Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Skyrpokalatur og Ingibjörg kóngsdóttir

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Skyrpokalatur og Ingibjörg kóngsdóttir

Það var einu sinni kóngur og drottning í ríki sínu og áttu sér eina dóttir sem hét Ingibjörg, og kall og kelling í koti sínu og áttu sér einn son sem hét Skyrpokalatur. Hann nennti ekkert að gera og ekki að éta so móður hans hafði ekki önnur ráð með hann um sláttinn en að fylla ostapoka af skyri og binda um búrbitann og seta so á hann gat og lætur þar í pípu og lætur hann sjúga pípuna og af því var hann kallaður þetta. So ólst Ingibjörg upp í ríkinu, en hann í kotinu.

Einu sinni deyr eldur hjá kellingunni so hún biður strák að sækja eldinn; so hann nennir því valla, fer samt og dregur fæturnar með jörðinni. Hann kemur að einum læk; hann nennir ekki að stíga yfir hann, heldur dregur hann fótinn annan ofan í lækinn. Þá finnur hann að kvikar undir fætinum; so hann fer með hendina ofan í lækinn og finnur silung með gullhring fyrir ofan sporðinn. Hann heldur á hönum með sér heim í kóngsríki, kemur so til eldakerlingar og biður hana um eld. Hún segir hann fái öngvan eld nema hún fái silunginn sem hann sé með. Hann segir hann geri það ekki, það sé so fallegur gullhringur á sporðinum, nema hún hleypi sér inn hjá henni Ingibjörg í kvöld so enginn viti af og út á morgun so enginn veit af. Hún vill allt til vinna og felur hann þar þangað til komin er nótt; þá hleypir hún hönum inn [og] út um morguninn so enginn veit af. So fær hann eldinn og fer með hann heim.

Og so líða fram stundir að Ingibjörg elur sveinbarn og getur ekki feðrað það. So þá lætur kóngur sækja alla ógifta höfðingja og er látinn gullhringur á barnið og hringurinn hefur þá náttúru að hann hleypur upp á fingurinn á föðurnum ef hann tekur í fingurinn á því. Það dugar ekkert hvur sem tekur í fingurinn á því. So nú er sóttur hvur maður nema Skyrpokalatur. Það dugar ekkert hvur sem tekur í fingurinn á því so nú er farið að tala um að sækja Skyrpokalat, hann sé einn ettir. Þá segir kóngur ekki eigi hann það, óhræsið það. Þeir segja það megi reyna það, so kóngur sendir einhvurn að sækja hann; so hann er sóttur og dregur fæturnar með jörðinni. So þegar hann kemur er hönum skipað að taka í hendina á barninu. Óðar en hann kemur við fingurinn á barninu hleypur hringurinn upp á fingurinn á honum. Kóngur verður ævareiður og vill láta drepa þau bæði, en allir sem við voru staddir beiddu að gefa þeim líf, gera þau heldur útlæg. Hann lætur reka saman so skelfilega stóra kistu úr þykkum borðum og aka henni fram undir sjó og síðan eru þau látin þar í og barnið, en drottning gaf henni mikinn forða ef þau kynni að lifa, so kóngur vissi ekkert af; og so er slegið yfir hana og hrint so fram á sjó. So eru þau lengi í kistunni; so strákur óskar að hann komist í eitthvurt fallegt land og kæmist í þá tign að verða kóngur.

Þau reka þetta attrábak og áfram í sjónum þangað til að einn dag stendur kistan. Hann hefur vasakuta og borar solítið gat á kistuna og sér að hann er kominn [að landi]. Þegar þau eru lengi búin að vera þar heyra þau mannaskraf og þegar það nálgast þá heyra þau að þeir eru að segja að þetta muni vera gullkista og skuli þeir ekki högga hana upp fyr en þeir séu búnir að seta hana á land. Nú eru þeir lengi að reyna að koma henni upp og geta það loksins. Þegar þau finna að hún er komin á land segir Skyrpokalatur: „Höggið upp varlega; það eru menn í.“ Þeir högga hana so upp og sjá þá þau þar; er kóngsríki þar skammt frá og er farið með þau þangað og er tekið vel á móti þeim. Skyrpokalatur biður kónginn að taka þau öll. Kóngur segir fyrst þau hafi orðið so heppin að koma að sínu landi þá flæmi hann þau ekki í burtu. So eru þau þar í ríkinu í góðu yfirlæti og lærir so Skyrpokalatur allar íþróttir sem kóngur þarf að læra. So þegar kóngur er orðinn gamall þá sækir hann um að Skyrpokalatur verði kóngur eftir sig og so giftist Skyrpokalatur Ingibjörgu. So kóngur deyr og hann veitir hönum alla virðingu; so Skyrpokalatur verður kóngur og er drottning gamla kóngsins hjá þeim.

Nú fréttir kóngur að kóngurinn faðir Ingibjargar er sigldur úr landi af hallæri sem þar er og margir fleiri. So einu sinni kemur skip að landi með fjölda manns og er bæði kallmenn og kvenfólk; so kóngur lætur ráðgjafa sína ganga til skips og bjóða öllu heim. Skyrpokalatur þekkir að þetta er foreldrar Ingibjargar, en þau þekkja hann ekki. Kóngur fer að spurja þau hvað þau segi í fréttum og úr hvaða landi þau séu. Þau segja hönum það. So spyr hann þau hvort þau hafi ekki átt neitt barn. Hann biður hann að minnast ekki á það; hann hafi átt eina dóttur sem hafi átt barn með kotastrák, og hafi þá orðið so reiður að hann hafi ætlað að drepa þau, en allir sem við hefðu verið staddir beðið að gefa þeim líf og þá hafi hann látið smíða stóra kistu og seta þau þar í og barnið og sett so út á sjó. Þá segir Skyrpokalatur að sig skuli ekki furða þó hann hafi verið kominn á vonarvöl fyrir þetta ódáðaverk. So fer hann út frá þeim, býr sig so í kóngs[skrúða] og drottning [í drottningarskart] og barnið býr sig það fallegasta og fara so inn í hús til þeirra. So þá segir Skyrpokalatur að hann hafi nú vald á honum eins og hann hafi haft vald á sér áður og skuli hann á morgun láta hengja hann á hæsta gálga. So báðar drottningarnar eru að biðja að gefa honum líf, en hann segir það dugi engin bón. En um morguninn þegar komið er á fætur kemst kóngur ekki á fætur þann dag; og þá segir hinn kóngur að hann sé ekki so veikur að hann komist ekki á fætur, og hann liggur sona þangað til Ingibjörg segir við Skyrpokalat að hann verði að segja hönum að hann gefi honum líf, annars svelti hann sig í hel. So Skyrpokalatur segir hönum að hönum sé óhætt að fara á fætur, hann hugsi ekki til að drepa hann, hann hafi gert það til að reyna hann. So kóngi bráðbatnar og Skyrpokalatur segir þau megi vera í ríkinu meðan þau lifi, og þau verða fegin af því þau eru mjög öldruð. Og so fer hann að spurja hvurnin foreldrum sínum líði. Hann segir að þau hafi verið komin á vonarvöl að ganga um. So hann lætur strax sigla skip að sækja þau. So er komið með þau í ríkið og þá verður fagnaðarfundur, og er so allt hjá hönum til ellidaga og smádeyr so; og kóngur og drottning lifa so lengi og vel og áttu mörg börn.

Og endar so þessi saga.