Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af kóngssyninum og klæðinu

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Sagan af kóngssyninum og klæðinu

Einu sinni var kóngur og drottning í ríki sínu og áttu sér þrjá syni. Þau settu þá í skóla. Tveimur þeim eldri gekk vel að læra, en sá yngsti gat ekkert lært og hætti kóngurinn að fást um að láta kenna honum. Þegar kóngurinn dó tóku eldri bræðurnir ríkið til sín og skiptu því milli sín, en létu yngsta bróður sinn ekkert hafa. Móðir þeirra undi þessu illa og vildi reyna að manna yngsta son sinn, sendi hann í skóla og gaf honum hring og sagði að honum fylgdu góðar náttúrur og hann mundi geta lært meðan hann ætti hringinn. Hann fer í skólann og er honum fengin þjónusta. Hún lét mikið dátt við hann. Nú gekk honum lærdómurinn upp á það bezta. Um jólin fer hann heim til móður sinnar. Þjónusta hans bað hann að ljá sér hringinn meðan hann væri í burtu, og gjörði hann það. Hann sagði móður sinni frá því; hún sagði hann mundi iðrast þeirrar greiðvikni. Eftir jólin fer hann aftur í skólann og heimtar hringinn af þjónustu sinni. Hún sagði hann hefði týnzt og bað hann fyrirgefningar; hann fyrirgaf henni.

Nú gat hann ekkert lært og fór heim til móður sinnar og sagði henni hvernig komið var; hún sagði sig hefði grunað þetta. Hún gaf honum þá belti og sagði því fylgdi góðar náttúrur; hann mundi geta lært meðan hann ætti það. Hann fer nú í skólann og getur nú lært, og líður nú til jóla annað sinn. Þá fer hann heim að finna móður sína. Þjónusta hans bað hann að ljá sér beltið meðan hann væri í burtu, og lofaði að sjá um að það týndist ekki; hann lét það eftir henni. Þegar hann kom heim sagði hann móður sinni það; hún tók illa á því. Þegar hann kom í skólann aftur sagði þjónustan að beltið væri týnt, og bað fyrirgefningar; hann fyrirgaf henni. Nú gat hann ekkert lært og fór heim til móður sinnar. Hún sagði að þjónusta hans mundi stela gripunum, sagði hann tryði henni of vel. „Rétt í þetta sinn get ég enn hjálpað þér,“ sagði hún, „en oftar get ég það ekki. Hér er klæði sem margar góðar náttúrur fylgja. Ein er sú að maður getur lesið sig á því hvert sem maður vill. Þú munt geta lært meðan þú átt það. Geymdu það nú betur en hina gripina.“ Hann fer nú í skólann og getur nú svo vel lært að á stuttum tíma var hann bezt að sér af öllum í skólanum.

Nú líður til þriðju jóla; þá fer hann enn að finna móður sína. Þjónusta hans bað hann ljá sér klæðið. Hann var tregur til, en hún var svo blíð að hann gat ekki neitað og léði henni klæðið. Hann sagði móður sinni þetta; hún sagði það mundi fara eins og fyrr. Hann skyldi hafa það til marks ef hún skilaði ekki klæðinu þá hefði hún stolið öllum gripunum; hann sagðist þá skyldi hafa þá aftur. Hún bað hann fara varlega. Þegar hann kom í skólann sagði þjónustan að klæðið væri týnt. Þá brást hann reiður við, tók hana og dró hana út úr skólanum og hótaði að brenna hana á báli ef hún skilaði ekki gripunum öllum. Hún meðgekk þá að hún hefði stolið þeim og bað fyrirgefningar. Hann bað hana skila þeim og það gjörði hún, breiddi út klæðið, lagði þar á beltið og hringinn og sagði: „Til merkis um að þú hafir fyrirgefið mér, þá komdu nú með mér. Við skulum lesa okkur eitthvað til skemmtunar.“ Hann lét það eftir og réð hún ferðinni og las þau út undir yzta heimskaut. Þegar þau komu þar á jörð hratt hún honum út af klæðinu, og það leið upp í loft aftur með hana og þar skildi hún við hann og fór aftur heim í skólann og þóttist vel hafa leikið.

Það er að segja frá kóngssyni að hann ráfar í ráðleysu þangað til hann kemur að einu vatni. Það var í skógi. Þar fann hann epli á einu tré og át eitt og drakk úr vatninu og sofnaði síðan. Þegar hann vaknaði aftur var hann orðinn holdsveikur. Hann sofnaði aftur. Þá dreymdi hann að maður kom að honum með glas í hendi. Hann lagði það hjá honum og sagði: „Taktu vatn úr þessu vatni og láttu það í glasið, og taktu epli af trénu og geymdu það, en gefðu engum að smakka á því nema ef þú finnur þjónustu þína aftur þá ræður þú hvurt þú gefur henni að smakka á því.“ Nú vaknaði kóngssonur, og lá glasið hjá honum og gjörði hann eins og fyrir hann var lagt. Nú fór hann þaðan og kom að öðru vatni. Þar var líka skógur og epli á trjánum. Kóngsson át eitt eplið og drakk úr vatninu.

Nú sofnaði hann. Þegar hann vaknaði aftur var hann heilbrigður. Aftur sofnaði hann og dreymdi að sami maður kom að honum og hafði enn glas og sverð og sagði: „Þetta sverð gef ég þér og brúkaðu það þegar þú þarft með; það mun verða happasælt. Glasið skaltu fylla úr vatninu og epli skaltu taka af því sama tré sem þú ázt af. Á því skaltu vökva þig ef þig hungrar eða þyrstir, og þegar þú finnur sjúkan mann skaltu vökva hann á því, og mun honum batna. Það mun aldrei eyðast.“ Kóngsson vaknaði og lá þá hjá honum glasið og sverðið. Hann gjörði eins og fyrir hann var lagt, og meðan hann var á eyðimörk vökvaði hann sig á eplinu og vatninu og hungraði ekki. Það eyddist ekki heldur.

Um síðir sá hann álengdar stóra borg. Einn turn var miklu hæstur upp úr henni. Þegar kóngsson kom í borgina sá hann að stigi var reistur upp í turninn. Hann gengur upp í hann. Þá sér hann að stríð er út á velli fyrir utan borgina. Hann fer ofan úr turninum og út í stríðið. Þar mætti hann risa og drap hann með sverðinu. Þá lögðu óvinirnir á flótta, en borgarmenn eltu þá. Kóngsson elti þá ekki, heldur fór upp í turninn aftur til að sjá til hvurnig af reiddi. Hann var orðinn þreyttur og sofnaði við turndyrnar. Turninn var læstur, en gluggar voru á honum. Í honum bjó dóttir kóngsins sem réði fyrir borginni. Kóngsson vaknaði við það að vopnaðir menn komu að honum og töluðu um að fjötra fjanda þann sem vildi komast í turn kóngsdóttur og smána hana. Honum varð það fyrir að hann fleygði sér ofan af húsinu margar mannshæðir. Honum fannst eins og hann væri tekinn á lofti og látinn koma hægt niður, og nú stökk hann sem fætur toguðu út á eyðimörk. Þar fann hann í einum stað mikinn mosa og faldi sig í honum. Þar lá hann á þriðja dag og vökvaði sig á eplinu og vatninu. Það eyddist aldrei. Þriðja daginn fundu menn hann og fóru með hann heim til kóngs, og var hann strax dæmdur til dauða fyrir það hann hafi ætlað að smána kóngsdóttrina. Þegar þetta stóð sem hæst kom kóngsdóttir þangað og spurði: „Hvað er hér verið að þinga?“ Kóngurinn sagði það ætti að fara að drepa þann sem hefði ætlað að brjótast inn til hennar að smána hana. „Það hefir enginn reynt til þess,“ sagði kóngsdóttir. „Þessi maður var þó fundinn við turndyrnar hjá þér,“ sagði kóngur. „Ég vissi það,“ sagði hún, „hann kom af eyðimörk og gekk upp í turninn til að sjá sig um, fór svo út í stríðið og drap risann, kom svo aftur hingað til að sjá hvurnig stríðinu reiddi af.“ „Ef það er satt,“ sagði kóngur, „að hann hafi drepið risann, þá skal ekki drepa hann því ég lofaði að gefa þig þeim sem dræpi risann.“ „Það var víst hann drap risann,“ sagði hún. Þá var kóngsson leystur og setti kóngur hann í hásæti hjá sér. Var síðan slegið upp veizlu og giftust þau kóngsson og kóngsdóttir.

Kóngur vildi strax gefa honum nokkuð af ríkinu. Hann vildi það ekki, heldur fór hann að reisa um allt landið og vitjaði allra sem sjúkir voru og gaf þeim að smakka á eplinu og vatninu. Það eyddist ekki, en þeim sjúku batnaði. Kóngsson var nokkuð lengi í þessum ferðum. Þegar hann kom heim var þar komið skip að landi; það var frá föðurlandi hans. Það sagði þær fréttir að þar gengi mikil sótt, kóngarnir lægi báðir og móðir þeirra. Þá bað kóngsson tengdaföður sinn leyfis að sigla þangað með þessu skipi. Hann leyfði það og fór kóngsson þangað og fór fyrst til móður sinnar og læknaði hana og sagði henni sögu sína. Henni þótti hún mikils verð og sagði að engill mundi hafa vitrazt honum hjá vötnunum og tekið á móti honum þegar hann fleygði sér ofan úr turninum. Honum þótti það líklegt. Svo læknaði hann bræður sína og fór svo út um landið og læknaði alla veika. Loksins kom hann í einn skóla. Þar var ein þjónustustúlka sem lengi hafði legið veik. Kóngsson spurði hana hvað hún vildi vinna til að fá læknismeðal. Hún sagðist vera búin að kosta öllum eigum sínum upp á læknisdóma, en það hefði ekki dugað. Nú sagðist hún ekki eiga eftir nema þrjá kostgripi, nefnilega klæði, belti og hring. Hann spurði hvurnig hún hefði komizt að þessum gripum; hún sagði þeir væri föðurarfur sinn. Hann sagði að læknismeðal sitt hrifi ekki nema hún segði satt. Hún sagði þá upp alla sögu hvurnig hún hefði leikið á kóngssoninn forðum. Hann tók þá upp epli og vatnsglas og gaf henni að smakka á. Þá dó hún undireins, en hann tók gripina til sín. Bræður hans vildu nú láta hann fá sinn hlut úr ríkinu. Hann vildi það ekki, heldur tók hann móður sína og stigu þau á klæðið með það sem þau vildu hafa með sér, og liðu svo í lofti heim til borgar tengdaföður kóngssonar. Tengdafaðir hans var þá dauður og var kóngsson tekinn til kóngs og ríkti til ellidaga með drottningu sinni, og hjá þeim var móðir hans ánægð til dauðadags. Og svo er sagan búin.