Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Bóndinn frá Rauðsstöðum

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Bóndinn frá Rauðsstöðum

Einu sinni bar svo við að bóndinn frá Rauðsstöðum í Arnarfirði kom að Rafnseyri í Arnarfjarðardölum um kveldtíma þegar fólk var sofnað, og vildi hann ekki vekja upp og fór því þar í heyhlöðu og ætlaði að láta þar fyrir berast um nóttina. Þegar hann var kominn inn lét hann fyrir hurðina og sperrti fyrir og leggst síðan til svefns. Þegar hann var að sofna heyrir hann að hlöðuhurðinni er lokið upp; fór hann þá og lét hana fyrir aftur, en jafnskjótt og hann var lagztur fyrir aftur heyrir hann að hurðinni er hrundið upp aftur. Hann lætur hana enn fyrir og fer það á sömu leið. Stekkur hann þá út og sér mann standa fyrir dyrum úti og sá hann fljótt á honum að hann var dauður og afturgenginn. Þegar bóndi kemur út tekur draugurinn á rás og bóndi á eftir; stefna þeir til kirkjugarðsins á Rafnseyri. Bóndi verður fyrri inn í kirkjugarðinn og sér hann þá opna gröf í kirkjugarðinum og kastar hann húfu sinni ofan í hana. Þá kemur draugurinn á hinn grafarbarminn og biður bónda að lofa sér ofan í gröfina. Bóndi segist ekki gjöra það fyrr en hann sé búinn að segja sér hvað hann hafi viljað sér eða hvern hann hafi viljað finna. Draugurinn segist ekki hafa ætlað að finna. hann. Segir draugur að vinnumaður nokkur frá Tjaldanesi þar í sveitinni sem var náskyldur bónda hafi lofað sér að vera til staðar þar í hlöðunni þetta kveld og hafi hann ætlað að finna hann. „Lofaðu mér nú ofan í,“ segir draugurinn. Bóndi iðrast þá eftir að hafa kastað húfunni ofan í gröfina því hann óttaðist að draugurinn mundi gjöra sér mein. Lætur bóndi drauginn loksins lofa sér að hann skuli ekki gjöra sér neitt þó hann sækti húfu sína, og sækir hana síðan. Draugurinn fór þá í gröfina og þyrlaðist moldin ofan í hana. En bóndi fór aftur í hlöðuna og svaf til morguns.