Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Þórður og Andrés, bræður

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Þórður og Andrés, bræður

Þórður og Andrés Andrésarsynir voru bræður tveir í Dölum. Þeir þóttu litlir skapdeildarmenn. Veturinn 1820 fóru þeir til vers út á Hjallasand. Vóru þeir þá fulltíða að aldri og þroska og þó ókvongaðir. Lögðu þeir báðir hug á stúlku nokkra á Ingjaldshóli og varð það til spillingar frændsemi þeirra. Snemma um veturinn týndist skip það í sjó sem Andrés var á og hann með því. Losaðist nú Þórður bróðir hans við meðbiðil sinn, og þótti honum slíkt vel hafa ráðizt. Sótti hann nú frjálslegar en áður fund stúlkunnar.

Leið svo lítill tími að ekki var til tíðinda. En eitt kvöld var Þórður þá myrkt var orðið á ferð frá Ingjaldshóli, og sem hann kemur niður á sandinn og nálægt búð sinni Stórudumpu og ætlar að ganga til dyra á búðinni sér hann að maður kemur upp frá skipum og stefnir á leið fyrir sig; hraðar Þórður ferð sinni að búðardyrum og er hinn þá kominn á hæla honum. Þórður lítur í móti manninum og kennir að þetta er Andrés bróðir hans; verður honum ósvipt við, snarast inn í búðina og upp á loftið í búðinni, en gáði ekki að loka dyrum eftir sér. Svo var rúmum skipað í búðarloftinu að í öðrum enda var rúm húsbónda sem Tómas hét, en í hinum rúm, sem þrír vermenn lágu í, en rúm Þórðar var til hliðar á miðju lofti gegnt uppgangi. Þegar Þórður kom upp á loftið var myrkt og fólk í rökkursvefni. Tómas bóndi vaknaði við umganginn. Þórður settist á rúm sitt og er hann var nýsetztur heyrir Tómas að hann segir: „Heldurðu ég hræðist í þér glyrnurnar?“ og í þeim svifum gjörist hark mikið og fer Þórður sem kólfi væri skotið yfir á rúm vermannanna og að þili upp fyrir þá, og vakna þeir við vondan draum. En jafnsnart þrífur draugurinn Þórð þaðan sem hann var kominn og dregur fram loftið og ofan stigann. Tómas bóndi bregður upp ljósi og heitir á vermennina að þeir dugi Þórði sem svo nauðuglega væri staddur og fara þeir allir og Tómas með þeim ofan. Flúði þá draugurinn, en Þórður lá sem dauður væri í búðargöngunum og flaut í blóði sínu. Þeir tóku hann og báru til rúms, vöktu yfir honum um nóttina og veittu sem bezta aðhjúkrun. Var líkami hans mjög þrekaður, blár og bólginn, og ekki raknaði Þórður við fyrr en um dægramót um morguninn. Lá hann lengi veikur, en rétti þó við um síðir, en ekki mátti ljós slokkna yfir honum á nóttum þann vetur svo ekki kæmi draugurinn.

Vetur hinn næsta réðust vermenn til búðarvistar til Tómasar í Dumpu. Einn þeirra var Sigurður Sigurðsson, ættaður úr Breiðuvík í Barðastrandasýslu. Hafði hann einn vetur og tuttugu og var mjög þroskaður að vexti og afli á þeim aldri. Sigurði er skipað vermannarúmið í endanum og öðrum manni með honum. Litlu síðar kemur Þórður Andrésson og biður Tómas Sigurð að taka hann fyrir lögunaut í rúm sitt um veturinn. Sigurður sem ekki vissi hvað gjörzt hafði hinn fyrra vetur tók vel tilmælum bónda og er þeir ganga til rekkju hvílir Sigurður við stokk, en Þórður við þil. Og sem þeir eru sofnaðir dreymir Sigurð að maður kemur að honum ófrýnlegur útlitum og mælir: „Ég skal launa þér að þú liggur fyrir framan hann bróður minn svo ég kemst ekki að honum.“ „Hvað viltu honum?“ þykist Sigurður spyrja. „Ég vil drepa hann,“ kvað hinn. „Já,“ segir Sigurður, „viltu honum ekki annað?“ því þykir Sigurði hann ráðast á sig og takast þeir fangbrögðum, og lauk svo að draugurinn datt. Vaknaði Sigurður þá og var á fjórum fótum á loftinu fyrir framan rúmið. Næstu nótt dreymir Sigurð allt með sömu atvikum; þó þykir honum draugurinn sýnu verri viðfangs en áður, og svo lauk viðskiptum þeirra í því sinni að Sigurður vaknar við það að legunautar hans halda á honum fram við lúkugatið á loftinu. Ætluðu þeir að óráð mundi á hann komið og vildu aftra ferð hans. Þriðju nótt dreymir Sigurð að hann þykist staddur niður við sjó hjá skipum; þykir honum sami maðurinn koma þar að sér og ráðast á sig; var hann æfur mjög og þreyta þeir þar glímu langa stund, en þó bar Sigurður hærri hlut að lokum; þykist hann fella drauginn og síðan fá sér sax í hönd og brytja hann þar í stykki. Og lauk við þetta aðsókn draugsins.

Sigurður var um veturinn í Dumpu og svaf hjá Þórði og dreymdi hann aldrei glímufélaga sinn og ekki varð Þórði þann vetur neitt mein að afturgöngu bróður síns. Mörgum árum síðar fundust þeir Þórður og Sigurður og ræddu um drauginn. Hafði Þórður þá aldrei kennt aðsóknar hans eftir að Sigurður vann á honum. Þórður lifði eftir bróður sinn Andrés um tuttugu ár, þótti þó aldrei samur eftir fundinn á loftinu. Hann drukknaði einn á ferð niður um ís á Hvítá í Borgarfirði; ætlaði hann til vers suður og teymdi þrjá klyfjahesta sem þar fórust allir.