Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Þó varð eftir önnur ilin

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
„Þó varð eftir önnur ilin“

Á dögum Sigfúsar prófasts í Höfða Jónssonar sálaðist að Nesi þar í sókninni háöldruð kona er verið hafði öðrum konum fremri. Áður hún deyði mælti hún fyrir um ýmislegt og bað að líkami sinn yrði vandlega þveginn áður hún yrði kistulögð. Eftir að hún var liðin var allt gjört er hún beðið hafði og ekki út af neinu brugðið. Nóttina eftir að hún var kistulögð dreymir prófastinn kerlingu; þykir honum hún koma til sín mikið glöð og segir að mjög vel hafi fólkið farið með sig og allt það gjört er hún beðið hafi, einnig það að þvo sig dána. „Var það gjört,“ segir hún, „eins og ég bað, en þó varð eftir önnur iljin.“ Þykir honum hún lyfta upp öðrum fætinum og sýna sér iljina óþvegna. Síðan hvarf hún honum. Prófastur sagði drauminn og reyndist það að stúlku, dóttur- eða sonardóttur kerlingar, hafði verið skipað að þvo ömmu sína. Stúlkan var ung og líkhrædd, hafði hraða á þvottinum og rankaði hana við því að sér hefði gleymzt að þvo aðra iljina.