Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Brúsahaugur
Brúsahaugur
Brúsahaugur er hjá Brúsastöðum í Vatnsdal. Þar fór einu sinni maður að grafa í og er hann hafði grafið hinn fyrsta dag dreymdi hann um nóttina að maður kom að honum, mikill og illilegur, og bað hann hætta að grafa, eða skyldi hann illt af því hafa. Um morguninn vaknaði hann og gaf sig ei að draumnum, en fór að brjóta hauginn. Um nóttina eftir dreymdi hann manninn sama og áður og var hann þá miklu ógurlegri en hina fyrri nóttina og hótaði honum öllu illu ef hann hætti nú ei við hauginn. Maðurinn vaknaði um morguninn og fór til haugsins. Var þá moldin fallin niður í gryfjuna og svo var og hinn fyrra dag. Gróf nú maðurinn þenna dag allan til kvölds og var hann þá kominn að viðum. Hætti hann þá við því nótt var komin. En um nóttina vaknaði fólkið á bænum við það að pilturinn ætlaði að hengjast og var dreginn ofan úr rúminu og varð ei vakinn fyrr en hann var kominn út. Eftir þetta hætti hann og hefur haugurinn síðan ei [verið] brotinn. Austan á haugnum sjást enn mannvirki.