér með henni, og þar skemmtu þau sér það sem eftir var af deginum; en þegar Helga ætlar heim um kveldið biður hann hana að lofa sér með; en Helga segir að það eigi hún bágt með, því faðir sinn viti ef nokkur framandi komi í húsið. Samt lætur hún Sigurð fara heim með sér og fyrr en hann gengur inn bregður hún glófa sínum yfir hann og verður hann þá að ullarhönk sem hún ber undir hendinni, og þegar hún kemur upp kastar hún hönkinni upp fyrir sig í rúmið sitt. Í því sama kemur faðir hennar upp með fasi miklu, lyktar og leitar í öllum krókum og segir: „Fussum fei, mannaþefur í helli vorum. Hverju kastaðir þú áðan upp fyrir þig í rúmið, Helga dóttir mín?“ „Það var ullarhönk, faðir minn,“ sagði Helga. „Vera má að svo sé,“ sagði karlinn.

Nú líður nóttin; og að morgni þá Helga gekk út að leika sér tekur hún ullarhönkina með sér, og þegar hún kemur til vatnsins bregður hún glófa sínum yfir hönkina svo Sigurður kemur í sína mynd aftur og þau skemmta sér þar bæði saman þenna dag. Þá þau eru að fara heim um kveldið segir Helga við Sigurð: „Á morgun verðum við frjálsari að leika okkur, því faðir minn ætlar til kirkju og getum við þá verið kyr heima.“ Þegar þau koma heim bregður Helga glófa sínum yfir Sigurð og verður hann þá að ullarhönk og kastar hún hönkinni upp fyrir sig í rúmið sitt.

Næsta morgun þegar faðir hennar er farinn af stað til kirkjunnar bregður hún glófa sínum yfir Sigurð og fær hann þá sína réttu mynd og nú skemmta þau sér með því að Helga sýnir Sigurði í það eina hús eftir hið annað, því faðir hennar hafði fengið henni alla lyklana áður en hann fór af stað. Sigurður tekur eftir því að það er einn lykill sem Helga ekki lýkur upp með; hann spyr hana að, að hverju húsi þessi lykill gangi. Hún segir það vera aukalykil. Sigurður segir það ei satt vera – „og muntu ei vilja sýna mér í það hús.“ Hann sér hvar einar dyr eru með járnhurð fyrir. Nú biður hann Helgu með fögrum orðum að sýna sér í þetta hús. Helga segist það ei mega nema með því móti að hún ei opni dyrnar meir en í hálfa gátt. Sigurður kvað það nóg vera; en þá hún lauk upp hurðinni hrindir hann á hurðina og gekk inn. Þar sér hann hest einn standa með skrauti miklu og yfir honum hanga gullbúið sverð, og á hjöltum sverðsins stendur: „Hver sem á þessum hesti situr og með þessu sverði gyrðir sig mun gæfumaður verða.“

Nú biður hann Helgu að lofa sér að ríða einu sinni í kringum kotið með öllum áhöldum hestsins. Helga kvaðst það ei mega, en Sigurður biður hana því betur þar til hún lætur til leiðast; hún segir að hesturinn heiti Gullfaxi, en sverðið Gunnfjöður; – „hér er hrísla ein, steinn og stafur sem með fylgja. Þegar maður situr á hestsbaki og ofmaður manns kemur og vill ofsækja hann þá þarf maður ekkert annað en að fleygja hríslunni, þá verður það skógur mikill; en þegar ofmaðurinn er á eftir ennþá, þá á maður að taka stafinn og prika hinumegin á steininn þar sem hann er hvítur; þá kemur hagl svo mikið að hver sem þá er ofmaður manns drepst.“ Þegar Helga hefur sagt honum þetta biður hann hana um [að lofa sér] að ríða á hestinum. Hún lofar honum það endilega, en hann segir að hann skuli ekki ríða nema einu sinni kringum túnið með steininn, hrísluna og stafinn, og leyfir hún honum það þá; þegar hann hefur riðið einu sinni kringum túnið þeysir hann af stað.

Þegar faðir Helgu kemur heim og sér að Helga grætur spyr hann hana af hverju hún gráti. Hún segir honum þá upp alla söguna. Hann hleypur af stað eftir drengnum á klárnum Gullfaxa. Þegar Sigurður lítur aftur fyrir sig sér hann karlinn rétt á eftir sér. Kastar hann þá hríslunni og vex þá upp óttalega stór og þéttur skógur fyrir aftan hann svo karlinn varð að hlaupa heim eftir öxi til að höggva sig í gegnum skóginn. Sigurður lítur þá aftur fyrir sig í öðru sinni og sér að karlinn er rétt við taglið. Hann snýr sér við og prikar með stafnum á steininn þar sem hann er hvítur; þá kemur svo mikið hagl fyrir aftan hann að karlinn drepst, því hefði hann prikað án þess að snúa sér við þá hefði haglið komið á hann sjálfan og drepið hann.

Eftir þetta ríður Sigurður lengra áfram. Sér hann þá hvar tíkin hennar stjúpu sinnar kemur til hans og tárin renna niður eftir trýninu á henni; hann herðir sig þá heim til stjúpu sinnar og sér níu þræla sem hafa bundið hana og ætla að brenna hana. Þegar Sigurður sér hana stökkur hann af hestsbaki með sverðið Gunnfjöður í hendinni, gengur að þrælunum og drepur þá alla, en leysir stjúpu sína, setur hana á hestsbak og fer svo heim til föður síns. Kóngurinn var lagztur í rekkju og naut einskis; þegar hann sá son sinn varð hann mjög glaður. Sigurður sagði honum þá upp alla söguna, en kóngurinn hafði haldið að stjúpa hans hefði fyrirfarið honum.

Sigurður reið þá af stað til Helgu og sótti hana. Varð hann svo kóngur, en hún drottning; lifðu þau svo vel og lengi.

Og endar svo þessi saga.