Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Smiðurinn og kona hans
Smiðurinn og kona hans
Einu sinni var smiður nokkur sem átti unga konu og fríða, en sú meining lék á að hún væri honum ekki sem trúust. Smiðinn grunaði þetta, en sá aldrei nein óræk merki til; var hann því oft að hugsa um hvurnin hann ætti að fara að komast eftir því.
Nú vildi svo til einhvurn dag þegar smiður sat í smiðju sinni að til hans kemur unglegur maður og fagur ásýndum. Maðurinn heilsar honum og biður hann hjálpa sér um lítið eitt af smápeningum. Smiðurinn mælti: „Ég hefi engva peninga hjá mér, en viljir þú fylgja mínum ráðum þá mun ég vísa þér þangað sem þú munt fá hvað þig lystir til hjá ungri konu nokkurri og líka muntu fá nóga peninga, en þú mátt lofa mér því að segja það engvum hvur þér hefur vísað þangað.“ Maðurinn lofaði því. Þar eftir vísaði smiðurinn honum að sínu eigin húsi og sagði hann skyldi gjöra sig vingjarnlegan, þá fengi hann allt það er hjarta hans girntist. Skildu þeir svo. Maðurinn gekk til hússins (þetta var í verzlunarstað), drap á dyr; voru þær strax opnaðar; kemur þar út kona fögur og yndisleg. Þegar konan sá hann fékk hún strax ástaryl til hans og vottaði honum blíðuhót. Maðurinn komst að hvað hún vildi vera láta og einsetti sér að forsóma ekki gott tækifæri. Síðan bar hún honum mat og að því búnu gengu þau á tal saman, en þegar hæst stóð á sökum kom smiðurinn og drap á dyr. Þá segir konan við hinn unga mann: „Heilla-elskan mín, nú er illt í efni, maðurinn minn er kominn og finni hann okkur til samans þá gildir það okkar líf.“ Hún sagði því næst að hann skyldi ganga upp á loft og standa þar innst við stafninn í skugganum og láta ekki til sín heyra. Svo kom hún á eftir og breiddi fyrir föt. Síðan er aftur drepið á dyr. Hún fer til dyra og lauk upp. Þá hljóp smiðurinn snúðugt inn í húsið og spyr: „Hvar er sá ungi maður sem ég sá ganga hér inn í dag?“ Hún þrætti fyrir það ákaflega, en hann stóð fast á því og leitaði alstaðar um húsið og reif fötin upp úr rúminu, en það var allt til einkis. Síðan gekk hann aftur til síns verks. Þá kom hinn ungi maður ofan og náði tilgangi sínum hjá konu smiðs. Síðan gaf hún honum nokkuð af smápeningum og bað hann að koma til sín aftur hið bráðasta. Síðan gekk hann burt úr húsinu og fann smiðinn, en þá smiðurinn sá sinn aðstoðara spurði hann hvurnin honum hefði gengið og hvurt hann hefði átt nokkrum yndishótum að mæta hjá konunni. Hinn svaraði að konan hefði tekið sér í bezta máta. „En þegar við vorum komin í bezta gæti,“ segir hann, „kom maður hennar, barði á dyr, en konan vísaði mér upp á loft og stóð ég þar við stafninn unz maðurinn var burtu farinn. Síðan framkvæmdum við okkar ásetning, en að skilnaði gaf hún mér mikið af smápeningum og bað mig koma þangað sem oftast og lofaði ég henni því, en ég held að ég vogi það ekki aftur, því það er hætta stór ef maður hennar kemur og finnur mig hjá henni, því þá mun hann veita mér bráðan bana og er það að verðugleikum, og því vil ég hætta að koma þangað.“ „Vertu ekki svo vitlaus,“ segir smiðurinn, „fyrst hún gat falið þig þá verður þér óhætt.“ Hinn ungi maður lét sér þetta ráð vel líka og kom daginn eftir til hennar, gekk í sæng með henni. Í því kom smiðurinn og sagði við konuna: „Hvar er hinn ungi maður?“ En hún hafði tekið það ráðs að láta hann binda sig í bandi upp um stóra uglu í húsinu og hengt klæði yfir hann og línlök, en sagði manni sínum að þar hefði enginn komið, og gaf honum góð orð svo hann gekk strax burt aftur, en hún lét hinn unga mann leysa sig af uglunni, gaf honum peninga. Síðan gekk hann til smiðsins og sagði honum hvurnin allt hefði til gengið og það hann hafði verið nær dauða en lífi og því vildi hann þar ei aftur koma, en smiðurinn hló og ráðlagði honum að fara í þriðja sinn og forsóma ekki gott tækifæri, hann mætti vera óhræddur fyrst hún hefði getað geymt hann tvisvar. Hinn lét sér þetta að kynningu verða og fór til hennar þriðja daginn. En sem þeirra indæli var nær því alblómgað kom smiðurinn og drap á dyrnar, en konan lét elskara sinn fara ofan í stóra kistu sem brúkuð var til geymslu óhreinna fata, en smiður var reiður og sagði ef hún framseldi ekki manninn skyldi hann leggja eld í húsið og brenna það upp með öllu sem þar væri. Konan sagði: „Ó, minn elskulegasti, ef þér er alvara þá ber þú út með mér þessa kistu svo við höfum klæði nokkur til að skýla okkur með.“ Maðurinn tók kistuna og bar hana út og fór svo til smiðju sinnar því honum var þetta ekki alvara, en litlu síðar kemur hinn ungi maður og sagði smiðnum hvurnig til hafði gengið og hvurnig húsbóndinn hefði borið út kistuna sem hann var í fólginn og hann hefði verið vitlaus af reiði. Þá sagði smiðurinn: „Góði vin, þessi kona sem þú hefur hjá verið er mín eiginkona og ég er sá sami sem til ykkar hefi komið í þrjá daga. Ekki hefi ég viljað þér nokkurt mein gjöra því það var mín skuld að þú gekkst þangað, en ég gjörði þetta til að komast að svikum hennar, og skaltu þetta kvitt eiga, en varast skaltu að segja þetta nokkrum, en hvenær sem ég finn þig hér upp frá þessu þá skal ég á þér hefna.“ Hinn ungi maður fór strax burt og þorði ei að koma þar framar, en hvurnig þeim hjónum hefur samið upp frá því, þar af hefi ég engva fregn fengið – og með því lyktar þessi saga.