Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Anna á Bessastöðum

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Anna á Bessastöðum

Spottakorn frá bænum á Bessastöðum er skipalægi og heitir í Skansinum. Þar lágu þrjár skipshafnir til útróðra og kómu sjaldan heim, en vinnukona sem hét Anna var þar og heitti þeim kaffi á morgnana áður en þeir réru og annað þess konar. Einn af formönnunum hét Eiríkur sem lengi var vinnumaður á Bessastöðum, forneskjumaður í lund. Einn morgun fyrir dag kom Anna út og ætlaði að fara að heita kaffi handa piltunum. Hún sá þá sextán mennina koma á móti sér alla sjóvota. Henni þótti þetta kynlegt og kallaði á þá: „Eruð þið lentir, piltar?“ en þeir svöruðu engu. Síðan fór Anna inn og þar eru þá allir piltarnir órónir og óskinnklæddir. Hún segir þá við þá: „Róið þið ekki í dag, piltar, ég hef séð fylgjurnar ykkar.“ En þeir hlógu að henni og réru allar þrjár skipshafnir. Um daginn kom Anna heim að Bessastöðum og sagði það mundi ekki fara vel fyrir piltunum í dag og sagði frá hvað hún hafði séð, en fólkið bað hana að vera ekki að bullinu því arna. En um daginn gerði manndrápsbyl og týndust margar skipshafnir og þar á meðal þau tvö skip sem Anna sá fylgjur mannanna, en Eirekur komst af og bjargaði mörgum skipum þann dag. Anna sagði þetta um daginn áður en veðrið brast á svo þessi saga hefur það fram yfir aðrar slíkar að hún er sönn.