Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Beinagrindin á Hólum

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Beinagrindin á Hólum

Svo er sagt að einhvern vetur nálægt jólum væri Skálholtsbiskup staddur norður á Hólum; það var á dögum einhvers enna seinni Hólabiskupa. Það hafði orðið til tíðinda á Hólum skömmu áður að þar hafði verið jarðað lík í kirkjugarði sem oftar. Upp úr þeirri gröf hafði komið beinagrind af manni sem þótti nokkuð með kynlegu móti, því að hold allt var rotnað utan af beinunum, en beinagrindin hangdi þó öll saman svo að ekki vantaði bein í. Biskup lét ekki setja þessa beinagrind niður aftur í það sinn, en geymdi hana í kirkju að hurðarbaki. Varð mönnum tíðrætt um þenna atburð og þótti furðu gegna.

Nú sem þeir biskuparnir sátu saman eitt kvöld og ræddust við þá segir Hólabiskup Skálholtsbiskupi frá þessari beinagrind. Skálholtsbiskupi þótti það undarlegt sem öðrum að beinagrind þessi skyldi þannig hanga saman þar sem allt hold væri gjörsamlega horfið; ræddu þeir biskuparnir margt um þetta. Skálholtsbiskup sagði að það væri hugaður maður sem þyrði að fara einn saman upp í kirkju svona að kvöldtíma í myrkri og sækja beinagrind þessa. Hólabiskup kvað þó eigi örvænt að nokkur kynni að finnast svo hugaður, því að með sér væri stúlka ein er Guðrún héti, er hann hygði víst að hafa myndi áræði til þessa. Skálholtsbiskup lézt eigi trúa því að nokkur kvenmaður myndi dirfast að fara slíka för á náttarþeli. Þreyttu þeir þetta með kappmælum þar til Skálholtsbiskup veðjaði og lagði við allmikið fé og skyldi stúlkan eignast það ef hún fengi sókt beinagrindina þá þegar um kvöldið. Nú kallar Hólabiskup Guðrúnu fyrir sig og segir henni veðmálið. Hún bregzt vel undir og er þegar fús til að fara eftir grindinni. Nú fer Guðrún upp í kirkju og sækir beinagrindina þangað sem hún var að hurðarbaki, og færir þeim biskupunum hana. En er Skálholtsbiskup hefir skoðað hana svo sem honum líkaði þá segir hann stúlkunni að nú verði hún að flytja hana aftur í kirkju og setja hana niður á sama stað. Hún gerir svo og setur beinagrindina niður að hurðarbaki þar sem hún hafði áður staðið, en sem hún vildi ganga í burt aftur þá kemur rödd úr beinagrindinni. Röddin biður hana vera óhrædda og undrast eigi það er hún heyri. Hún sagðist hafa verið vinnukona[1] þar á stólnum hjá biskupsfrú þeirri er hún nefndi; kveðst hún hafa orðið missátt við þessa húsmóður sína og hefði þær rifizt í bræði og heitazt hvor við aðra, en skömmu síðar hefði þær andazt báðar í þessari ósátt. Kvaðst nú röddin vilja biðja hana að ganga fyrir sig innar í kirkju til legstaðar biskupsfrúarinnar og skila frá sér til hennar að hún biði hana í guðs nafni að fyrirgefa sér það sem hún hafi gert henni á móti. Stúlkan gerir svo sem röddin beiddi og mælir þessi orð yfir legstað frúarinnar. Heyrir hún þá rödd frá legstaðnum sem biður hana að skila því aftur að hún biði beinagrind á hurðarbaki að fyrirgefa sér fyrir guðs sakir það sem hún hafi misgert við hana. Stúlkan flytur þessi svör aftur til beinagrindarinnar. Þá er aftur talað úr beinagrindinni og sagt að nú hafi hún vel gert og skuli hún eiga það fyrir ómakið sem fólgið sé í þúfu þeirri þar í túninu á Hólum sem röddin vísar henni til.

Eftir það skundar stúlkan út úr kirkjunni og læsir henni, en í því hún ætlar að ganga burt þá heyrir hún einhverjar skruðningar og skarkala inn í kirkjuna því líkast sem eitthvað væri að hrynja. Skýtur henni þá heldur skelk í bringu og hraðar sér nú heim og inn í bæ. En um morguninn þegar komið var í kirkju þá sáu menn að beinagrindin var öll dottin sundur og lá sér hvert beinið; þótti þessi atburður allundarlegur. Stúlkan fékk veðféð af Skálholtsbiskupi svo sem hann hafði heitið og þess utan fann hún mikið fé í þúfunni þar sem röddin vísaði henni til, og eignaðist hún það allt saman. Var það þá ætlan manna að sakir heitinga og ósáttar við biskupsfrúna þá myndi bein vinnukonunnar ekki hafa náð að rotna að eðlilegum hætti.

  1. Önnur saga segir að þetta hafi verið vinnumaður. [Hdr.]