Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Beinagrindin

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Beinagrindin

Fyrir norðan land fór póstur eyrinda sinna yfir heiði hvar nátthvíldarskáli var byggður handa ferðamönnum með rúmi og öðrum þarfindum. Þegar póstur var þar kominn til náða var barið á dyrnar. Hann lauk upp fyrir aðkomandanum er tók sér þar líka náttstað. Þegar þeir höfðu matazt báðir bað sá aðkomni að láta sig hafa allt fémætt úr pósttöskunni og vildi taka hana til ískoðunar. Þegar póstur fór að verja tösku sína er sagt að hinn hafi myrt hann og dysjað hann undir rúminu, en hundur póstsins lagðist á dysina. Hinn lagðist í rúmið og var til morguns og fór þá burt með allt er hann vildi hafa af efnum póstsins.

Að mörgum árum liðnum frá þessum tilburði gistu þrír menn sömu nótt í þessum skála. Þegar þeir fóru að matast kom beinagrind samföst, húð- og holdlaus, af hundi fram undan rúminu og sótti með grimmdar ákafa að einum þessara manna svo þeir gátu naumast varið hann. Út af þessu var farið að grennslast eftir orsökum þessa atburðar þar til maðurinn, yfirfallinn af ótta, sagði frá athöfnum sínum fyrri í þessu húsi, því þetta var sami maðurinn sem myrt hafði póstinn.