Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Björg í Vallatúni og sending hennar

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Björg í Vallatúni og sending hennar

Þegar Kjartan Einarsson sjós var á Grund þá bjó Sveinn í Vallatúni. Kjartan var hreppstjóri og ötull formaður eins og faðir hans. Þá kom Björg að norðan og Eyjólfur[1] maður hennar. Höfðu þau áður haldið Þingeyraklaustur, en hún missá sig þar og segir sögnin að hún hafi verið keypt undan straffi af frændum hennar; hún er sögð dóttir Ara í Ögri. Kom hún þá hingað suður og bjó í Vallatúni (ef ekki Gerðakoti) – það segir Páll alþingismaður í Árkvörn hafi verið 1732 – og synir þeirra. Svo hafði hún verið oflætisfull þegar hún kom hingað að hún reið í söðli og voru átján bjöllur eður ádrættir á söðlinum.[2] Um veturinn varð mikið sauðahvarf í hverfinu. Kom Sveinn í Vallatúni því upp um hana; fundust þá átján sauðarhöfuð hjá henni. Þeir Sveinn og Kjartan fluttu hana til alþingis og fóru svo ómannliga að þeir bundu alla hausana við söðul hennar. Það er eitt það fáheyrðasta að Eyjólfur maður hennar varð þar ekkert viðriðinn. Svaf hann í fjósinu og einn drengur þeirra um veturinn.

Eftir það þau komust norður sendu synir hennar þeim Kjartani og Sveini sendingu. Þorði hún ekki að Kjartani, en fylgdi Sveini ávallt, en fór þó ekki að honum. Á alþingi hitti Sveinn einn Vestfirðing og bað hann liðs. Sveini hafði einhvern veginn hlotnazt hestur úr eigu Bjargar. Þeim hinum sama reið hann nú til þings. Vestfirðingurinn sagðist skyldi sjá til hún fylgdi hestinum ef hann brygði ekki af ráði sínu. Hann sagði Sveinn skyldi hafa tilbúna gröf heima hjá sér og hrinda hestinum í hana með öllum sínum búnaði og kviksetja hann þar. Sveinn spretti af hestinum og dró undan honum áður en hann hratt hestinum ofan í. Sendingin hætti raunar að gera honum mein, en það var eins og óhamingja fylgdi Sveini og niðjum hans með geðveiki og þess konar mæðu – og það enn í dag – nema Þórunni dóttur hans og hennar niðjum. Segja menn þar til þá orðsök: Sama árið og sendingin var komin og fylgdi Sveini og fólki hans fæddist Þórunn (fædd 1735-36), og var honum ráðlagt að láta skíra hana á milli pistils og guðspjalls; var hún yngst barna hans. Páll alþingismaður í Árkvörn segir mér að Sveinn væri lifandi um 1760, en ekki finnst hann í Holtskirkju dauðratali frá 1768. Öllum þeim sem að Björg beindust varð eitthvað: Magnús sýslumaður fannst dauður í gjánni á alþingi, síra Þorsteinn Oddsson prestur í Holti (frá 1689-1742) varð snögglega mállaus 1741 og var mesti aumingi; fór frá Holti 1743 að Eyvindarmúla til Eyjólfs spaka Guðmundssonar og Hildar dóttur sinnar. Hann andaðist snögglega 84 ára 1752. Það var allt eignað sendingunni.

  1. Eyjólfur Einarsson (um 1682-1751) hélt Reynistaðarklaustur um skeið. Kona hans var Björg Aradóttir frá Sökku í Svarfaðardal Jónssonar.
  2. Páll í Árkvörn segir að bjöllurnar væru tólf. Honum sagði það Sveinn Árnason á Skála (fæddur 1780). Magnús Þóroddar (sonur Þórunnar dóttur Sveins) sonur sagði mér þær hefðu verið átján (fæddur 1782) og Guðrún Kolbeinsdóttir (dótturdóttir Sveins, fædd 1768) sagði móður minni þetta að öllu samhljóða Magnúsi. [Hdr.]