Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sigurður glerstokkur
Sigurður glerstokkur
Rúðólfur er konungur nefndur; hann réði fyrir Skotlandi. Drottningu átti hann er Óluf hét; þau voru kristin. En er þau höfðu skamma stund saman verið varð drottning þunguð og að réttum tíma fæddi hún sveinbarn. Biskup var sóktur til að veita barninu heilaga skírn. Þar hjá konungi var vitur maður og forspár. Hann átti bróður einn, en sá sami bróðir eignaðist barn einmitt á sömu stundu og konungur. Það var meybarn og var hún nefnd Jarðþrúður og hélt karlinn forspái, föðurbróðir hennar, henni undir skírn og spáði því fyrir henni hún mundi eignast hinn nýfædda konungsson. Þetta frétti Rúðólfur konungur, kallar á karl og spyr hann eftir þessu. Hann lét það hugboð sitt að svo mundi verða. Konungur varð styggur yfir þessu, kvað hann skyldu verða sannspáan að öðru en því. Kvaðst hann skyldi svo um búa að slíkt yrði aldrei. Fylltist hann við það grimmd mikilli, því frásnúinn að skeyta framar um skírn barnsins. Hamlaði hann barnið á höndum og fótum með því að skera á hásinarnar. Þar með stakk hann í augu sveinsins, lét hann í glerstokk og fleygði út á sjóinn.
Í þann tíma réði ungur konungur en blindur fyrir Englandi eða nokkrum hluta Englands, kristinn og vel siðaður, er Þorsteinn hét. Því hafði verið fyrir honum spáð af meisturum að hann mundi fá sjón af því er af sjó ræki. Því tilsetti hann jafnan marga menn að ganga með ströndum fram og bera til sín það er þeir fyndu af sjó rekið. Bar hann það við augu sín. Fór svo fram um stund að ekkert kom er læknað gæti sjónleysi hans.
Það bar við eitt sinn að strandamenn finna glerkistil einn rekinn af sjó. Setur einn þeirra fótinn í kistilinn. Við það heyra þeir að upp kemur sem ýlfur. Það undrast þeir og brenna af forvitni, færa konungi hann af skyndingu; en er hann lét opna stokkinn stanzaði alla nálæga því þar í lá barn með sundurskornum hásinum á höndum og fótum og stungin augu. Hunangsflís hafði verið í munni þess, en hrokkið burt við hristinginn. Konungur varð sem aðrir næsta undrunarfullur af fundi þessum, bar blóð úr benjum þess á augu sín; en er það kom í augu honum varð hann skyggn. Lofaði hann Guð fyrir þetta, sendi eftir læknurum og lét fara að græða sveininn. Var hann skírður og nefndur Sigurður og auknefndur glerstokkur. Konungur unni honum mikið og lét hann ávallt vera í sama herbergi, enda flutti hann drenginn með sér hvert sem hann fór um ríki sitt. Hann var bæklaður á höndum og fótum svo hann mátti lítt ganga; þar með var hann blindur. Oft gekk konungur á skóg til skemmtunar og hafði Sigurð með sér og leiddi hann.
Það bar til einu sinni er konungur var skammt á leið kominn að dýr eitt fagurt varð fyrir honum í rjóðri einu. Langaði konung mjög til að ná dýrinu, hleypur nú á eftir því langar leiðir út í skóginn. Loksins tapar hann dýrinu. Snýr hann nú aftur; er þá komið að nótt. Kemur hann ekki fyrr í rjóðið en sól er komin í landsuður daginn eftir. Er Sigurður þá allur í burtu og verður konungur næsta hryggur, gengur kallandi um skóginn, en finnur ekkert; snýr svo heim til borgar með hryggum huga.
Það er þessu næst af Sigurði að segja að honum lengir eftir konungi, en sakir blindu og fótlamsins kemst hann ekkert. Löngu seinna heyrir hann hvin mikinn og spyr: „Hvort ertu það, fóstri minn? Eða hver er það?“ „Hver er það? Eða hvers viltu biðja?“ var honum svarað. „Þess vil ég biðja,“ segir Sigurður, „að höndur mínar verði heilar.“ Þær urðu heilbrigðar. Stundu seinna heyrir hann enn hvin mikinn. Spyr hann enn: „Ertu það, fóstri minn? Eða hver er það?“ Honum var svarað: „Hver er það? Eða hvers viltu biðja?“ „Að fætur mínir verði heilir,“ segir Sigurður. Enn heyrir hann hvin mikinn sem þyt af sterkum stormi; spyr hann enn: „Ertu það, fóstri minn? Eða hver er það?“ Honum var svarað: „Það er ég Sólarkonungurinn. Eða hvers viltu biðja?“ „Að ég mætti verða heilskyggn,“ segir hann. Honum var svarað: „Líttu upp í austur og vestur og líttu þar sendiboða minn og boga. Skaltu nú alltaf biðjast fyrir í þetta mund dags meðan þú lifir, og dýrka mig.“ Sigurður lítur nú upp og sér sólina fagra upprennandi í austri, en regnboga í vestri. Fellur hann nú fram til jarðar og þakkar Guði veitta heilsu. Eftir það heldur hann á leið um skóginn án þess hann viti hvert halda skal. Samt finnur hann braut og heldur hana heim til borgar. Er konungur þá enn ekki kominn. Litlu síðar kemur konungur og verður nú meiri fagnarfundur með þeim fóstrum en frá verði skýrt. Lofar nú Þorsteinn konungur Guð mikillega fyrir allar sínar dásemdir. Lætur hann nú boð ganga um ríki sitt og hin næstu lönd til fagnaðarhátíðar bjóðandi öllum mikils háttar mönnum í þakklætisminningu fyrir fengna lausn Sigurðar glerstokks fóstra síns af harmkvælum hans og böli. Er nú mikill viðurbúningur hjá konungi um þessa tíma.
Að ákveðnum tíma kemur þangað fjölmenni mikið úr ýmsum stöðum; þangað kom og Rúðólfur konungur af Skotlandi. Að veizlu þessari var fjölmenni mikið og ölföng óspart sopin. Þorsteinn konungur hafði það til glaðværðar gestum sínum að segja þeim tilefni gildis þessa. Sagði hann þeim fyrst af blindu sjálfs síns, þar næst af fundi glerstokksins og sýndi hann borðgestum stokkinn og lét hann ganga til sýnis og dáðust menn mjög að varðveizlu Guðs yfir hinum unga sveini. Sagði hann þeim hvernig drengurinn var til reika er hann í stokknum fannst, hvenær og hvernig hann fekk lækningu af dreyra hins sára sveins. Þessu næst sagði hann hvernig hann varð laus við krömina. Féllu margir í stærstu undur yfir öllum þessum atburðum.
En er þessu var lokið hefir Rúðólfur konungur mál sitt á þessa leið: „Það höfum vér frétt að drottning vor sé lögzt í hættulegum sjúkdómi. Því biðjum vér að þér gefið oss orðlof til heimferða sakir nauðsynja vorra. Ef að yður þykir virðing meiri að vér situm hér unz veizlu þessari er lokið þá biðjum vér að þér ljáið oss dyggan sendimann með bréfum vorum og læknisdómum þeim er vér höfum fengið handa drottningu vorri. En með því oss þykir mikið við liggja að sú ferð rekist vel af höndum þá biðjum vér að þér sendið yðar trúa vin með mönnum vorum þangað, því honum trúum vér bezt eftir þeim vitnisburði er þér hafið honum borið.“ Þessari beiðni Rúðólfs konungs jáði Þorsteinn konungur þó honum þækti fyrir að skilja við fóstra sinn. Var ferð þeirra búin af skyndingi og fara þeir nú á stað. En er þeir voru skammt á leið komnir gengur maður ásjálegur í hvítum klæðum á svig við þá, kallar á Sigurð. Gengu þeir skammt af veginum. Spurði maður þessi hann að erindum og sagði hann af hið ljósasta. Bað hann Sigurð að sýna sér bréfið. Hann var tregur til, en gjörði þó. Þar í var þetta ritað: „Í veizlu þessari er Þorsteinn konungur hefir stofnað til virðingar fóstursyni sínum höfum vér þess áskynja orðið að þessi ágæti maður Sigurður glerstokkur er okkar sonur þann við meintum löngu dauðan. Óttum vér því að spádómur hins gamla manns muni rætast, en til að fyrirspyrna það verði skipum vér þér að láta afhöfða hann samstundis, annars gildir það þitt líf.“ En er Sigurður hafði lesið bréfið varð hann sem agndofa af undrun. Hvítklæddi maðurinn skrifaði annað bréf og fekk Sigurði og bað hann færa Ólöfu drottningu móður sinni. Þeir héldu nú áfram til Skotlands og afhentu drottningu bréfið. Þar í stóð að væri hún ekki búin að koma þessum ágæta manni, Sigurði syni þeirra er hin undarlegu forlög hefði leitt til Englands, saman í eina rekkju og Jarðþrúði karlsdóttir þá gilti það hennar líf, því það væri auðsjáanlega ráðstöfun Guðs með þenna unga mann.
Ólöf drottning flýtti nú þessu sem mest hún gat. Hélt hún brúðkaup þeirra með hinni fegurstu veizlu. Þá var hinn spaki maður, guðfaðir hennar og föðurbróðir, enn nú lifandi. Gladdist hann mjög er hann sá hvernig spádómur hans rættist. Sagði hann nú Sigurði glerstokk allt um það hvernig atvikazt hafði um vanheilsu hans.
Nú víkur sögunni til Rúðólfs konungs. Að veizlunni upp sagðri ferðast hann heim til landa sinna, lenti skipum í höfnum sínum og fer heim til borgar. Spyr hann Ólöfu drottningu brátt hvort hún hafi fullnægt skipun sinni og orðsendingu. Hún kvað svo vera og sagði þau væru komin í eina rekkju. Verður hann nú ákaflega reiður og segir hún hafi gjört þvert á móti skipan sinni. Liggur við voða sjálfan. Sýnir hún konungi þá bréfin. En er hann hafði lesið þau veit hann ekki hverjum brögðum hann er beittur, grípur nú sverð í hönd sér og æðir inn til Sigurðar og Jarðþrúðar og ætlar að drepa hann. En þegar hann er nærri kominn að rúminu sér hann mikið djúp og ógurlegt fyrir fótum sér, en hann var kominn sem tæpast á bakkann. Þykist hann þar kenna kvalastað fordæmdra og sér sér þar rekkju búna. Kemur þá grá hönd og loðin og ætlar að kippa konungi ofan í. Fleygir hann þá sverðinu af hræðslu mikilli að hinni ljótu mynd og biður Guð að gæta sín. Að þeim orðum af munni töluðum hverfa allar þessar undrasjónir og er ekkert nema gólfið slétt í höllinni. Lofar hann þá Guð og segist sjá að máttur mannanna og illur ásetningur megni ekkert móti Drottni. Snýr hann með það burt úr höllunni, búinn að sleppa þeim ásetningi að drepa þau, finnur drottningu sína og tjáir henni frá undrum þeim hinum miklu er fram höfðu komið við þenna svein. Mýkti Guð svo skaplyndi þeirra að þau felldu niður alla grimmd til sonar síns, lögðu niður ríkisstjórnina og fengu honum í hendur, settust í helgan stein og þjónuðu Guði til dauðadags með helgum lifnaði í munklífi einu í Frakklandi. Byggðu þau upp klaustur og spítala handa sjúkum mönnum og helguðu Guði og ýmsum Guðs hetjum byggingar þessar og entu svo líf sitt í góðri elli.
Þau Sigurður konungur glerstokkur og Jarðþrúður drottning unnust vel til elli og þóktu mætamenn. Endar svo þessi saga.