Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Bóndason og fósturdóttirin

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Bóndason og fósturdóttirin

Einu sinni vóru hjón á bæ; þau áttu einn son og höfðu tekið stúlkubarn til uppfósturs. Börnunum kom mikið vel saman og mátti hvurugt af öðru sjá.[1]

Einu sinni bar svo til einn vortíma að fólk var látið fara á grasafjall og vóru börnin látin fara með eftir beiðni þeirra sjálfra. Nú bar svo við á einni nótt er fólkið var komið út á grasamóa að sló yfir þoku svo dimmri að fólkið villtist hvað frá öðru svo börnin urðu ein sér. Nú sigraði hana svefn svo mjög að hún lagði sig út af, en hann var að snuðra þar nálægt til og frá um móana.

Þegar stundarkorn var liðið ætlaði hann að fara að vekja hana, en þá fann hann hana ekki og leitaði nú lengi til og frá og þóttist finna þúfuna er hún lagðist á. Hélt hann nú hún mundi hafa vaknað og ekki séð sig, farið síðan heim í tjald eða fundið máske fólkið. Hann veit nú ekki hvurt hann á að halda, treystist ekki til að rata, en vill ekki þarna vera og er nú orðinn mjög órólegur út úr stúlkunni. Loksins gengur hann eitthvað út í þokuna og eftir langa mæðu kemst hann heim að tjaldinu og finnur þar engan mann. Hann fer nú inn í tjaldið, leggst nú út af í þungum þönkum mjög angurvær. Síðan sofnar hann og sefur þangað til fólkið kom um morguninn; var þá orðið þokulaust og gott veður. Nú varð fólkinu bilt við er það sá drenginn í tjaldinu, en ekki stúlkuna. Hafði það farið að leita að þeim er þokuna birti og hóa og kalla í allar áttir. Yfirgaf það síðan alla leitina og hélt það þau mundi hafa komizt heim í tjald.

Í þessu vaknar drengurinn er fólkið kom í tjaldið, og spyr hann strax hvurt það hafi fundið uppalningssystir sína, en það sagðist ekkert til hennar vita; spurði það nú drenginn hvar þau hefði skilið eða hvurnin. Hann segir nú allt eins og var og þótti þetta undarlegt. Fólkið fór nú á stað aftur og drengurinn líka og leitaði það langt fram á dag og fannst ekkert, heyrðist eða sást. Eftir þetta varð drengurinn svo sorgbitinn að hann neytti hvurki svefns né matar. Síðan var honum fylgt heim.

Þegar hjónin heyrðu þessar fréttir og sáu son sinn svona angursleginn urðu þau næsta hrygg og allt heimilisfólkið varð gleðisnautt; drengurinn lagðist í rekkju og lá lengi. Móðir hans var að reyna til að ræta af honum, en það vildi lítið gagna. Loksins eftir langa legu fór [hann] að réttast [við] og um [síðir] varð hann heill heilsu; var hann þá ellefu vetra og stúlkan hans hafði verið eins.

Nú liðu sex eða sjö ár. Þá bar svo til á þessum sama bæ að vantaði allt fé bónda á einum degi, og var smalamaður að leita í þrjá daga samfleytt og fann öngva skepnu. Bónda þótti þetta undarlegt. Um kvöldið sagðist bóndasonur ætla snemma að morgni [að] fara að leita og kvaðst vilja hafa nesti; þau skyldu ekki undrast um sig þó hann kæmi ekki í viku. Þau beiddu hann að koma fyr en svo því annars legðist þau í rúmið af sorg. Hann bað þau verða óhrædd. Um morguninn fór bóndasonur snemma á fætur og heldur nú af stað, leitar nú allan dag til kvölds og finnur enga kind. Seint um kvöldið slær yfir þoku svo hann veit ekki hvurt hann á að halda. Loksins kemur hann ofan í einn dal; er hann þá orðinn uppgefinn af þreytu. Litast hann þar um eftir einhvurju fylgsni er hann gæti í verið um nóttina. Sér hann þá einhvurja mishæð í þokunni; þangað fer hann. Eru þetta stórir hólar. Hann gengur í kringum þá. Sér hann einn stærstan og gengur upp á hann. Þar sér hann glugga og mann á kjól þar inni vera að ganga um gólf. Konu sér hann þar fagra ásýndum sitja á rúmi og var að lesa í bók. Stúlkubarn sá hann líka hér um bil fimm eða sex vetra gamalt og það hélt á bók líka. Honum sýndist það mikið líkt konunni, fagurt ásýndar. Nú veit hann ekki hvurt hann á að þora að gjöra vart við sig. Hann hugsar að þó það kosti lífið þá verði það að hafa það og guðar á glugganum. Honum er tekið og litlu stúlkunni sagt að ljúka upp. Hún fer og lýkur upp og leiðir hann í hólinn. Hann heilsar þeim er inni vóru og ekki sá hann fleira fólk en þetta þrennt. Hann beiðist þar gistingar; honum var sagt það velkomið. Ekkert var við hann talað annað um kvöldið og ekkert boðið.

Nú líður kvöldið; sér hann þá konuna standa upp og fara í annað hús, en hin yngri fer að búa um rúm er þær sátu á um kvöldið. Eftir lítinn tíma liðinn kemur konan aftur og spyr gestinn hvurt hann vilji ekki fara að hvíla sig. Hann kvaðst það gjarnan vilja. Hún leiðir hann þá inn í hús það er hún gekk í áður. Segir hún hann skuli leggja sig í rúm er þar var. Þar var dálítið borð hjá rúminu og var diskur þar á borinn. Nú fer hann að hátta, en hún dregur af honum sokka og skó. Síðan réttir hún honum diskinn og segir honum borða, gengur svo í burt. Hann tekur þá til matar og þykir kynlegt að þar vóru eintóm kindahjörtu á diskinum. Borðar hann nú dálítið og setur so diskinn á borðið. Litlu síðar kemur konan og spyr því hann hafi ekki borðað. „Þér þótti þó,“ segir hún, „einhvurn tíma góð kindahjörtun.“ Hann spyr hvurnin hún viti það. „Þekkir þú mig ekki?“ [segir] hún. Hann segir: „Nei.“ „Manstu ekki,“ segir hún, „er við vórum bæði að uppalast hjá foreldrum þínum; og þegar við vórum ellefu vetra vórum við bæði látin fara á grasafjall og þar skildum við í þokunni.“ Hann segist muna það, en sér hafi ekki dottið í hug að hún væri hér, því bæði hann og aðrir hafi haldið að óvættir hafi hana tekið. Biður hann hana að segja sér hvurnin hún hafi þangað komizt. Hún segir þegar hún hafi verið nýsofnuð hafi maðurinn komið sem hann hafi séð í kvöld og tekið sig sofandi og borið sig hingað í þennan hól og þá hafi hún vaknað og borið sig aumliga, en [hann] hafi alla vega viljað af sér ræta og um síðir hafi hún getað tekið blíðlátum hans og nú séu þau orðin hjón; hann sé prestur álfafólksins í þessum dal og það sé dóttir þeirra sem hann hafi séð hjá sér sitja í kvöld svo nú sé það ómögulegt að þau geti náð saman eins og þau hafi verið búin að ráðgjöra sín á milli í föðurgarði hans; en ef hann vilji bíða eftir dóttir sinni sé honum hún velkomin til eignar. Hann segist vilja gjarnan vinna til að bíða fyrst hann geti ei fengið hana sjálfa og grætur nú bæði fagnaðar- og söknuðartárum. Hún biður hann að vera góðan og segir honum nú að fara að sofa; hann megi vera óhræddur því honum verði ekkert mein gjört, og svo býður hún honum góðar nætur og fer í burt, en hann fer að sofa og sefur til morguns í góðum náðum.

Um morguninn kemur konan með sokka hans og skó og segir honum nú muni hann vilja fara heim til föður síns í dag; honum muni fara að leiðast eftir honum, en féð er hann hafi farið að leita eftir sé geymt í hólunum er hann muni hafa séð í gærkveldi þar nálægt, en maður sinn muni fylgja honum á leið svo hann rati, en festarmeyjuna verði hann að sækja þegar hún sé orðin gjafvaxtra. Síðan færir hún honum mat að borða og eftir það býst hann til heimferðar og prestur til að fylgja honum. Kveður hann nú mæðgurnar alúðlega, en prestur lætur út féð og er það þar allt með tölu. Fylgir nú prestur honum þar til hann er kominn í búfjárhaga föður síns; þá skilur hann við hann með blíðu, en bóndasonur heldur heim með féð. Verða nú hjónin stórlega fegin hans heimkomu og fénaðarins, spyrja hann nú frétta, en hann sagði allt það er hann heyrði og sá. Hjónin undruðust sögu hans og gátu valla trúað honum.

Nú liðu nokkur ár og bar ekki til tíðinda. Vill nú bóndson fara að sækja festarmeyju sína og býst af stað; kemst nú í dalinn og er tekið vel á móti honum. Búa þau nú dóttir sína prestur og kona hans, og er þau búast til heimferðar fylgja foreldrar hennar þeim á leið, skildu síðan við þau með mesta kærleika, en þau héldu heim bóndason og stúlka hans. Síðan giftust þau og unnu hvert öðru hugástum meðan þau lifðu. Settist hann í bú föður síns og var mesti lánsmaður alla ævi sína. – Og endar þar saga þessi.

  1. Þessari sögu og hinni næstu er það sameiginlegt að fjallafólkið nefnist þar álfar eða huldufólk, en báðar sverja þær sig að öðru leyti svo í ætt útilegumannasagna að einsætt þótti að skipa þeim í þann flokk.