Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Trítill læralítill
Trítill læralítill
Það var einu sinni karl og kelling í koti sínu og áttu einn son sem hét Trítill læralítill og kóngur og drottning í ríki sínu og áttu sér eina dóttir sem hét Ingibjörg. Trítill var alltaf að koma heim í kóngsríki so kóngi leiddist að sjá hann. So hann segir einu sinni að hann skuli drepa hann að þriggja ára fresti ef hann segi sér ekki hvað hann hugsi núna; so hann fer nú heim í kotið og segir foreldrum sínum frá þessu; so þau sögðu að það hefði alténd bitið á sig að hann hefði ekki gott af þessu flakki heim í kóngsríki. Hann segist vilja fá nesti og nýja skó; hann hefði heyrt getið um tröll í Nípufjalli sem héti Kolur og hann vissi margt og hann vildi fara að finna hann. Þeim er það nauðugt þó þau geri það.
So gengur hann á stað og gengur vel og lengi þangað til um kvöldið, þá kom hann að kotabæ. Hann biður um næturgistingu; hann fær það. Er hann þar um nóttina og er hann spurður hvurt hann ætli. Hann segir hann ætli að fara að finna hann Kol í Nípufjalli. Þeir afráða hönum að fara þangað; hann sé versta tröll. Hann segir hann fari allteina fyrir því. Þeir biðja hann að skila kveðju sinni til hans og biðja hann að segja sér hvur hafi stolið sauðunum frá sér. Hann lofar því. So fer hann í burtu þaðan. Hann gengur so vel og lengi þangað til að kvöld er komið; þá kemur hann að einum bæ. Þar er hann spurður að hvurt hann ætli. Hann segir þeim sama og á hinum bænum. Það afræður hann að fara þangað, því allir séu drepnir sem til hans komi. Hann segist skuli, so konan biður hann að skila kveðju sinni til hans, og biðji hann að segja sér hvar séu niðurkomnir átján lyklar á einum hring sem hún hafi týnt fyrir þremur árum. Hann lofar því. So heldur hann á stað og kemur seint um kvöldið að þriðja bænum og hittir þar konu úti. Hann biður hana að lofa sér að vera; hann fær það. Hún spyr hann að hvurt hann ætli. Hann segir sama og á hinum bæjunum. Hún afræður hann, því það sé versta tröll; það komist enginn lífs frá hönum. Hann segist víst fara. Hún biður hann að skila kveðju sinni til hans, og biðji hann að segja sér hvur hafi drepið mennina sína; hún sé búin að eiga þrjá og hafi þeir allir hvorfið fyrstu nóttina sem þeir hefðu sofið hjá sér so hún hefði ekkert vitað af. Hann lofar því, fer so í burtu. Hún gefur hönum stóra öxi og segir hann muni þurfa hennar með; hún hafi heyrt hann væri í háu fjalli og hann mundi þurfa að högga sér spor til að komast upp í hellirinn.
Þegar hann er búinn að ganga lengi þá kemur hann að mjög háu fjalli og sér hann háa nípu upp úr fjallinu og þar undir sér hann hellirsdyr. So hann fer að högga sér spor þangað til hann kemst að hellirsdyrunum. Hann fer þar inn og sér þar skelfilega stórt flet. Hann fer undir það og þegar komið er kvöld þá heyrir hann so mikinn undirgang að hellirinn skelfur. Þá kemur stór tröllkall [með fuglakippu] inn á gólfið. Hann fleygir henni niðrá gólfið og segir: „Mannaþefur í hellir mínum“ – og segir ef nokkur sé hér þá megi hann gefa sig í ljós ellegar hann skuli drepa hann strax. So Trítill segir að þá sé að gera það og kemur undan bælinu og [segir] hann hafi komið til þess að láta hann drepa sig. So Kolur dregur Trítil út úr dyrum og Trítill segir að hann ætli að skila því sem hann hafi verið beðinn áður en hann drepi sig. Tveir bræður hafi beðið að heilsa hönum og beðið hann að segja sér hvur hafi stolið sauðunum frá þeim, og kona hafi beðið að heilsa hönum og biðji hann að segja sér hvar séu niðurkomnir átján lyklar á einum hring sem séu týndir fyrir þremur árum, og önnur kona hafi beðið að heilsa hönum og hafi beðið hann að segja sér hvur hafi drepið mennina sína; þeir hefðu hvorfið fyrstu nóttina sem þeir hefðu sofið hjá sér. So Trítill segir hann megi nú drepa sig, hann sé búinn að skila erindunum. Hann segir hann ætli að gera það á morgun og sleppir stráknum. Fara þeir so báðir inn í hellir og Kolur fer að sjóða sér fugla, tekur so hraustlega að sér fæðuna. So spyr hann hann að hvort hann vilji heldur sofa hjá sér eða á gólfinu. Hann segist vilja sofa hjá hönum; so líður af nóttin. So um morguninn tekur karlinn hann og dregur hann út úr dyrum og segir hann hafi átt eitthvað erindi við sig. Trítill segir að hann hafi átt erindi við hann, en hönum standi á öngvu að segja hönum það fyrst hann ætli að drepa sig. So þegar hann kemur út þá sér hann þar kerald og hníf. So leggur Kolur Trítil niður að keraldinu. Þá segir Trítill að hann skuli ekki vera að draga það; hann skuli þá seta af sér hausinn. Kolur hikar við og segir það sé sá fyrsti sem ekki hafi hræðzt dauða sinn sem hingað hafi heimsótt sig og gefi so ekki um að drepa hann. So ganga þeir inn í hellirinn og fer Trítill að segja hönum hvurt erindi hann hafi haft við hann. Hann hefði oft gengið heim í kóngsríki og hafi oft gengið fyrir kóng og hafi hönum leiðzt að sjá sig so kóngur sagði að hann skyldi drepa hann að þriggja ára fresti ef hann segði sér ekki hvað hann væri að hugsa. So Kolur segir hann hafi hugsað hvort hann yrði mágur sinn óhræsið að tarna. So Kolur segir hann skuli drepa kóng ef hann þræti fyrir; „það er tröllskessa í bæjargilinu sem drap mennina hennar. Konan sem missti lyklana – eru í vindauga í útnorðurshorninu á heygarðinum hennar,“ – en bræðurnir steli hvor frá öðrum sauðunum; so Kolur gefur Trítli horn; það sé áfengur drykkur í því og skuli hann súpa á því þegar hönum liggi mest á. Hann gefur hönum spjót og Kolur segir Trítli að hann skuli reka kóng í gegn ef hann þræti fyrir, og Kolur biður Trítil að bjóða sér ef hann fái kóngsdóttur. Hann lofar því. Hann fylgir hönum so á leið; so skilja þeir.
So kemur hann þar sem ekkjan var sem missti mennina sína. Hún spyr hann hvurnin ferðin hafi farið. Hann segir að Kolur hafi sagt það hafi verið tröllskessa í bæjargilinu. Þá verður hún ennþá daufari og segir það standi til fyrir sér gifting í fjórða sinn og biður hún Trítil að vera fram yfir veizluna. So er farið að búa til í veizluna og er í henni múgur og margmenni. So þegar veizlan endar þá fer hvur til síns heimilis. Hann er þar ettir um nóttina, en um kvöldið þegar á að fara að hátta biður Trítill brúðhjónin að ljá sér húðarskinn ef þau geti. Þau segja þau eigi sextán upp í eldhúsi og megi hann taka hvurt hann vilji. Hann dregur þau ofan úr eldhúsi og skoðar þau. Hann tekur það þykkasta og bezta. Þau eru að bjóða hönum að liggja í rúmi í sama húsi og þau lágu í. Hann vill það ekki. Þegar hjónin eru háttuð þá leggst hann á skör fyrir framan hjónarúmið og hefur húðarskinnið ofan á sér. Hjónin eru hreint hlessa að sjá þetta og hugsa að hann sé ekki með öllum mjalla. So fer allt að sofa, en Trítill sofnar ekki; en þegar líður að miðri nótt þá vaknar fólkið við þvílíkan undirgang. Ruddist þar inn tröllskessa, og brotnaði allt hvað fyrir henni varð. Trítill sýpur á horninu í mesta flýtir. Þegar hún kemur inn í húsið þá ætlar hún að þrífa manninn fyrir framan konuna. Það verður þá annað fyrir henni. Þrífur hún í húðarskinnið sem Trítill hafði oná sér; hann tekur stífið á móti. So eru þau að togast á um skinnið og brotnar allt hvað fyrir þeim verður. Hann sér sér óvænna að hafa við henni. Þau skubba skinnið á milli sín. Berast þau so út úr bænum. Þá var Kolur fyrir og tekur á móti. Þeir sjá á hlaðinu kerald með hníf í. Þeir segja hún skuli hafa sama dauða og hún hafi ætlað manninum inni. Hún ætlar að leggja á þá. Þeir ráðast þá á hana, leggja hana niður og skera hana á háls og leggja hausinn við rassinn, taka síðan við og eld, brenna hana upp að björtu báli. Þeir skilja so. Trítill fer í bæinn; so líður af nóttin. So um morguninn atlar hann að fara. Þá gefur hún hönum mikið af peningum. Hann segir henni að mennirnir hennar munu ekki hverfa oftar. So þakkar hún hönum fyrir alla þessa fyrirhöfn. Hann kveður þau so og fer síðan í burtu og kemur til hinnar ekkjunnar og segir að þeir séu í útnorðurshorninu í heygarðinum hennar. Hún vill borga hönum það, en hann tekur ekki við því af því hún er fátæk. So ferðast hann þaðan til bræðranna. Þeir spurja hann að hvað Kolur hafi sagt. Hann segir hann hafi sagt þeir stæli hvor frá öðrum. Þeir eru so heiftugir að þeir fljúgast á og drepa hvor annan.
So tekur hann það sem fémætt er í kotinu, fer síðan heim í kóngsríki og gengur fyrir kóng og segir að hann sé kominn til þess að segja hönum það sem hann hafi verið að hugsa: Það sé það ef hann skyldi verða mágur sinn óhræsið að tarna. Kóngur þrætir fyrir. Trítill tekur upp spjót og setur fyrir brjóstið á hönum og segir hann skuli reka hann í gegn ef hann þræti fyrir, so kóngur segir það hafi verið satt. So tekur hann Trítil til sín í ríkið og lætur kenna hönum. So þegar Trítill er búinn að læra þá segir kóngur að hann ætli að gifta hönum dóttur sína og megi hann fara að bjóða. Trítill segir hann skuli ráða hvurju boðið sé nema sig langi til að bjóða einum. Hönum er leyft það. So kemur boðsfólkið og er farið að raða til sætis og í boðsfólkinu er skelfilega stór tröllkall. Trítill segir það eigi að láta hann sita við hliðina á sér. Öllu boðsfólkinu stóð stuggur af hönum. Trítill biður fyrir að bera mikið á borð fyrir þennan kall. So veizlunni fer vel fram og so er staðið upp frá borðum og þá biður Kolur Trítil að finna sig út. Þeir fara út og þá fær Kolur Trítli mikið af peningum. Kolur segist ætla að biðja hann bónar að lofa sér að sofa hjá konunni hans í nótt. Hann segir hann skuli nefna það við hana, nefnir það við hana. Hún segir það sé hreint frá, hún sé hrædd við hann. Hann segir Kol hún geri það ekki. So reyna þeir báðir. Hún segist skuli gera það ef hann snúi alltaf frá sér og maðurinn sinn vaki yfir sér með ljós. So fóru þau að hátta og hún snýr frá hönum. So sofna bæði og þá dettur skelfilega ljótur tröllshamur af hönum. Hann tekur hann og brennir hann. Þegar hann vaknar þá dreypir hann á hann. Það var þá fallegasti kóngssonur. Kolur segir hann verði að gefa henni morgungjöf fyrst hún hafi komið sér úr álögunum. Tröllskessan í bæjargilinu hafi lagt á sig að hann skyldi ekki komast úr álögunum fyr en hann svæfi hjá kóngsdóttir sem seint mundi verða. So sóktu þeir allt í hellirinn og fóru heim í ríki með það. So giftist hann í ríkinu. Og endar so þessi saga.