Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Tökudrengurinn

Það var einu sinni prestur og prestskona og áttu þau sér eina dóttir sem að Ingibjörg hét og réði hún fyrir búi foreldra sinna. Einu sinni kom þangað fátæk ekkja með tvö börn, pilt og stúlku, og hét drengurinn Stefán. Ekkjan bað prest að gefa sér og gaf prestur henni æði mikið af ýmsu. Ingibjörg kemur að máli við föður sinn og biður hann að taka drenginn til fósturs og gjörir prestur það fyrir bænastað dóttur sinnar að taka piltinn og hefur prestur hann fyrir selsmala. Í þann tíma var sauðfénaður hafður í seli og var Ingibjörg selráðskona þar. Svo leið og beið nokkuð fram á sumarið að ekkert bar til tíðinda.

Einu sinni verður prestur þess áskynja að dóttir sín er farin að gildna undir belti og verður hann svo reiður að hann safnar saman mönnum til að handtaka dreng og drepa hann. Ingibjörg varð áskynja um fyrirætlun föður síns og segir við dreng einn morgun að hann skuli flýta sér að smala og koma um leið með brúnt hross sem hún á. Drengur fer, en á meðan skrifar hún bréf til föðurbróður síns. Þegar drengur kemur með féð segir Ingibjörg honum að búa sig og vera fljótur. Síðan fær hún honum bréfið og segir honum að leggja á það brúna og halda á stað. Hún sagði honum að láta hestinn ráða og skuli hann leggja taumana upp á makkann þegar hann sé kominn heim á staðnum og muni hann þá skila sér til baka. Kveður hann nú Ingibjörgu og fer að öllu sem fyrr er getið.

Þegar drengur er kominn á prestssetrið ber hann á dyr og kemur kvenmaður til dyra og drengur heilsar henni og gerir boð eftir presti. Stúlkan fer inn, en prestur kemur út. Drengur heilsar honum kurteislega. Prestur spyr dreng að heiti. Hann sagðist heita Stefán. Síðan fær hann honum bréfið. Prestur býður honum inn í stofu og les þar bréfið og var það innhald þess að Ingibjörg biður hann að kenna Stefáni til prests og hafa gætur á því að faðir sinn nái honum ekki.

Einu sinni kemur maður til prests og bað að lofa sér að vera. Hann fær það, en um nóttina vaknar maðurinn og heyrir hann einhvörn segja: „Miklar gáfur eru í þér Stefán.“ Sofnar hann síðan aftur og vaknar snemma um morguninn, fær góðgerðir og kveður prest og fer síðan á stað og kemur til föður Ingibjargar og segir honum hvar drengur sé niður kominn. Þegar prestur heyrir þetta býr hann sig til ferða og hefur með sér einn mann, og segir ekki af ferðum hans fyrr en hann kemur til bróður síns og gerir boð eftir honum. Prestur kemur út og heilsast þeir. Síðan hefur prestur upp erindið og heimtar drenginn af bróður sínum. Prestur gengur inn og kemur aftur út með drenginn. Síðan kveður hann bróður sinn og heldur suður í Reykjavík og tilsetur vissan dag að taka drenginn af. Síðan safnar hann saman fólki til að reisa gálga og fær böðul og fer með drenginn; fólkið fór á undan, en prestur og Stefán á eftir. Þeir sjá að það kemur kallmaður á brúnum hesti og biður prest að lofa sér að tala við Stefán og segir honum að setjast á bak fyrir aftan sig og segir presti að vera sælum, og fer síðan leiðar sinnar og kemur Stefáni á skip og fær honum nóga peninga og segir honum að læra til prests og fer síðan heim. En það er af presti að segja að hann er nokkra daga í Reykjavík eftir þetta og heldur síðan heim og fagnar Ingibjörg honum vel. Eftir þetta er prestur heima í næði þrjú ár og ber ekkert til tíðinda.

Eftir þetta fór prestur á alþing, en á leiðinni kemur hann að ógnar stóru vatnsfalli svo hann mátti tjalda þar, og eru þar um nóttina og fram á dag, en um daginn sér hann hvar tjald stendur hinumegin við ána og þrír menn og var einn þeirra á frakka. Presti leiðist að bíða og leggur á stað og fram í vatnsfallið, en þegar hann er kominn út í það mitt dettur hann af baki, en þegar hinir sjá það þá kastar sá sem í frakkanum var sér til sunds og hjálpar presti og svo skilja þeir og heldur prestur sína leið, en Stefán heldur áfram ferð sinni þangað til hann kemur til Ingibjargar og er þar þangað til prestur kemur heim af alþingi, og heilsar Stefán presti virðuglega, en ekki þekkti prestur hann. Síðan ræða þeir um ýmislegt, meðal hvurs það var einn dag er þeir sátu yfir borðum að það kemur drengur inn til þeirra dálítið stálpaður, og spyr Stefán prest hvur eigi þennan dreng og segir klerkur honum alla ævisögu Stefáns. Síðan hefur Stefán upp bónorðið við prest og biður hann að gefa sér dóttur sína og er það auðsókt. Síðan segir hann presti hvur hann var og varð honum bilt við og biður hann Stefán auðmjúklega fyrirgefningar. Var síðan haldin virðugleg veizla, en að veizlunni endaðri fær prestur honum brauðið og varð hann þar prestur og bjó til ellidaga. Endir.