Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Að vekja upp draug
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Að vekja upp draug
Að vekja upp draug
Þó það sé ekki ljóst með hvaða orðum eða atkvæðum að draugar voru upp vaktir hafa þó þess háttar sögur sagt að þeir sem vöktu þá upp hafi fyrst orðið að búast við glímu eða fangbrögðum drauganna og síðan kara eða sleikja fyrst utan og síðan innan eða umsnúna, einkum þá drauga sem hafðir áttu að vera til fróðleiksauka eða sagnaranda. En gæti sá sem upp vakti ekki ráðið niðurlögum draugsins eða fellt hann átti draugurinn að fylgja honum eftir það án þess að gjöra honum nokkra þénustu; en einkum í því tilliti átti uppvekjarinn að verða að ráða við drauginn að hann gæti komið honum niður aftur sem þeir urðu þó að gjöra að loknu eyrindi því eða áformi er þeir voru hafðir til.