Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Þáttur af Grími Skeljungsbana

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Þáttur af Grími Skeljungsbana

Maður hét Kári og var Össurarson. Hann var systurson Hjálmúlfs er nam Blönduhlíð frá Djúpadalsá upp til Norðurár og bjó að Hjálmúlfsstöðum; hann liggur í Úlfshaugi til suðurs frá bænum sem enn sér merki til. Kári kom út með Hjálmúlfi og nam land frá Norðurá upp til Merkigils og bjó að Flatatungu; var hann því kallaður Tungu-Kári. Son hans hét Þorgrímur; var hann mikill maður og forvitri. Hann eignaðist að konu Áshildi dóttur Þorbrandar frá Þorbrandsstöðum í Norðurárdal og fylgdi henni að heiman Silfrastaðaland, og setti Þorgrímur bú saman að Silfrastöðum og varð mjög auðugur maður að gangandi fé. Þorbrandur bjó að Þorbrandsstöðum til elli. Hann hafði annað bú að Haukagili; lét hann gjöra á bæ sínum þann mikla þjóðbrautarskála er um getur í Landnámu og víðar. Lá þar þjóðvegur gegnum skálann og skyldi jafnan matur á borði standa, öllum heimill er hafa vildi. Þorbrandur er heygður hinumegin Norðurár, nálægt eyðijörðu þeirri sem heitir í Vík, og er haugur sá allmikill. Mælti hann svo fyrir að hann vildi þar búa er hann sjá mætti báðar bújarðir sínar, Þorbrandsstaði og Haukagil, þá hann mætti til hyggja og sést það af haugi hans. Þorgrímur á Silfrastöðum átti son þann við konu sinni er Grímur hét; var hann hinn gjörvilegasti maður og bráðþroska, og var það einmæli að ei mundi vaskari maður þá upp alast í Skagafirði. Dóttir Þorgríms bónda hét Ingibjörg; var hún fríð sýnum og vel að sér um alla hluti og þótti því kvenkostur mikill. Þorgrímur bóndi átti auð fjár, einkum gangandi fé; vóru þar haglendi góð og landkostir; þurfti hann og gildan sauðamann ef duga skyldi.

Það var einn tíma að skip kom af hafi í Kolbeinsárós; vóru það norrænir kaupmenn. Það var síðla sumars. Þorgrímur bóndi reið til skips sem fleiri bændur. Þar var á skipi með kaupmönnum þræll einn er hét Skeljungur, mikill og sterkur og mjög ódælligur. Kaupmenn vildu selja hann. Þorgrímur bóndi kom að máli við Skeljung og spurði hvað honum væri hentast að starfa. Skeljungur svarar: „Fátt er þrælum hent, en geymt hef ég fjár í góðu veðri og mætti svo enn verða ef bónda líkaði.“ Þorgrímur svarar: „Á það mun ég hætta að kaupa þig ef þú geymir fjár míns. Á ég sauð margan, en örðuga haga.“ Skeljungur bað hann ráða. Síðan keypti bóndi þrælinn og fór hann með honum heim til Silfrastaða og tók við sauðageymslu að veturnóttum. Það fann bóndi að Skeljungur mundi hafa tveggja manna megn til hvörs sem taka þyrfti; var hann og bónda trúr og hollur, en lítt komu heimamenn skapi við hann, einkum Grímur bóndason.

Liðu svo fram tímar að ekki bar til tíðinda. Þess er getið að með Þorgrími bónda Væri ambátt sú ein er Bóla héti; var hún flæmsk að kyni og hafði komið út með föður hans. Hún var norn mikil í skapi og illgjörn og þótti flestum ódælt við hana að eiga. Þótti mönnum sem hún mundi ekki einhama og féll mjög stirt með þeim Skeljungi er bæði voru stygglynd svo bóndi varð oft að skakka með þeim. Loksins kom svo að Bóla hljóp á brottu í æfu skapi. Þótti mönnum sem hún mundi láta fyrirberast í gljúfragili því inu mikla sem verður fyrir utan Silfrastaði og skilur það gil Blönduhlíð frá Norðurárdal. Í gili því ið efra verða þrír fossar allháir því á lítil rennur eftir gilinu; er mjög torgengt að þeim tveimur, en ógengt að inum efsta. Undir honum ætluðu menn Bólu hafa staðar numið í helli nokkrum; veitti hún oft þaðan gripdeildir í byggðina. Við hana er kennt gilið æ síðan og eyð[i]jörð sú er þar liggur norðan við.

Það var einn vetur öndverðan að Þorgrími bónda hurfu sauðir fimm rosknir úr geymslu Skeljungs og ætluðu menn að Bóla mundi valda. Smalamaður varð mjög ófrýnn við og vildi vís verða hvörju sætti. Bóndi latti þess mjög og kvað verra mundi af leiða ef Bólu væri ómaki gjör. Varð svo að vera. Næsta haust þar eftir hurfu enn átta sauðir úr geymslu Skeljungs og latti bóndi enn aðfarar. Ið þriðja haust hurfu tíu sauðir; varð þá Skeljungur allæfur og tjáði bónda ei að letja hann. Rann þá á hann berserksgangur og hljóp hann norður í gilið og rann skeið þá er liggur gagnvart fossinum og síðan heitir Skeljungshlaup. Síðan komst hann undir fossinn. Ekki vita menn glöggt um viðureign þeirra Skeljungs og Bólu; er það sögn sumra manna að hann hafi getað kæft hana í keri því er verður undir fossinum eftir langan og harðan aðgang, og ei hefur vart við hana orðið síðan. Eftir það gekk Skeljungur heim og kvað létta mundi sauðahvarfi um sinn. Bóndi lét sér fátt um finnast. Það fundu menn að Skeljungur hafði mjög tryllzt við viðureign þeirra Bólu og varð hann nú lítt hæfur í skapi. En jafnan var hann bónda hollur og trúr. Liðu svo fram stundir.

Nú er að segja frá Grími bóndasyni, að hann vex upp með föður sínum og er hann nú fulltíða maður og manna röskvastur þeirra er jafnaldra voru. Það var eitt sinn að Grímur kom að máli við föður sinn og mælti: „Það vilda ég þú fengir mér fjárhlut nokkurn því mig fýsir að fara af landi brott og kynna mér siðu annara þjóða; mun lítill verða frami minn ef ég elst hér upp sem mey til kosta.“ Bóndi svarar: „Fé mun ég gnóg til leggja, en þó uggir mig að svo megi til bera að vér mættum þín þarfnast og þú værir betur heima kominn enda munt þú sjálfur í fulla raun komast.“ Grímur kvaðst á það hætta mundi. Bóndi fékk honum fjárhlut góðan og réði honum far í skipi er Austmenn áttu og uppi stóð í Gönguskarðsárósi. Urðu menn mjög síðbúnir sökum hafísa. Þeir feðgar skildu með kærleikum og sigldi Grímur af landi brott. Fengu þeir veður bág og hafvillur og velktust úti allt sumar. En að veturnóttum rak þá að landi nokkru í fjúki miklu; var það mjög óhafnligt og flúrum skotið. Þar brutu kaupmenn skip sitt í spánu; týndist góss og menn allir utan Grímur einn komst á land með sundi, þó mjög þrekaður. Ráfar hann nú í dimmunni nokkra stund þar til hann heyrir viðarhögg skammt frá sér. Þangað gengur hann og getur að líta hvar ungur maður knáligur hjó viðu og hvein bolexi mikil í hendi hans. Grímur heilsar á inn unga mann. Hann tók kveðju hans ljúft og spyr hvör hann væri og hvörsu ferðum hans við viki. Hann kvaðst Grímur heita Íslendingur og orðinn hér á skipbroti og týnt menn og góss, „eður hvar er ég að landi kominn og hvör ræður hér fyrir eður hvört er nafn þitt, inn knáligi maður?“ Hinn svarar: „Samnefni eigum við og heiti ég Grímur. En kominn ertú að Grænlands óbyggðum, mjög langt frá mannbyggðum, en bústaður foreldra minna er skammt upp héðan. Heitir faðir minn einnin Grímur, en móðir Þórhildur, en systir mín Ingibjörg, tveim vetrum eldri mér. Er ei annað fólk þar og fátt til nágranna. Ætla ég nú ríflegast ráða þinna að því er við horfir að við fylgjumst að heim til föður míns og sjá hvað við tekur og reyna svo drenglyndi hans. Sýnist mér sá muni betur hafa er veitir þér að hlut þínum.“ Grímur Íslendingur kvað svo vera skyldi og fylgjast þeir nafnar að heim til bæjarins; voru þar húsakynni snoturlig og sterk. Grímur bóndason leiðir nafna sinn til húss; var þar bóndi fyrir. Hann var mikilúðligur að sjá, við hnígandi aldur, en þó allern. Húsfreyja var og öldruð kona, en mjög vænlig og sjálig. Bóndi heilsar syni sínum blíðlega og spyr hvör sá ungi maður rösklegi væri, er með honum gekk. Bóndason svarar: „Það er maður íslenzkur sem orðinn er hér á skipbroti félaus, og er nú ráð, faðir, að duga honum því ég hygg hann sé góður drengur og ættmikill.“ Bóndi svarar: „Eigi er mér með öllu ókunnugt um farir hans og mun hann til bjargráða borinn og máttu taka hann í félag þitt og sé hann með oss í vetur velkominn.“ Þeir nafnar þökkuðu bónda svör sín og gjörðust þeir ungu menn fóstbræður. Ingibjörg bóndadóttir var kvenna vænligst og in fegursta mær. Vel féll á með þeim Grími Íslending og henni, og meinaði það enginn. Var allt vel til hans gjört og leið svo vetur fram til jóla.

Það var litlu fyrir jól að þeir fóstbræður voru við sæ niðri og báru saman reka að þeir sjá kvikindi nokkurt, þó í mannslíkan, en allstórskorið og ódámsligt, gekk á bí við þá og mælti á þessa leið: „Það hef ég að segja ykkur sveinum að móðir mín sú er Skráma heitir og hér býr í fjöllum uppi býður ykkur nöfnum til jólaveizlu með vináttumálum og þykir henni mjög undir komið að þér heitið ferðinni.“ Þeir fóstbræður báðu hana aldrei þrífast og virtu boðið að vettugi. Síðan hvarf ókind sú. Er þeir nafnar komu síðla heim um kvöldið og spyr karl þá tíðinda. Þeir kváðust engin segja er nokkru sætti. Bóndi svarar: „Nokkuð mun þó hafa borið fyrir sjónir yðar venju framar og munuð þér satt frá segja.“ Þeir kváðust eigi séð hafa utan ómynd nokkra, „er flutti jólaheimboð til vor frá móður sinni; eru oss lítt kunnar óverur þær og gáfum vér engan gaum að slíku.“ Bóndi svarar: „Eigi mun yður tjá undan að skorast, en fræða mun ég ykkur að nokkru. Dalur sá gengur hér í fjöll upp er þér sjáið álengdar. Þar býr í helli nokkrum tröllkona sú er Járngerður heitir; er hún ið mesta flagð og óvættur. Dætur hennar tvær eru þar með henni, Skinnbrók og Skinnhetta, og eru þær allillar viðureignar; höfum við Járngerður löngum eldað grátt silfur og hefur hún oftar farið halloka fyrir, og mun hún nú vilja hefna þess á ykkur með tröllskap sínum undir vináttubragði. Munuð þér yður ekki einhlítir til farar þessarar og mun ég ráðast í ferð með ykkur og svo rakki minn sá er Grámúll heitir. Er Járngerður því verri flestum öðrum seiðfjöndum að hvör sú lifandi skepna sem verður fyrir augum hennar þá hún deyr mun rotna sundur lifandi á sömu stundu. Skulum vér svo fyrir hyggja að alls muni þurfa til að kosta ef vér skulum þaðan koma með lífi.“ Þeir ungu menn báðu bónda fyrir sjá ferðinni og kváðu allt sitt traust þar undir komið er hann var þótt hann gjörðist gamall. Síðan bjuggust þeir allir þrír til ferðar aðfangadagsmorgun jóla. Gengu þeir upp dalinn í fjúki miklu og rann hundurinn Grámúll fyrir þeim um daginn; var það langur vegur og torsóttur. Um kvöldið síðla sáu þeir hellir mikinn í hömrum og var einstigi bratt upp að ganga; runnu þeir upp einstigið og komu í hellirinn. Eldur brann mikill á skíðum og yfir ketill stór. Flagðkonur tvær unglegar sátu við eldinn; voru þær ferlegar að sjá. Þá tók Skinnbrók til orða við systur sína: „Nú munum vér ei liggja einar í nótt. Skulu þeir ungu menn hjá oss hvíla og síðan á morgun sundrast til jólaveizlu. En af Grími bónda mun oss öllum illt standa ef hann má ráða. Var það ei ætlun vor að hann skyldi hér koma og væri gott hann ætti erindi.“ Í því bili gekk Grímur Íslendingur innar að eldinum og mælti: „Er nú búin jólaveizlan og á borð borin?“ Þeim systrum varð mjög hverft og spruttu upp alltröllsliga. Réðist Skinnbrók á Grím Íslending og mælti: „Máttatta kalla lakligar veitt, þóttú faðmir fríða mær áður til borða er gengið.“ Réðust þau á allgrimmlega og bárust víða um hellirinn. Var Skinnbrók ið mesta flagð. Það fann Grímur að hún tók að mæðast. Leitaði hann þá til bragða við hana svo hún að lyktum féll, braut Grímur hana úr hálsliðum og gekk af henni dauðri; var hann móður mjög og þrekaður.

Nú er að segja frá Skinnhettu að hún réðst á Grím bóndason og áttu þau harðan aðgang og tröllsligan. Bárust þau víða um og vildi hvört öðru á eldinn koma. Loksins gat Grímur hlaupið undir hana og færði hana á höfði niður í ketilinn. Hélt hann henni þar til þess hún lét líf sitt. Tók hann þá nokkra hvíld.

Nú er að segja frá flagðkonunni móður þeirra að hún réðist á Grím bónda. Varð þeirra aðgangur ógurligur. Sáu þeir fóstbræður að hann tók fast að mæðast og hrökkva fyrir. Tóku þeir það ráð að þeir otuðu hundinum Grámúl á skessuna. Hljóp hann að henni allgrimmilega og reif hana á hol á nárann og rakti þarma hennar. Tröllkonan hvessti augun á hundinn meðan hún dó og rotnaði hann sundur í duft; lét hvorutveggi líf sitt, hún og rakkinn. Karl var mjög þrekaður af viðureign þeirra. Síðan tendruðu þeir bál mikið og brenndu flögðin öll upp. Eftir það kanna þeir hellirinn og fundu fé mikið og góðgripi marga. Spjót eitt fundu þeir yfir rúmi kerlingar er var in mesta gersimi; var það biturlegt og skært sem gler og víða gullrekið. Grímur bóndi tók til sín spjótið. Síðan bundu þeir sér byrðar og lögðu af stað með sigri og komust heim, fluttu þeir auð mikinn í gulli og silfri og dýrum gripum. Var nú allt tíðindalaust að sinni. Grímur Íslendingur dvaldi hjá bónda þrjá vetur og var hann í miklu afhaldi hjá þeim feðgum og bóndadóttur.

Nú víkur sögunni til Íslands að það bar til næsta vetur eftir að Grímur var farinn af Íslandi að fundur sá var lagður á Hofmannaflöt til glímu er um getur í Bárðar sögu Snæfellsáss undir stjórn þeirra Bárðar og Ármanns í Ármannsfelli. Sóttu þann fund flestir hraustustu menn á landinu, jafnvel þursablendingar og bjargbúar. Þangað kom Lágálfur Lítildrósarson af Siglunesi norður. Segir ekki af fundi þeim í þessari sögu. En það er sagt af Lágálfi þá hann kom að sunnan aftur, kom hann af fjöllum niður í Goðdaladal og gekk síðan ofan um Skagafjörð; lá leið hans um Norðuráreyrar gegnt Silfrastöðum. Það var mjög síðla dags. Veður var fjúkandi. Þá sér Lágálfur hvar maður kemur að framan með Norðurá, mikill vexti og stórstígur og ber fljótt að. Hann kastar kveðju að Lágálfi og spyr tíðinda. Lágálfur sagði af ið léttasta og spyr hvör sá væri sem við sig talaði. Hinn svarar: „Nafn mitt er Skeljungur og er ég sauðamaður á Silfrastöðum og kem nú frá fé. Þú munt vera mikill maður og hraustur, en mér gjörir kaldsætt við útistöður og væri ráð að glíma nokkuð til hita sér.“ Lágálfur mælti: „Fengið hafa menn að glíma um stund við góða drengi og hrausta, en mér sýnist þú allillmannligur með þrælasvip, en þó mun ég ei með öllu undan skorast og ábyrgist hvor sig sjálfur.“ Skeljungur kvað svo vera skyldi. Síðan kasta þeir gögnum og gengu saman allramliga. Það fann Lágálfur brátt að Skeljungur mundi hafa tveggja manna megn, þeirra er röskvir voru, og mundi því þurfa alls til að kosta. Sóttust þeir alllengi svo fast að leysti grjót úr frera er þeir spyrndu til. Lágálfi leiðist nú þóf þetta og leitar hann mjög til bragða við Skeljung. Er það sagt að báðir hafi þá hamazt. Og er Skeljung varði sízt kom Lágálfur á hann mjaðmarbragði svo römmu að Skeljungur hraut í loftkasti og kom fjarri niður á grjótið freðið; var það svo mikið fall að sundur gengu báðir þjóleggir hans og báðir armar úr liði. Vann Lágálfur þar að honum svo hann var að dauða kominn, gekk síðan frá honum og heim til Silfrastaða; var fólk allt komið í hús. Lágálfur gekk að ljóra einum gagnvart því er bóndi sat og kvað vísu þessa:

Rann eg of Rögnis innu,
rjáði við hirðir smáðan,
þrællinn þróttramur olli,
þjálfaður fyr Lágálfi.
Slyppur slysaðist glappi,
sleggjaður foldar neggjum.
Vart að gæru hjörð gyrtur
gengur Skeljungur lengur.

Síðan gekk Lágálfur frá ljóranum og út eftir Blönduhlíð; kom hann við á Frostastöðum. Stóð hann við undir gaflhlaði á svefnhúsi bónda. Gaflskæ var á húsinu, og sá Lágálfur inn í húsið. Hann sá hvar bóndi sat í bekki, sköllóttur og hvítur fyrir hærum. Bóndi deildi fast á húsfreyju að hún hefði tekið úr mjölbelgi miklum er hékk í rjáfrinu yfir höfði bónda, og sló hana pústur, en hún grét. Lágálfur rétti inn um ljórann skálm mikla er hann bar og seildist uppi við rjáfrið og skar sundur taugina er belginum hélt svo hann féll niður í höfuð bónda, en hann féll í óvit. Litlu síðar raknaði hann við. Gekk þá Lágálfur brott frá ljóranum og kvað vísu þessa:

Rann úr upsi
elgur mjölva,
skall við hjarn
hárum þuli.
En lafði grét
lostin knúum.
Hefndi Lágálfur
hýrrar sætu.

Gekk þá Lágálfur út eftir sveitum og heim og er hann úr sögunni.

Nú víkur til Silfrastaða að bóndi grundaði stökuna. Þykist hann vita að þau ein viðskipti muni orðið hafa þeirra Lágálfs að Skeljungur muni sér ei einhlítur; heitir því á húskarla að vitja hans. Þeir fóru og fundu hann ei fyrir myrkri; var svo kyrrt um nóttina. Að morgni snemma fór bóndi sjálfur með menn sína að leita Skeljungs; fundu þeir hvar þeir Lágálfur höfðu að gengizt; var grjótið upp leyst, en Skeljung sáu þeir ekki; var þá leitað víðar og fannst hann ekki og þótti kynlegt. Litlu síðar urðu menn þess varir að Skeljungur lá ekki kyrr og mundi hann aftur genginn og hafast við í fjallinu fram frá Silfrastöðum. Varð að því mörgum mein er um dalinn fóru. Drap Skeljungur fyrir þeim hross og hunda og villti um menn. Þó varð Þorgrími bónda mest tjón að. Var sauðamaður hans drepinn á næstum jólum; fór svo inn næsta vetur á sömu leið. Varð nú bónda illt til sauðamanna er meinvættur slíkur lá í landi. Beið hann af slíku mikinn ófagnað, en varð ei að gjört. Liðu svo fram þau missiri til inna þriðju jóla.

Nú Víkur sögunni til Grænlands er Grímur Íslendingur hefur setið þar í fagnaði hjá þeim feðgum öll þessi missiri. Hafð hann margt numið af bónda og var hann nú afburðamaður orðinn að hreysti og íþróttum. Það var um vorið ið síðasta er Grímur var á Grænlandi, þá var sumardagsmorgunninn fyrsti, að bóndi kom að máli við Grím Íslending: „Nú hefur margt fyrir mig borið á nóttu þessari og hugast mér svo að faðir þinn muni þurfa þinnar liðveizlu; er nú smalamaður hans orðinn meinvættur og leggst á góss hans og menn, og mun þér einum auðið verða að fyrirkoma honum. Nú skaltu búa þig til Íslandsferðar í sumar. Mun ég fá þér knör lítinn og skal Grímur sonur minn með þér fara og Ingibjörg dóttir mín. Sé ég að forlög ykkar liggja saman og muntu þá gifta systur þína Ingibjörgu Grími syni mínum. Skal hann flytja hana hingað að sinni, en þó munu þau síðar auka kyn sitt á Íslandi, en þú munt ei staðfestast á Íslandi, heldur munu forlög þín liggja þaðan, en ætíð þykja þar mestur maður, er þú kemur. Nú mun ég búa ferð yðra sem föng eru á.“ Grímur þakkaði bónda tillögur sínar og kvaðst hans forsjá hlýða vilja.

Nú líður fram á sumarið og leysti ekki frera fyrr en í þrímánuði. Nú búa þeir nafnar skip sitt og fékk bóndi þeim öll fararefni in beztu. Gaf hann Grími Íslending kjörgripi marga og þar með spjótið tröllkonunaut er þeir tóku úr hellinum. Kvað hann það mundu flestar áreynslur þola. Síðan kvaddi bóndi börn sín og mágsefni og árnaði þeim heilla. Létu þeir fóstbræður í Grænlandshaf móti vetri og höfðu útivist harða vegna óveðráttar og hafísa. Loksins tóku þeir land í Blönduósi tveimur dögum fyrir jól. Grímur Íslendingur kvaðst vilja ríða sem hvatlegast norður til Silfrastaða. „Segir mér svo hugur að ei muni of snemma. En þið skuluð bíða hér við skip þar til ég kem aftur.“ Síðan leigði hann sér tvo reiðskjóta er beztir voru. Það var aðfangadag jóla. Grímur hafði öll herklæði góð og skrautbúin. Hann hafði spjótið tröllkonunaut í hendi; reið hann upp með Blöndu og á Vatnsskarð. Veður var fjúkandi og færð þung. Reið hann svo mikið að mælt er að sprungið hafi annar eykurinn nálægt Arnarstapa, en annar hafi sprungið norðan við túngarð á Silfrastöðum. Var þá mjög farið að dimma af kveldi. Grímur kemur á bæinn og hittir föður sinn. Verður þar fagnaðarfundur. Gengur síðan til skála og kastar reiðklæðum. Hann sá heimafólk allt mjög hnuggið. Grímur spyr vandliga að framferðum Skeljungs og var honum sagt hann riði þar húsum flestar nætur úr því nótt er dimm; er nú því síður vært að jól eru í garð gengin; áræðir enginn úti að vera eftir dagsetur. Grímur gat að líta hvar uxahúð mikil lá, blaut og óskafin, af þjór þeim er slátrað hafði verið til jólanna. Grímur tók húðina og risti af ólar þrjár allramgjörvar. Síðan gengur hann til suðurs frá bænum og hefur í hendi spjótið tröllkonunaut, en í annari ólarnar. Hann gengur þar til hann kemur á hól þann er verður skammt á brott suður með hlíðinni og kallaður er síðan Grímshóll. Hann litast um og sér að steinn mikill stendur á sunnanverðum hólnum, aflangur, þykkur mjög neðan, en upp þynnri, nokkuð ámynt fornum blótsteinum. Grímur gengur að steininum og rennir þrjú göt í gegnum hann með spjótinu tröllkonunaut, dregur síðan í borurnar ólar þær inar nýju og reið á rennilykkjur og dró í æsar. Síðan gekk Grímur heim; var þá slegið upp jólaveizlu. Fögnuðu allir heimamenn Grími, en þó mest faðir hans. Leið svo á nótt fram. Síðan bað Grímur alla menn til sængur fara og var svo gjört. Húskarlar sváfu í skála er lá úr norðanverðum anddyrum; voru þar rekkjur margar. (Stóð sá skáli nokkur hundruð ár síðan). Grímur lagðist niður í setið er næst var dyrum og snaraði yfir sig og undir uxahúðinni inni nýju, lá svo léttklæddur og sá út undan húðinni um höfuðáttuna. Ljós brann í skálanum ið efra. Grímur bað fólk ei æðrast þó kvatt yrði dyra heimamannliga og engan gaum að gefa. Væntu menn nú Skeljungs með áhyggju ef hann héldi vana sínum. Létu menn sem hljóðast og leið svo á nótt fram. Eftir miðja nótt heyrðu menn að gengið var á húsin upp og riðið skálanum óþyrmilega og barið hælum við þekju svo brast í hvörjum rafti, gekk það nokkra stund. Síðan var farið ofan af húsum og kvatt dyra mjög ramliga og síðan brotin upp hurðin. Kom þá Skeljungur inn í anddyrið og litast um. Snýr síðan til skálans og treður sér inn um dyrnar og gægist hann nú hvívetna. Húskarlar létu ei á sér bæra og byrgðu sig niður, svo voru þeir hræddir. Skeljungur sér hvar nýkominn gestur liggur í setinu fremst við þili. Ræðst hann þar að og þrífur í húðina er Grímur hafði yfir sér. Grímur hélt í móti og gekk því hvörgi. Skeljungur færðist þá í herðar og togaði sem mest mátti. Grímur spyrndi við þilinu þar til það leysti undan skálanum. Komust þeir þá fram í anddyrið. Sér þá Grímur að eigi má við sporna og muni þurfa ráðum við að koma. Snarar hann þá undir sig feldinum og leggst þar á og lætur Skeljung draga sig út úr dyrunum. Grímur færði fætur við hvar hann mátti, en þó dró Skeljungur hann út úr bænum um leið að leysti frá dyraumbúninginn. Stefndi þá Skeljungur suður frá bænum og gjörði Grímur honum sem torveldasta ferðina og spyrndi hvarvetna við þúfum öllum og mishæðum, og varð það flest upp að ganga. Sótti draugurinn ramliga förina, tók þó að draga af honum. Gekk þetta alla nóttina, unz þeir komu á Grímshól er fyrr um getur; var þá komið fast að degi. Þá veitti Grímur viðnám eftir megni, og lauk svo að Grímur gat fært drauginn að steininum og bundið hann í þær gegnumdregnu ólar er fyrr segir og fjötrað hann ramliga. Skildi Grímur þar við hann og gekk heim til Silfrastaða og sótti sér hrísbyrði mikla og eld; lýsti þá af degi. En er Grímur kom til baka á hólinn, var Skeljungur hvorfinn og steinninn með. Grímur þóttist vita að draugurinn mundi hafa haldið fram með hlíðinni og heldur undan brekku en móti og gengur því í áttina. Sér hann þá til ferða Skeljungs hvar hann dregur stjórann og fer ógreiðliga. Grímur nær honum á höfða þeim er verður við Norðurá fram með hlíðinni. Grímur hjó þá af Skeljungi höfuðið og bar síðan á viðinn og brenndi Skeljung til ösku við steininn. Síðan færði hann ösku hans í síki það er lá undir höfðanum. Var það sögn eldri manna um langa ævi að í síkinu hefði myndazt af öskunni fiskar tveir loðnir og bláir að lit og varað þar langa tíð unz Norðurá breytti á seinni tíðum farveg sínum og féll undir höfðann í síkið; hurfu þá fiskarnir. Steinn sá er Skeljungur dró stendur enn við þjóðveg og er mjög í jörðu genginn; er á honum ofanverðum eitt gat þekkjanlega með járni rennt, en tvö sokkin. En fyrir fjörutíu árum þá ég fyrst sá steininn og skoðaði mátti finna ið annað gatið við jarðrætur sem nú er sokkið. Veit því enginn hve mikill steinninn er. Á höfða þessum var löngu síðar byggður bær og kenndur við drauginn og hét á Skeljungsstöðum. Hans getur í Sturlungu því þar áði Eyjólfur ofsi með menn sína á leið í atförinni að Gissuri jarli á Flugumýri. Þar er Skeljungshellir suður og upp í fjallið enn nú sjáanlegur.

Nú er að segja af Grími að hann gengur heim eftir viðureign þeirra og var hann mjög þrekaður. Fögnuðu honum allir og þökkuðu með mörgum fögrum orðum fyrir landhreinsun þá er hann gjört hafði. Var það almælt að hans líki mundi ekki uppi í Skagafirði. Segir hann nú föður sínum frá ferð sinni til Grænlands og öllum skilmálum þeirra feðga og bað hann nú drengilega við verða og kvaðst eiga þeim feðgum líf að launa og allt ágæti, „og mun systir mín ekki í betri hendur gefin verða fyrir allra hluta sakir“. Bóndi kvað svo vera skyldi sem þeir hefðu um mælt, „og skal dóttir mín fara með Grími fóstbróður þínum til Grænlands því ég veit þau muni síðan hér á landi staðnæmast og æxla hér kyn sitt“. Grímur þakkaði honum allan drengskap. Var nú bóndadóttir búin úr garði með beztu kostum; fylgdu þeir feðgar henni báðir til skips í Blönduósi. Varð þar fagnafundur. Fékk Þorgrímur dóttur sinni fé mikið í gulli og silfri og dýrum gripum, en Grími grænlenzka gaf hann nokkra menn til fylgdar. Grími gamla á Grænlandi sendi hann og góðar gjafir. Skildust nú allir að í kærleikum. Kvaddi Þorgrímur bóndi dóttur sína og hrukku honum föðurlig tár að skilnaði. Rann þá á hagstæður byr og lét Grímur í haf með festarkonu sína. Þeir feðgar tóku síðan ferð heimleiðis norður til Silfrastaða; var Ingibjörg grænlenzka í för með þeim; var hún hin fegursta mær og kvenkostur. Litlu síðar gekk Grímur Þorgrímsson að eiga hana; tókust með þeim ástir góðar. Það fundu menn að Grímur hafði mjög stirðnað í skapi eftir [viðureign] þeirra Skeljungs og varð hann lítt hæfur við byggðarmenn; var hann því gjörður suður til Borgarfjarðar. Dvaldi hann þar ei lengi og sigldi af landi brott með konu sína Ingibjörgu. Nam hann loks staðar austur í Svíþjóð og jók þar kyn sitt. Kom hans afspringur ei til Íslands svo menn viti. Varð hann víðfrægur maður af sínum hreystiverkum.

Það er fróðra manna sögn að Grímur grænlenzki, fóstbróðir hans, hafi eftir dauða föður síns flutt sig til Íslands með konu sína Ingibjörgu og búið á norðanverðum Skaga er liggur milli Skagafjarðar og Húnaflóa. Hans son var Þorgrímur veðurspár er bjó að Ketu, hans son var Gunnar er bjó í Höfnum, hans son var Grímur er þar bjó síðan. Sá Grímur bjó í Höfnum í þann tíma er Þorgerður (alii: Þorbjörg) kolka kom af Hornströndum og setti bú að Kolkunesi í trausti Gríms bónda í Höfnum. Hennar getur sr. Eyjúlfur á Völlum í fornfræðum sem stórmerkiligrar konu og bjargvættar og að við andlát hennar hafi skeð teikn mikið, að landskjálfti ógurligur hafi í jörðu hlaupið og gjört mikil umbrot á Skaga og víðar. Í þeim landskjálfta hafi bærinn Gullbrekka í Nesjum sokkið í jörð niður með fólki og fé. Er þar nú fen mikið er áður var bærinn. Var þar sönghús fagurt, og sóttu Nesjamenn þangað tíðir. En síðan var sett bænahús í Höfnum sem staðið hefur fram á þessar tíðir. Gjörðust margar sagnir á Skaga um þann tíma Grímur bóndi bjó í Höfnum sem ekki koma við þessa sögu... Og ljúkum vér svo söguþætti þessum af Grími Skeljungsbana.