Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Útburðurinn í Sturlárrétt

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Útburðurinn í Sturlárrétt

Fyrir utan Sturlá í Fljótsdal er forn fjárrétt úr Kiðafelli og Villingadal. Sér þessi rétt út sem forn farvegur Sturlárinnar. Hefur jafnan þótt fárlega reimt í þeirri rétt; því væri fé haft næturlangt í henni var eitthvað jafnan laskað eður lamað af því á morgnana. Líka heyrðust þar oft hljóð til útburðar. Eitt sinn var kona á Þorgerðarstöðum sem Sólrún hét. Hún sat um vortíma inn í baðstofu; var þar fátt manna hjá henni. Heyrir hún þá sem barn veini niður við Keldá, en gefur sig ei að. Svo heyrir hún það í annað og þriðja sinn. Þá hleypur hún út og heyrir þessi óhljóð eru í Stullárréttinni og skildi um leið að þetta var útburðurinn sem á að vera í réttinni.