Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Þrándarþúfa

Á Þrándarstöðum í Eiðaþinghá eru fyrir neðan hlaðvarpann þúfur nokkrar stærri en annars staðar í túninu; þó er ein hæst af öllum og er sagt að Þrándur sá er bærinn er við kenndur sé leiddur í þúfunni. Á hann þar að sitja á stóli með kistil í knjám sér fullan af fémunum. Ekki sjást nein merki til að í hana hafi verið grafið.