Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Bóndinn á Grænmó

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Bóndinn á Grænmó

Stóri-Grænmór hét eitt af fornbýlum þeim sem höfðu verið í byggðarlagi því í Norður-Múlasýslu sem Eyjar heita. Á 17. öld löfðu enn uppi kofar á Grænmó og fékkst lengi taða af bæjarrústunum. Á bæ þessum var illt vatnsból á vetrum svo sækja varð í Lagarfljót sem þá rann í öðrum farveg en nú og miklu nær bænum, en þó var þangað löng stekkjargata. Einu sinni í kafaldsbyl ætlaði bóndinn á Grænmó að sækja vatn í Lagarfljót og kom ekki aftur. En um nóttina var þessi vísa kveðin á glugganum uppi yfir konunni:

„Frost og fjúk er fast á búk,
frosinn mergur í beinum;
það finnst á mér sem fornkveðið er
að fátt segir af einum.“

Þótti mönnum bóndinn ganga mjög aftur eftir þetta og lagðist þá niður byggð á Grænmó.