Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Breiðherðungur

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Breiðherðungur

Markús Þórðarson hét prestur á Álftamýri, það var á 19. öld að hann var þar. Honum samtíða bjó bóndi sá á Bauluhúsum sem Magnús hét, roskinn maður og þótti forn í brögðum. Hann var vel til prestsins. Á Álftamýri var þar út með hlíðinni staður sá hvar prestur vildi byggja stekk og var ætlun manna að þar mundi vera gamalt dys nokkurt er haganligast sýndist að byggja stekkinn. Magnús latti prestinn að róta þar um og kvað illt mundi af leiða. Engu að síður réðist prestur í að ryðja dysinni til stekkjarstæðis og vann að því sjálfur, og er mælt hann fyndi þar mannsbein fúin mjög og peninga nokkuð gamla og að hann tæki peningana, en byggi um beinin í moldu. Að þessu búnu veiktist prestur sem áður var hraustmenni og heilsugóður, mjög undarliga. Þóttust menn þeir eð skyggnir vóru sjá mann einn mikinn og undarliga farinn, svo stóran að höfði mundi hærri en háir menn nú á dögum og að því skapi digrari. Kölluðu þeir hann „Breiðherðung“ og ætluðu hann mundi vera sá sem í dysinni var og valda veikindum prestsins. En þó varð presti ekki stórkostligt mein að honum meðan Magnús lifði á Bauluhúsum og mundi hann með kunnáttu sinni hafa hjálpað prestinum. En eftir að Magnús deyði uxu mjög meinlæti prests. Þegar prestur heyrði lát Magnúsar hefði hann átt að segja: „Guð hjálpi mér, nú held ég sé úti um heilsuna mína.“ Hann hætti prestsþjónustu, þjáðist lengi og deyði með undarligum hætti að sögn síra Jóns Ásgeirssonar sem orðinn var þá prestur á Álftamýri og var viðstaddur afgang hans.