Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af kóngsdótturinni og kölska
Sagan af kóngsdótturinni og kölska
Það var einu sinni kóngur og drottning í ríki sínu og karl og kerling í garðshorni. Kóngur og drottning áttu sér eina dóttur. Karl og kerling áttu sér einn son. Í þessu ríki var kristið fólk. Kóngur hélt mikið upp á dóttur sína, og þó menn bæði hennar vísaði hann öllum frá. Hjá kónginum var ráðgjafi sem hét Rauður; hann ætlaði sér kóngsdóttur. Karlssonurinn var gott mannsefni. Hann elskaði kóngsdóttur og þau hvort annað, en þorðu ekki að láta bera á því.
Einu sinni sem oftar fór kóngur út á skóg á dýraveiðar. Hann fór frá mönnum sínum og varð einn. Þá kom á svo mikil þoka að kóngur sá ekkert frá sér og villtist hann lengi. Loksins kom hann á einn hól og ætlaði að láta þar fyrirberast. Þá kom til hans maður og spurði hvort hann ætti að vísa honum til borgarinnar. Kóngur vildi það. „Þá verðurðu að gefa mér dóttur þína,“ segir komumaður. Kóngur færðist undan, en hinn gaf engan annan kost svo kóngur játaði því um síðir og lofaði að láta færa honum dóttur sína á þennan hól innan fjögra daga, því það áskildi hann líka. Síðan gekk hann með kóngi dálítinn spöl og þá þekkti kóngur sig og vissi á hvaða hól hann hafði verið. Fylgjarinn skildist nú við hann, en hann fór heim til borgar og sagði frá þessu. Hirðprestur kóngsins sagði að þetta mundi hafa verið kölski. Þá varð kóngurinn hryggur og lét boð ganga um allt ríkið að hvur sem gæti frelsað dóttur sína og fært sér handskrift frá kölska að hann vildi hana ekki [skyldi fá hana]. Rauður sagðist mundi reyna hvað sér tækist þegar til hennar væri að vinna.
Karlsson fer nú að finna kóngsdóttur, og var hún sorgbitin sem von var til. Hann sagði hún skyldi koma til hirðprestsins með sér. Þau fóru nú til hans og meðtóku sakramenti bæði og gengu síðan um nóttina út á hólinn, og kom kölski þar. Karlsson sagðist vera kominn að færa honum kóngsdóttur. Kölski sagði: „Hún hefir drukkið eitur, farðu með hana aftur og komdu aðra nótt með hana skár til reika.“ Þeir skildu og fór karlsson heim með hana. Daginn eftir voru þau enn til sakramentis fyrir presti og fóru aftur um nóttina. Þá kom kölski og var í slæmu skapi og sagði: „Svik eru þetta, enn hefir hún drukkið eitur og farðu nú með hana heim aftur, og komdu með hana aftur aðra nótt og láttu hana ekki drekka þetta oftar, og er þó verra en fyrr.“ Hann fór svo burt, en karlsson fór heim með kóngsdóttur. Þau fóru til hirðprestsins daginn eftir og voru enn til sakramentis, og nú hafði karlsson með sér kaleik fullan af helguðu víni, og fóru enn út á hólinn um kvöldið. Kölski kom og var heldur illur í skapi og sagði: „Auðséð er að þið viljið svíkja mig, þar sem hún hefir enn drukkið eitrið. Hún er nú orðin óhæfileg handa mér svo ég vil ekki sjá hana. Það er réttast að þú hafir hana.“ „Þá skaltu,“ segir karlsson, „gefa mér handskrift upp á það að þú viljir hana ekki.“ Kölski vildi það ekki. Karlsson sagðist þá mundi hella úr kaleiknum yfir hann. Kölski vildi það ekki og lét hann fá handskriftina og fór svo burt, en þau fóru heim í kóngsríki. Kóngsdóttir fór í skemmu sína, en karlsson heim í kot og ráðgerði að færa kóngi handskriftina um miðjan dag og biðja hennar um leið.
Meðan á þessu stóð lá kóngur í hugsýki og vissi ekkert hvað gerðist, en Rauður fór á hvurri nóttu upp á hallarmænirinn og barðist þar á hæl og hnakka og reif sig í framan. Hann hafði njósn af að kóngsdóttir mundi vera frelsuð, en ekki vissi hann að karlsson hafði handskriftina. Þá fór hann strax um morguninn til kóngsins og var alblóðugur framan í. Hann sagðist allar næturnar hafa verið að fljúgast á við kölska þar uppi á hallarmæninum, „og loksins í nótt gat ég gjört hann svo hræddan að hann gaf mér handskriftina, en þegar ég sleppti honum reif hann hana.“ Kóngur sagði hann hefði unnið til dóttur sinnar og lét sækja hana og hirðprestinn og skipaði honum að gefa þau strax saman. Kóngsdóttir var svo hissa á þessu að hún vissi ekki hvað hún átti að hugsa. Hún sagði að þessi hefði ekki frelsað sig, heldur karlsson. Kóngur sagði hún skyldi þegja heldur en ljúga. Presturinn sagði hún mundi segja satt því hann hefði verið til sakramentis fyrir sér með henni. „Þið eruð öll samráða í svikum við mig,“ segir Rauður; „gefðu okkur saman eða ég drep þig.“ Prestur og kóngsdóttir þorðu nú ekki annað en hlýða og sezt Rauður á brúðarbekk og setur kóngsdóttur hjá sér. Þá var komið að miðdegi því kóngsdóttir hafði tafið fyrir það sem hún gat og verið lengi að búa sig. Svo þegar hjónavígslan var að byrja kom karlsson og gekk fyrir kóng og rétti honum handskriftina, leit síðan til brúðarinnar og sagði: „Ertu ekki trúrri en þetta?“ Hún laut niður og grét. Þá sagði kóngur við Rauð: „Þú ert þá ekki trúrri en þetta, Rauður. Þessi gat sýnt handskriftina, en þú lýgur. Of lengi hef ég trúað þér og mun þetta ekki vera í fyrsta sinnið sem þú hefir svikið mig, enda skal það ekki verða oftar.“ Og lét hann þá taka Rauð og drepa hann, en gifti karlssyni dóttur sína og gaf honum hálft ríkið og allt eftir sinn dag. Þau unntust til ellidaga, og úti er þessi saga.