Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af karlsdóttur og kóngsdóttur

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Sagan af karlsdóttur og kóngsdóttur

Einu sinni var karl og kerling í koti sínu, kóngur og drottning í ríki sínu. Karl og kerling áttu sér dóttur, kóngur og drottning áttu sér dóttur. Þegar þær voru komnar á legg voru þær settar til mennta að læra hannyrðir. Þegar þær voru komnar heim aftur fóru þær að reyna hvor betur væri að sér, og var karlsdóttir miklu betur að sér. Kóngsdóttir varð afar reið því hún vildi vera mest af öllum og hélt þangað til að það væri. Hún lét samt ekki á neinu bera við karlsdóttur og bað hana koma með sér út á skóg að skemmta sér. Hún gjörði það og gengu þær nú lengi og töluðu margt saman vinsamlega. Loksins komu þær fram á sjávarhamra, og leit kóngsdóttir fram af og sagði: „Heldurðu þú þorir að líta hér ofan fyrir?“ Karlsdóttir leit ofan fyrir. Þá hratt kóngsdóttir henni ofan og fór síðan heim hróðug af því að nú væri hún bezt að sér af öllum.

Það er að segja frá karlsdóttur að þegar hún kom niður í sjóinn fannst henni eins og hún væri tekin og flutt í gegnum reyk. Hún vissi ekki fyrri en hún var komin á eina sjávarströnd. Hún gekk þar á land og þekkti það ekki og sá enga mannabyggð. Nú þótti henni öll lífsvon úti og settist niður á stóra þúfu og fór að róa sér grátandi. Þá kemur til hennar maður, ef mann skal kalla, og segir við hana: „Viltu þiggja líf af mér?“ „Já,“ segir hún, „þó þú sért ljótur þá verð ég fegin því.“ „Þá verðurðu að taka í hendina á mér,“ segir hann. „það get ég ekki,“ segir hún. „Þá verðurðu að deyja þarna,“ segir hann. Hún hugsar sig um og langar hana til að lifa og ræður af að taka í hendina á honum.

Þá leiðir hann hana, upp á eina hæð og sýndi henni stórt kóngsríki (stóra borg). „Fyrir þessu ríki ræður meykóngur,“ sagði hann; „farðu þangað og biddu hana veturvistar; hún mun taka við þér.“ Síðan fór hann frá henni, en hún fer heim til borgarinnar, gengur fyrir meykóng og kveður hann. Meykóngur tekur því vel. Hún biður veturvistar og fær óðara. Þar er hún um veturinn í bezta yfirlæli og á sumardaginn fyrsta gefur meykóngur öllu sínu fólki sumargjafir og karlsdóttur mest, en sagðist ætla að biðja hana bónar, nefnilega að vakta skartið sitt í dag, sagðist ætla að breiða það til þerris. Karlsdóttir gekk glöð að því og stóð hún yfir því allan daginn. En um miðjan dag þurfti hún að ganga að erindum sínum, en var þó ekki lengi í burtu, og þegar hún kom aftur sýndist henni allt ómakslaust. En um kvöldið þegar meykóngur fór að taka saman skartið sitt sagði hún sig vantaði bezta gullhringinn sinn og rak hana nú í burt og var í illu skapi.

Hún ráfaði ofan að sjó og settist á þúfuna sem hún sat á áður, og fór að róa sér grátandi. Þá kemur karlinn sami og spurði hvort meykóngur væri búinn að reka hana í burtu. Hún sagði það vera. „Viltu að ég hjálpi þér?“ segir karl. „Já,“ segir hún. „Kysstu þá á kinnina á mér,“ segir karl. „Þú ert svo ósköp ljótur,“ segir hún, „það get ég ekki.“ „Þá er ekki um annað að gera en deyja þarna,“ segir hann. Þá herti hún upp hugann og kyssti á kinnina á kallinum. Þá fekk hann henni hringinn og fór hún með hann til meykóngs. Meykóngur tók henni nú vel og var hún þar það ár. Sumardaginn fyrsta gaf meykóngur öllum meiri sumargjafir en fyrra sinnið og karlsdóttur eftir því mest og sagði hún ætti enn í dag að passa skartið sitt. Það datt ofan yfir hana, en þorði þó ekki að neita. Hún stóð hjá skartinu um daginn og fór ekkert frá. Um miðjan dag kom hvirfilvindur, en hún sá ekkert fjúka. Um kvöldið tók meykóngur skartið og sagði sig vantaði nú bezta gullbeltið sitt, verður nú reiðari en fyrr og rak hana frá sér.

Hún fer til sjávar og sezt á þúfuna gömlu og karlinn kemur og spyr hvort meykóngur hafi rekið hana frá sér. „Já,“ sagði hún. „Viltu að ég hjálpi hér?“ segir hann. „Já, fegin,“ segir hún. „Þá skaltu kyssa mig á munninn,“ segir karl. „Æ,“ segir hún, „vont er að kyssa þig á kinnina, en verra er að kyssa þig á munninn. Settu eitthvað annað upp á.“ „Nei,“ segir karl, „kysstu mig eða deyðu þarna.“ Um síðir herti hún upp hugann og kyssti karlinn. Hann fékk henni þá beltið. Hún færði það meykóngi og fekk nú beztu viðtökur og var nú með meykóngi það ár út. Sumardaginn fyrsta gaf meykóngur öllum sumargjafir í langmesta lagi og karlsdóttur að því skapi mest og skipaði henni nú enn að passa skartið sitt. Hún þorði ekki að mæla móti því, en ekki varð henni gott við. Hún stóð enn yfir skartinu um daginn og leit aldrei af því. Um miðjan dag kom hvirfilvindur og sá hún ekkert fjúka, en þegar meykóngur tók skartið sagði hún sig vantaði bezta gullskóinn sinn, varð nú í langreiðasta lagi, rak karlsdóttur frá sér og sagðist skyldi láta drepa hana ef hún færði sér ekki skóinn.

Karlsdóttir ráfar að sömu þúfu og sezt á hana. Þá kemur karlinn og spyr hvort hún vilji fá hjálp. Hún sagðist vilja það fegin. „Þá verðurðu að koma heim með mér og liggja hjá mér í nótt,“ segir karl. Hún baðst undan því, en hann sagði að ef hún vildi það ekki væri engin hjálparvon. Hún hugsaði þá með sér: „Þó vont geti verið að liggja hjá karlinum verður það aldrei verra en að deyja,“ og fór með honum og lá hjá honum um nóttina. Henni þótti það miklu betra en hún ímyndaði sér. Um morguninn fékk karl henni gullskóinn. Hún færði hann meykóngi og fekk nú betri viðtökur en nokkru sinni áður, og um nóttina lét meykóngur hana sofa í herbergi sínu, svo hafði hún mikið við hana.

Um morguninn þegar þær eru að klæða sig kemur inn í herbergið fríður og fallegur kóngssonur og segir: „Sæl vertu, systir mín.“ „Komdu sæll, bróðir minn,“ segir meykóngur, „hvur hefir frelsað þig úr álögunum?“ „Stúlkan sem hjá þér er,“ segir hann. „Mér kom það ekki óvart,“ segir hún, „eða með hvurju ætlar þú nú að launa henni það?“ „Með því að eiga hana ef hún vill mig,“ segir hann. Hún varð hjartans fegin og trúlofuðust þau þar strax, og var búið til brúðkaups og boðið öllum höfðingjum úr landinu og næstu ríkjum. Þangað var boðið kónginum og drottningunni og dóttur þeirra, sem hafði hrundið karlsdóttur ofan í sjóinn. Nú fer brúðkaupið fram, og í veizlunni er talað um það meðal annars hvaða kvenmann menn vita bezt að sér til handanna. Kóngsdóttir sagðist þora að bjóða út í því hvurri sem vera skyldi. „Þá skulum við reyna með okkur,“ segir unga drottningin, „og vil ég að við setjumst fram á sjávarhamra, og ef þú hefir betur máttu hrinda mér ofan og eiga þá manninn minn og ríkið eftir mig, en ef ég hefi betur þá mun ég hrinda þér ofan.“ Hún gekk glöð að þessu og settust þær fram á sjávarhamra og fóru að sauma. Ungu drottningunni gekk miklu betur og hratt hún kóngsdóttur ofan og þarf ekki að tala meir um hana. Kóngurinn og drottningin fóru heim og undu illa við ferðina, en þorðu þó aldrei að hefna. Veizlan fór vel fram þó þau væri í burtu, og að henni endaðri lagði meykóngur niður völdin og fekk bróður sínum í hendur, og varð hann kóngur og karlsdóttirin drottning. Hún tók til sín foreldra sína og ríkti svo lengi með manni sínum. Þau áttu börn og buru, grófu sér rætur og murur.