Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Vilhjálmur kaupmannssonur og Ása kóngsdóttir
Vilhjálmur kaupmannssonur og Ása kóngsdóttir
Einu sinni var kaupmaður nokkur út í löndum. Hann var stórauðigur og átti marga garða; hann hafði og fjölda skipa í förum og rak mikla kaupverzlan til ýmsra landa. Hann var ávallt heppinn í verzlun sinni og safnaðist honum því auður með ári hverju. Hann var hinn mesti rausnarmaður og hélt jafnan fjórar stórveizlur á hverjum misserum. Hann var kvongaður og átti einn son við konu sinni og er sá nefndur Vilhjálmur; hann var frumvaxta er þessi saga hefst. Unnu foreldrar hans honum mikið, enda var hann hinn mesti atgjörvismaður og vel viti borinn. Hann var svo mikill íþróttamaður að fáir komust til jafns við hann og að því skapi var hann vel að sér í bóklegum menntum, en gaf sig lítið að kaupmannsskap. Hann var ör af fé og svo brjóstgóður að hann mátti ekkert aumt sjá. Varð hann af slíku harðla vinsæll.
Líða nú tímar fram þar til faðir hans tekur sótt þá er hann leiddi til bana. Og sem hann fann hvað sér leið þá kallar hann til sín son sinn og ræður honum mörg heilræði. „Er nú líkast, son minn,“ segir hann, „að brátt skili samvistir okkar. Áttu að taka arf allan eftir minn dag; en þó það sé mikið fé þá segir mér þunglega hugur um hversu þér mundi endast það. Er það því ráð mitt að þú minnkir kaupverzlun mína og aftakir stórveizlur þær allar er ég hefi verið vanur að halda.“
Eftir það andaðist kaupmaður og var útför hans gjör virðuleg. En Vilhjálmur sezt þar í allan auð föður síns og hefir nú rausn mikla og býtir fé til beggja handa. Fór því svo fjarri að hann legði niður veizlur föður síns að hann hélt þær nú með enn meira kostnaði en áður hafði verið. Verður hann nú stórlega vinsæll. En brátt tekur honum að eyðast fé og þar kemur um síðir að hann er orðinn svo skuldugur við ýmsa vini sína að hann hyggur sig naumast munu eiga fyrir þeim skuldum öllum. Verður hann þá áhyggjufullur um hag sinn, en nennir þó eigi að lægja metnað sinn og rausn. Hann efnar nú til mikillar veizlu og var það hin fjórða stórveizla hans á þeim misserum. Til þessarar veizlu býður hann öllum skuldheimtumönnum sínum og kærustu vinum og veitti þeim enn stórmannlega eins og vant var. Var þar gleði mikil og fast drukkið.
Um kvöldið þá er menn voru orðnir ölhreifir biður Vilhjálmur sér hljóðs. Þakkar hann þá fyrst gestum sínum alla þá vild og vináttu er þeir hafi látið sér í té og því næst snýr hann sér að skuldheimtumönnum sínum og segir þeim hvar nú sé komið um fjárhag sinn. Biður hann þá nú taka þær litlu leifar sem eftir sé af eigum sínum og skipta með sér, það sem þær hrökkvi til, hvað sem um sinn hag líði. Þeir segja að þetta mál megi vel bíða morguns og skuli þeir þá semja það með sér er allir sé ódrukknir. Drepa þeir þessu tali niður, en drekka sem áður og skemmta sér. Sætir þá Vilhjálmur lagi og kemst frá þeim. Hefir hann nú fastráðið það í huga sér að leynast af landi burt og leita hamingju sinnar annarstaðar. Hann skundar nú út úr borginni í þungu skapi; og sem hann gengur eftir einni götu mætir hann fátækri konu með tvö börn. Hún þekkti Vilhjálm og örlæti hans við snauða menn og hjálparþurfa, verður því fegin fundi hans og biður hann fyrir guðs sakir nokkurrar ölmusu sér og börnum sínum til bjargar. Svo er sagt að Vilhjálmur hefði þá ei meira fé á sér en níu gullpeninga; hann tekur þá og gefur konunni þrjá, en sína þrjá hvoru barni. Eftir það hvatar hann ferð sinni og gengur nú á merkur og skóga.
En það er að segja af vinum Vilhjálms að þeir sakna hans brátt. Er hans þá leitað um bæinn og svo aftur og fram í allar áttir og fannst hann ekki sem vonlegt var. Fær hvarf hans mikillar hryggðar bæði vinum hans og venzlamönnum og svo mörgum öðrum. Hyggja það flestir menn að hann muni hafa farið sér af örvilnan út af skuldum sínum. Féll skuldheimtumönnum hans þetta næsta þungt og kváðust heldur mundu hafa viljað gefa honum upp allar skuldirnar en þetta hefði af hlotizt. Því næst var bú Vilhjálms selt og greiddar skuldir hans og er svo sagt að það hrykki vel.
Nú er að víkja til Vilhjálms að hann fer huldu höfði þar til hann kemur einn dag að húsi nokkru eða skála. Hann gengur inn og litast um. Þar sér hann tólf rúm umhverfis í skálanum; var ein rekkjan skrautlegust og tjölduð allt um kring. Þar sér hann og alls konar vopn, vistir og varning; var það allt saman stórmikill auður. Engan mann fann hann í skálanum. Hann dvelst nú þarna um daginn og tekur það fyrir að hann býr upp öll rúmin. Því næst býr hann til kvöldverðar handa skálabúum og bíður svo heimkomu þeirra. En er leið að kvöldi komu skálabúar heim; voru þeir tólf saman og allir stigamenn. Þegar þeir sjá Vilhjálm verða þeir næsta ófrýnir. Spyr foringi þeirra hver hann sé eða því hann sé þar kominn. Vilhjálmur kvaðst vera einn kaupmannsson og hafa stolið, en strokið síðan undan hegningu. „Hefi ég nú,“ segir hann, „lengi villzt matlaus um merkur og skóga unz ég rakst á híbýli yðar. Vil ég nú beiða yður ásjár og viðtöku. Skal ég fús að þjóna yður í öllu því er ég má; en eigi vil ég leyna yður þess að ég má eigi sjá mannsblóð og er ég fyrir þá sök eigi felldur til harðræða, en trúr mun ég yður vera í því er ég orka.“ Ræðst það nú af að stigamenn taka við Vilhjálmi og gerist hann þjónustusveinn þeirra. Er hann heima að skála þeirra á daginn og annast um matreiðslu og annað er við þurfti. Leysir hann það allt vel af hendi. Stigamenn ríða jafnan út hvern dag að gildra til veiða.
Líða nú tveir mánuðir svo að eigi er getið tíðinda; en þá tekur Vilhjálmur eftir því eitthvert kvöld er hann þjónar foringja stigamanna til sængur að hann ber lítinn lykil á tygli um háls sér. Vilhjálm fýsir mjög að vita að hverju þessi lykill muni ganga er foringi geymi svo vandlega. Leitar hann sér nú ráðs og fær náð máti af lyklinum þegar stigamenn voru í svefni. Vilhjálmur var hagur vel; og um daginn eftir þá er stigamenn eru burt riðnir smíðar hann lykil eftir máti sínu og tekst honum það vel. Að því búnu leitar hann vandlega um allan skálann ef hann fyndi nokkra þá hurð eða hirzlu er lykillinn gengi að. Loks leitar hann í rekkju stigamannaforingjans og flettir upp öllum tjöldunum; þar finnur hann hurð læsta og fellda í þilið. Hann ber nú við lykilinn og gengur hann að skránni. Því næst lýkur hann upp og liggja þar göng í jörð niður. Hann gengur þar eftir unz hann kemur niður í lítið jarðhús. Þar sér hann sitja konu á stóli, unga og fríða sýnum. Var hár hennar bundið um stólbrúðirnar, en hendur á bak aftur. Matur stóð á borði svo nærri henni að hún fékk aðeins þefað af, en einskis neytt. Hún var mögur og allvesalleg að sjá og ákaflega sorgbitin. Vilhjálmur kveður hana kurteislega og spyr hana að nafni eða fyrir hverja sök hún sé hér svo hörmulega haldin. „Ása heiti ég,“ segir hún, „og er ég kóngsdóttir af fjarlægu landi. Nam stigamannaforinginn er ræður fyrir skála þessum mig í burt úr ríki föður míns og flutti mig hingað. Ætlar hann að neyða mig til að eiga sig, en ég hefi eigi viljað játast honum og fyrir þá sök hefir hann sett mig í þessa prísund.“ Vilhjálmur leysir hana nú skjótt og hjúkrar henni í öllu sem bezt hann mátti. Segist hann muni freista að frelsa hana úr höndum stigamanna, en hún verði fyrst að hressast svo hún sé ferðafær. Konungsdóttir tekur nú heldur að gleðjast og fréttir Vilhjálm eftir um nafn hans og ætt og hvernig hann sé þangað kominn í flokk með stigamönnum. Hann segir henni allt hið sanna um það. Konungsdóttir hressist nú brátt. Er hún í skálanum hjá Vilhjálmi á daginn og skemmta þau sér; en á hverju kvöldi verður hann að búa um hana í jarðhúsinu sem áður svo engan gruni neitt um athæfi þeirra.
Líður nú tíminn þar til konungsdóttir hefir fengið aftur mátt sinn; og einn morgun sem stigamenn eru riðnir út til veiða sinna þá búast þau Vilhjálmur á burt úr skálanum. Tekur Vilhjálmur tvo hesta stigamannaforingjans þá er skjótastir voru og vopn þau er hann vissi bezt í skálanum. Því næst stíga þau á bak og ríða lengi dags slíkt sem af tekur; en þá heyra þau óp mikil og köll að baki sér. Sjá þau nú hvar sex af stigamönnum geysast eftir þeim. Verður konungsdóttir nú mjög hrædd, en Vilhjálmur biður hana vera hughrausta og segir eigi víst að hann sé uppgefinn fyrir stigamönnum. Þau voru þá komin undir grjóthól einn háan og var þar vígi gott uppi á hólnum. Vilhjálmur tekur konungsdóttur skjótt af baki og leiðir hana upp á hólinn. Því næst leysir hann þar upp eggjasteina svo marga sem hann fær tóm til. En í því koma stigamenn að hólnum og hlaupa þegar af hestum sínum. Þarf þar ekki að sökum að spyrja: Þeir sækja þegar allir senn upp á hólinn að Vilhjálmi með ópi og eggjun; en hann lætur drífa á þá grjótið meðan það vinnst til og fá sumir af því bana, en sumir meiðingar stórar; og sem þrotið er grjótið þrífur Vilhjálmur sverð sitt og berst nú sem óður væri. Lýkur svo þeim leik að hann fellir þá alla. Var hann þá ákaflega móður, en ekki sár. Eftir það setur hann konungsdóttur á bak og ríða þau leiðar sinnar unz þau koma að einni móðu. Þá sjá þau enn hina stigamennina sex saman koma á eftir sér og foringjann sjálfan í ferðarbroddi. Ríða þeir ákaflega, en foringinn orgar í sífellu og biður þau bíða, hin vondu þý. Sér nú Vilhjálmur að ei er um annað að tefla en að veita viðnám og selja líf sitt sem dýrast. Svo er sagt að tangi einn mjór gekk fram í móðuna þar skammt frá þeim og mátti þar einumegin að sækja. Þangað víkja þau og lætur Vilhjálmur konungsdóttur fram í tangann að baki sér. Ber nú stigamenn brátt að og lýstur þegar í hinn grimmasta bardaga. Sækja stigamenn fast að Vilhjálmi, en hann verst af hinni mestu prýði. Var það hvort tveggja að hann var kappi mikill og hinn vopnfimasti, enda þurfti hann þess nú alls við. En með því hann var áður þreyttur og vígmóður, en liðsmunur ærinn og menn hraustir til aðsóknar, þá taka um síðir að berast sár á Vilhjálm. Sér þá konungsdóttir þeim báðum vísan bana og það verður nú úrræði hennar að hún fer úr hinum yztu klæðum og ber þau á vopn stigamanna. Við þetta fatlast þeim aðsóknin og fær Vilhjálmur um síðir drepið þá alla; enda er hann nú svo yfirkominn af sárum og mæði að hann má sig varla hræra. Tekur hann þar nú nokkra hvíld og bindur konungsdóttir sár hans sem hún getur bezt; voru þau engin banvæn; þau ráða það nú af að snúa aftur til skála stigamanna og láta þar fyrirberast um sinn. Komst Vilhjálmur nauðuglega á bak með stuðningi konungsdóttur. Því næst halda þau aftur hina sömu leið til skálans og setjast þar að. Græðir konungsdóttir öll sár Vilhjálms, því hún var hinn bezti læknir.
Dvöldust þau þarna nær misseri áður Vilhjálmur yrði ferðafær; og var hann þá búinn að fá brennandi ást á konungsdóttur og þau hvort á öðru. Kom þeim nú ásamt um að reyna til að komast í ríki það er faðir hennar réð fyrir. Leggja þau síðan upp úr skálanum og hafa með sér svo mikið af fé stigamanna því er dýrmætast var sem þau fá með komizt. Segir ekki af ferð þeirra fyr en þau koma í eina borg er stóð við sjó fram. Var þaðan löng sjóleið heim í föðurland Ásu. Þarna setjast þau að um hríð og leigðu sér hús til að búa í. Hugðust þau að bíða þar fars.
Vilhjálmur gengur einatt út um stræti borgarinnar sér til skemmtunar; og einhvern dag verður honum reikað inn í kirkjugarð nokkurn. Sér hann þá að þar eru margir menn að grafa upp gröf og eru þeir að bisa við að ná upp kistunni sem hinn dauði lá í. Vilhjálmur gengur til þeirra og spyr því þeir breyti svo undarlega að grafa upp dauðan mann. Þá svarar einn borgarmanna og segir: „Vér gerum það eftir skipun dómarans hérna í staðnum. Hinn dauði dólgur sem hér liggur í kistunni var útlendur maður og ókenndur hér. Braut hann skip sitt hér við land fyrir nokkrum tíma og lét þar menn alla og svo fjárhlut. Staðnæmdist hann síðan hér í borginni, en dómarinn lánaði honum allmikið fé til að halda sig við. Nú fyrir skömmu tók útlendingur þessi sótt og andaðist áður hann fengi greitt dómaranum aftur lánið. Varð dómarinn þá svo reiður yfir fjármissi sínum að hann bauð oss að grafa líkið upp aftur og dæmdi að það skyldi berja það jafnmörg högg eins og hann hafði lánað hinum dauða marga dali.“ Vilhjálmur segir: „Er þá enginn svo veglyndur hér innan borgar að frelsa vili líkið frá svo svívirðulegri meðferð og borga skuldina fyrir hinn dauða?“ Þegar borgarmenn heyra þetta fara þeir að hlæja og segja sér þyki líklegt að enginn sé svo vitlaus að ausa þannig út fé sínu fyrir dauðan mann og ofan í kaupið ókenndan útlending. Vilhjálmur segir: „Skilið fyrir mig til dómarans, góðir hálsar, að ég sé fús til að greiða honum skuldina fyrir hinn dauða ef líkami hans fái þá að hvíla með friði í gröf sinni.“ Þeir gera sem Vilhjálmur bað. Þegar dómarinn fær þessa orðsending verður hann harðla glaður og fer þegar til fundar við Vilhjálm og takast þeir tali við. Greiðir þá Vilhjálmur honum féð og biður hann síðan að láta byrgja aftur gröfina. Var það þegar gert og gengur Vilhjálmur eigi fyr frá en því er lokið. Varð honum löng dvöl að þessu um daginn. Eftir það gengur hann heim til konungsdóttur. Hún spyr hann hvað hann hafi dvalið svo lengi. Hann segir henni sem var. Hún verður glöð við og segir að þetta hafi honum gæfusamlega tekizt og muni hann fá það endurgoldið þó að síðar verði. Leið nú svo fram um hríð að ei bar til tíðinda.
Einhvern dag siglir skip af hafi að borginni og leggst þar fyrir atkerum. Vilhjálmur fær sér þá bát og rær út til skipsins. Hann fréttist fyrir hverir skipamenn sé. Verður hann þess þá brátt vís að þar eru komnir menn föður Ásu konungsdóttur og er Rauður ráðgjafi konungs fyrir þeim. Hafa þeir þá leitað hennar þrjú sumur samfleytt víða um heiminn og eru nú á heimleið. Þegar Vilhjálmur heyrir þessi tíðindi gengur hann fyrir Rauð og biður hann veita sér far og konu sem með sér sé. Rauður játar því og kveður á tímann er hann skuli kominn vera á skip. Síðan rær Vilhjálmur aftur til lands og segir konungsdóttur tíðindin og svo að hann hafi tekið þeim far heim til föður hennar. Hún verður harðla glöð við þetta. Búa þau sig nú skjótt til brottferðar og lætur Vilhjálmur flytja þau á skip út. Þegar þau koma þar þekkir Rauður brátt konungsdóttur. Heilsar hann henni með mikilli lotningu og fögnuði og allir hans menn og þykjast hana úr helju heimt hafa. Eftir það rennur á byr. Býður þá Rauður að vinda upp segl og lætur í haf; eru þeir skjótt úr landsýn.
Rauður hafði brátt fengið grun á því að ylgott mundi með þeim Vilhjálmi og konungsdóttur. Lætur hann nú taka Vilhjálm og setja í áralausan bát. Þegar konungsdóttir sér þetta verður hún hryggari en frá megi segja og biður Rauð á allar lundir að fremja eigi slíkt níðingsverk á saklausum manni og láta Vilhjálm heldur njóta þess að hann sé lífgjafi sinn; en hann gefur engan gaum grátbeiðni hennar. Er nú bátnum hrundið frá skipinu; en Rauður gengur að konungsdóttur og kveðst nú skulu drepa hana nema hún vinni sér eið að því að sanna það allt er hann segi föður hennar þegar þau komi heim. En með því henni þótti einskis ills örvænt af Rauði og hún var nú þarna hjálparlaus á hans valdi þá vinnur hún það til lífs sér að sverja honum þetta eftir því sem hann skildi fyrir. Hann gaf og mönnum sínum fé til að leyna þessu öllu með sér og samsinna sögu sína.
Siglir Rauður nú heim og sækir þegar á konungsfund með dóttur hans. Verður þar mikill fagnaðarfundur með þeim feðginum. Segir Rauður konungi að hann hafi frelsað dóttur hans úr tröllahöndum með miklum lífsháska og lætur allmikið af hreysti sinni og framgöngu. Kveðst hann nú vænta þess að konungur muni vilja efna orð sín og gefa sér dóttur sína. Konungur þakkar Rauði vel trúleika hans og framkvæmd. Segist hann víst vilja efna öll sín heit, enda sé Rauður maklegastur að njóta dóttur sinnar fyrst hann hafi borið gæfu til að frelsa hana. Verður Rauður nú harðla glaður og vill þegar láta halda brúðkaupið. Konungur gengur nú til dóttur sinnar og segir henni allt viðtal þeirra Rauðs. „Verður þú nú, dóttir mín, að ganga að eiga hann því að ég hét því eftir að þú vart horfin að gefa þig hverjum þeim manni sem gæti fært mér þig aftur lífs og heila.“ Konungsdóttir lét sér fátt um finnast og var næsta sorgbitin og döpur í bragði. Þetta þykir konungi undarlegt og spyr hana eftir hvað valdi ógleði hennar eða hvort það sé eigi allt satt sem Rauður hafi sagt. Hún svarar og segir að svo muni vera, – „en nauðigt er mér að giftast Rauði og þess vil ég biðja yður, faðir minn, að þér veitið mér misseris frest til þessa ráðahags“. Konungur segir að svo skuli vera, og skilja þau talið. Illa líkar Rauði þessi dráttur, en fær þó ei að gjört.
Nú er að víkja aftur til Vilhjálms að hann rekst á bátnum fyrir vindi og straumi og sér eigi annað en himin og haf. Gengur svo lengi og tekur hann þá að örmagnast bæði af hungri og þorsta og um síðir sofnar hann. Dreymir hann þá að maður kemur að honum. Sá heilsar honum glaðlega og segir: „Illa ertu nú staddur, vinur, og mun ráð að duga þér. Skaltu vita að ég er sá hinn sami sem þú borgaðir dómaranum skuldina fyrir og frelsaðir þannig líkama minn frá svívirðulegri misþyrmingu með drengskap þínum. Ég var fyrst um hríð hestavörður konungsins föður unnustu þinnar og komst ég í kærleika við hann; en síðan bjó ég út skip og réðst í kaupferðir til annara landa. Vildi mér þá það slys til að ég braut skip mitt skammt frá borginni sem þú dvaldir í síðast. Týndi ég þar bæði mönnum og fé, en komst sjálfur nauðuglega á land og lét fyrirberast í borginni. En með því ég var þá félaus með öllu fór ég til dómarans, sagði honum frá skaða mínum og bað hann að lána mér skotsilfur nokkuð. Hét ég að greiða honum það aftur skilvíslega jafnskjótt og ég kæmist heim til mín. Hann varð vel við bón minni og léði mér féð. En fimm vikum seinna tók ég sótt og andaðist áður en ég fengi endurgoldið lánið; en þá tókst þú við þar sem mig þraut og vildi ég að þér yrði ekki ólaunaður drengskapur þinn og manngæzka. Nú þegar þú vaknar þá muntu kominn að landi skammt frá borg þeirri er faðir unnustu þinnar ræður fyrir. Skaltu þegar ganga heim til borgar og fyrir konung og biðja hann veturvistar. Mun hann veita þér hana, en spyrja þig jafnframt hvort þú sért nokkur íþróttamaður eður hver iðn þér sé hentust. Þú skalt láta lítið yfir atgjörvi þinni, en segja þó að þú hafir því helzt vanizt að geyma hesta og temja þá. Konungur á tíu hesta hvíta er honum þykir mjög vænt um; og með því að hestavörður hans er nú nýlega andaður þá mun hann biðja þig að ganga í stað hans og geyma hesta sinna. Það skaltu þiggja og mun hann launa þér stórmannlega. Í hesthúsi gæðinga konungs er stallur vandaður og vel gjör. Þú skalt hyggja vandlega að stallinum; muntu þá finna þar leynihurð í einum stað og þar undir kistu ekki alllitla og fulla af gulli og silfri og ýmsum gripum. Þetta fé skaltu eiga og njóta vel. Muntu þá brátt vera ör af fénu og afla þér vinsælda í hirð konungs. En þess skaltu gæta að torkenna þig svo Rauður þekki þig ekki né menn hans. Þegar þú ert farinn að kynnast við í borginni skaltu leita þér færis að ná fundi konungsdóttur áður en þetta misseri er liðið og verðið þið þá að ráða ráðum ykkar sem þið getið bezt. Get ég nú ekki lagt fleira til með þér það er þér megi að gagni verða, og lifðu nú heill og vel og snúist þér allir hlutir til heiðurs og hamingju.“
Í þessu vaknaði Vilhjálmur og þóttist sjá svip mannsins er í burtu gekk. Var hann þá kominn upp á þurrt land, en bátur hans flaut þar í flæðarmálinu; og svo var hann orðinn hress eins og hann hefði engan hrakning fengið. Hann tekur nú á sig göngu og stefnir til borgar einnar mikillar er hann sá skammt þaðan; var það konungsbærinn. Hann gengur þegar fyrir konung og kveður hann kurteislega. Konungur tekur vel kveðju hans og spyr hver hann sé. Hann segist vera einn útlendur farmaður og biður konung veturvistar. Konungur veitir honum það og fór viðtal þeirra allt eftir því sem draummaðurinn hafði getið. Gerist Vilhjálmur nú hestavörður konungs og komst brátt í kærleika við hann. Þykir konungi hann bæði vitur og vel menntur. Vilhjálmur fann kistuna í stallinum þar sem honum hafði verið til vísað og tók hann hana til sín. Var það stórmikið fé. Gerðist hann nú ör af fénu og heimti menn þannig til vináttu við sig. Hann var og skartsmaður mikill og hélt sig ríkmannlega.
Nú var skammt til þeirrar stundar er halda átti brúðkaup þeirra Rauðs ráðgjafa og konungsdóttur. Hugði Rauður gott til þess, en konungsdóttir miður. Var hún ávallt döpur mjög síðan hún kom heim aftur og jókst ógleði hennar því meir sem nær leið brúðkaupsstefnunni. Þetta þótti föður hennar mikið mein og tjáði fyrir henni á allar lundir hversu mikið þau ætti bæði Rauði að þakka; en hún lét sér fátt um finnast og kvaðst nauðug mundu játast honum, þó svo yrði að vera.
En nú er að víkja aftur til Vilhjálms að hann gengur einn dag sem oftar út um stræti að skemmta sér. Gengur hann í þá götu er skemma konungsdóttur stóð í og torkenndi sig þá ekki. Hann nemur staðar undir skemmunni þar sem hann vissi að herbergi konungsdóttur voru yfir uppi. Líður þá ei langt um áður konungsdóttir lýkur upp glugga og kastar til hans kefli; hafði hún þekkt hann út um gluggann. Hann tekur upp keflið og lítur á. Voru þar ristar á rúnir þær er svo sögðu að hún biður hann koma til skemmudyra sinna annað kvöld í ákveðinn tíma ef svo sé sem sér sýnist að hann sé Vilhjálmur unnusti sinn. Verður Vilhjálmur nú harðla glaður og gerir henni merki að hún kenni rétt. Eftir það gengur hann á burt. Líður nú tíminn þar til um kvöldið eftir. Lætur Vilhjálmur sig eigi vanta til skemmunnar; og sem hann kemur þangað þá er trúnaðarmaður konungsdóttur þar fyrir. Hann tekur í hönd Vilhjálmi og leiðir hann gegnum marga sali til herbergis konungsdóttur. Verður þar nú meiri fagnaðarfundur með þeim en frá megi segja. Segir þá hvort öðru hvað á dagana hefir drifið síðan þau voru skilin svo sviplega á skipinu. Kvað konungsdóttir sig lengi hafa grunað það að Vilhjálmur mundi einhvern tíma fá það launað að hann greiddi skuldina fyrir hinn andaða. Réðu þau síðan ráðum sínum og vissi enginn til tals þeirra. Eftir það kvöddust þau með blíðu og sneri Vilhjálmur heim aftur.
Skömmu síðar lætur konungsdóttir kalla föður sinn til máls við sig. Var hún þá venju fremur glöð í bragði og mælti: „Nú hefi ég, faðir, nokkuð hugsað um mál okkar Rauðs síðan við ræddum þar um seinast. Er nú svo komið að mér er orðið það ljúft að gefast honum ef það er yðar vili; og vil ég að þér látið sem fyrst búast við brúðkaupi okkar. En þess vil ég biðja yður, faðir, að þér bjóðið hestaverði yðar hinum nýkomna í veizlu okkar, því mig fýsir mjög að sjá hann og heyra orðræður hans, slíkt orð sem fer af viturleik hans og prúðmennsku.“ Konungur kveðst það gjarna vilja gera og þótti honum nú harðla vænt um að dóttur hans var snúinn hugur og hún hafði tekið aftur gleði sína. Þau feðgin skilja nú talið.
Síðan lætur konungur efna til dýrlegrar veizlu með hinum beztu tilföngum og býður þar til öllu hinu bezta mannvali úr ríki sínu. Hann bauð og hestaverðinum. Skyldi nú drekka brúðkaup þeirra Rauðs og konungsdóttur. Er því næst mönnum í sæti skipað og brúður á bekk leidd með sínum meyjaskara. Taka menn nú til drykkju og er gleði mikil í höllinni. Konungsdóttir segir þá við föður sinn: „Svo virðist mér, faðir, með því hér er nú saman komið svo frítt mannval af gjörvöllu ríki yðar sem það eigi nú allvel við að hér sé haft nokkuð til skemmtunar, fróðlegar sögur og fagurlegar orðræður. Hefir mér borizt til eyrna að hestavörður yðar sé vitur maður og margfróður og muni víða hafa farið og frá mörgu kunna að segja. Fyrir því vil ég biðja yður að þér látið hann nú segja ævisögu sína mönnum til skemmtunar.“ Konungur segir það vel fallið og lætur þegar kalla Vilhjálm fyrir sig. Hann gengur þá fyrir konung og kveður hann kurteislega og svo dóttur hans. Hún tekur blíðlega kveðju hans og lætur setja stól handa honum fyrir hásæti konungs og biður hann þar á setjast. Hann gerir svo. Var hann ítarlega búinn að klæðum, en maðurinn fríður sýnum og drengilegur. Konungsdóttir mælti þá til Vilhjálms: „Nú skulu þér segja konunginum föður mínum ævisögu yðar hreint og einarðlega eins og hún hefir gengið og leyna engu af. Væntir mig þess að það muni flestum þykja góð skemmtun.“ „Skylt er það, konungsdóttir,“ segir Vilhjálmur, „að ég veiti yður þetta ef þér vilið hafa lítillæti til á að hlýða og faðir yðar.“
Hefir hann nú upp sögu sína og segir allt sem farið hafði til þess er þá var komið. En er hann hafði lokið máli sínu tekur konungsdóttir aftur til orða og segir við föður sinn: „Nú vildi ég, faðir, að þér látið Rauð einnig skemmta mönnum litla stund með sinni ævisögu. Mætti þá verða að þér vissið nokkru gjör hverjum þér hafið viljað gifta mig.“ Konungur bauð þá Rauði að taka til máls, en hann taldist undan á alla vegu og kvað þetta vel mega bíða annars tíma. Konungsdóttir mælti: „Eigi má þér, Rauður, í annan tíma verða meiri sæmd að segja frá frægð þinni og afreksverkum en í slíku fjölmenni sem hér er nú saman komið. Muntu hljóta af því langvinnan lofstír ef sagan er fögur, en ef öðruvísi er, sem mig uggir heldur, þá er nú mál að hið sanna verði bert um framferðir þínar.“ Konungur lítur þá til Rauðs mjög reiðuglega og mælti: „Seg nú fram, Rauður, sögu þína afdráttarlaust, en vér munum til hlýða, ella muntu drepinn.“ Sér nú Rauður að eigi tjáir lengur undan að hokra. Hefir hann því næst upp sína frásögn; og er henni var lokið þótti öllum hún furðu ljót. Varð það nú bert að Rauður var reyndar einn karlsson. Hafði hann myrt foreldra sína og systkini og framið mörg illvirki önnur og komizt síðan til fjár og valda með falsi og prettum. Var það nú allra manna atkvæði þeirra er í höllinni voru að Rauður væri sannlega ólífismaður. Er nú ekki að orðlengja það að Rauður er út leiddur og fenginn í hendur þrælum. Festu þeir hann á hinn hæsta gálga og lét hann þar líf sitt við illan orðstír.
En konungur snýr sér að Vilhjálmi blíðlega og þakkar honum með mörgum fögrum orðum allan sinn drengskap og frelsi dóttur sinnar, segir hann maklegastan hennar að njóta, enda muni það vera vili hennar. Er nú Vilhjálmur settur í sæti Rauðs með mikilli sæmd og virðingu. Drekkur hann brúðkaup sitt til konungsdóttur og hafði hún nú engin mótmæli. Stóð sú veizla í hálfan mánuð með mikilli list og prýði; og að lyktum veizlunnar voru allir boðsmenn út leystir með sæmd og góðum gjöfum.
En Vilhjálmur sezt þar að ríki með tengdaföður sínum og gerðist síðan konungur eftir hans dag. Unnust þau Ása drottning mikið og áttu saman margt barna. Hélt Vilhjálmur ríki sínu til ellidaga með allmiklum veg og þótti jafnan ágætur konungur; og höfum vér ei heyrt fleira af honum sagt.