Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Bakkadraugurinn

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Bakkadraugurinn

Svo er mælt að í fyrndinni hafi bærinn Bakki (nú kallaður Prestsbakki) í Hrútafirði staðið á hólum þeim norður með sjónum sem kallaðir eru Hellishólar, en seinna hafi hann verið fluttur þaðan sökum reimleika og settur þar sem nú er hann.

Það stóð svo á, segir sagan, að bóndamaður einn í sókninni hafði beðið dóttur prestsins á Bakka, en fekk hennar ekki. Þetta gramdist manninum svo mjög að hann sýktist og dó. Var hann þá grafinn að Bakkakirkju. Þetta gjörðist um sumar og nú leið svo fram á vetur að ekki bar neitt til tíðinda, en nokkuð þótti mönnum prestsdóttirin undarleg um veturinn.

Svo bar við eitt kvöld að fóstra hennar, gömul kona og margfróð, gekk út í kirkjugarð með prjóna sína. Þá var veður gott og óð tunglið í skýjum. Prestsdóttir hafði sagt henni að maðurinn kæmi til sín á hverju kveldi og væri þá mjög blíður við sig. Sagði hún að sér leiddist hvað oft hann væri hjá sér og kvað nú svo komið að hún gengi með barni hans. Hún sagði og að hann segði að lítil heill mundi standa af barni þeirra þegar stundir liði fram. Bað hún þá fóstru sína að ráða nú bót á þessu vandkvæði og því fór hún út í garðinn. Þar fann hin gamla kona gröf hins dána manns og var hún opin. Lét hún þá hnykil sinn ofan í gröfina og settist á grafarbakkann og var að prjóna. En það var trú manna að eigi kæmust þá draugar niður í gröf sína, ef eitthvað væri látið ofan í hana. Þarna sat nú konan og beið þangað til að draugurinn kom. Bað hann hana að taka hnykilinn upp svo hann kæmist niður. Konan sagði að eigi mundi hún það gjöra nema hann segði sér hvað hann væri að fara. Draugsi sagðist vera að finna prestsdóttur; „því nú má ei faðir hennar hamla ferðum mínum. Hef ég nú barnað hana,“ segir hann, „og gengur hún með sveinbarni.“ „Segðu mér hvað fyrir því barni liggur,“ segir konan. „Það liggur fyrir sveininum,“ segir draugsi, „að hann mun hér prestur verða og mun þá kirkjan sökkva með öllum þeim sem í henni eru þegar hann blessar hið fyrsta sinni yfir söfnuðinn fyrir altarinu, og þá ætla ég þess hefnt er ég fékk eigi prestsdóttur.“ „Þetta er ill spá ef hún rætist,“ segir konan, „eða hver eru ráð til að hamla henni?“ Þau eru ráð til þess,“ segir draugurinn, „að einhver reki prestinn í gegnum fyrir altarinu þá er hann ætlar að fara að blessa fólkið. En til þess mun enginn verða.“ „Heldur þú það,“ segir konan, „eða eru nokkur önnur ráð til að hamla óhamingju þessari?“ „Nei, engin önnur,“ segir draugsi. „Farðu þá niður í gröf þína.“ segir konan, „og kom þú aldrei upp framar.“ Tók hún þá upp hnykilinn og fór draugsi þegar niður. Luktist þá gröfin að honum og las kerling svo yfir henni að aldrei varð vart við afturgönguna framar. Gekk nú konan heim aftur og sagði engum hvað gjörzt hafði.

Leið nú að því að prestsdóttir varð léttari og ól hún sveinbarn mikið og fagurt. Eigi er þess getið að hún hafi sagt föður sínum til faðernis sveinsins og ólst hann upp á Bakka hjá móður sinni og afa. Snemma sást það að sveinninn var afbragð annara bæði til sálar og líkama. Þegar hann þroskaðist var hann settur til mennta og þótti jafnan afbragð annara. Leið svo fram til þess að hann var útlærður. Varð hann þá aðstoðarprestur afa síns.

Sá nú hin gamla kona, fóstra prestsdóttur, að þar mundi að koma sem draugurinn hafði sagt. Gekk hún þá til sonar síns sem var hinn hugaðasti maður og ófyrirleitinn þá er nokkuð þótti við liggja. Sagði hún honum upp alla sögu og skoraði á hann að vega að presti þá er hann ætlaði að fara að blessa yfir söfnuðinn. Sagðist hún skyldi ábyrgjast að eigi hefði hann neitt illt af víginu. Maðurinn var tregur til að gjöra þetta, en þó hét hann því að lokunum, og tók kerling eið af honum að eigi skyldi hann bregðast sér. Leið nú að degi þeim er hinn ungi prestur skyldi fyrst messa og kom múgur og margmenni til kirkjunnar. Dáðust menn mjög að fimleik hins unga prests og ræðu hans. En er hann lyfti upp höndunum og fór að blessa söfnuðinn benti hin gamla kona syni sínum. Stóð hann þá upp og var þó nauðugur að vinna víg þetta. Lagði hann þá prestinn í gegnum og féll hann dauður niður. Kom þetta öllum mjög á óvart og vildu menn taka vegandann. Sumir fóru að stumra yfir prestinum, en þá var ekki eftir af honum nema banakringlan. Hún lá í grátunum við altarið. – Sáu menn nú að hér var ekki allt sem skyldi. Gekk þá hin gamla kona fram og sagði upp alla söguna. Urðu menn þá óttaslegnir mjög og þökkuðu kerlingunni fyrir framkvæmdarsemi sína og dugnað. Sáu menn þá og að kirkjan hallaðist og var kórinn siginn nokkuð niður. Hafði það komið af því að presturinn var búinn að tóna hin fyrstu orð af blessunarorðunum áður hann var veginn. Eftir þennan atburð varð svo reimt á Bakka að bærinn var fluttur burt og settur þar sem nú er hann.