Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Banakringlan

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Banakringlan

Bóndi nokkur var í heygarði sínum að áliðnum degi þegar dálítið var farið að skyggja. Hann varð var við að eitthvað kom inn í garðinn og varð strax sérlega felmtursfullur svo hann kastar frá sér heykróknum og hleypur út. En þar hann hlaut þó að gefa fénaði sínum kemur hann aftur og fer að leita að heykróknum, finnur hann og hefur hann þá stungizt í banakringlu af manni. Skilur hann nú hvernig vera muni að það er í garðinn hafi komið muni hafa verið draugur því hann kannaðist við að ekki þyrfti meira en eitt bein til að magna til þess að úr því yrði draugur, og ef maður gæti hitt á að reka eitthvað í það væri draugur unninn. Honum leizt því að hreyfa ekki heykrókinn, heldur sá fyrir hvorutveggju.