Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Draugssonurinn

Það var einu sinni prestur sem bjó á kirkjustað eins og gerist. Hann átti dóttur unga og efnilega. Hennar bað maður þar úr sókninni, en prestur neitaði honum, því honum þótti stúlkan of ung og líkaði ekki heldur maðurinn. Manninum gramdist þetta og sagðist þó skyldi komast yfir hana, ef ekki lifandi, þá dauður. Nokkru síðar dó hann og var jarðaður. Það var ekki löngu eftir það að ókenndur maður [kom] og bað um að lofa sér að vera og gerði prestur það.

Vinnumaður var hjá presti, aðgætinn og duglegur, og hélt prestur mikið upp á hann. Hann varð var við um nóttina að einhvur hreyfing var í rúmi stúlkunnar. Hann hafði heyrt hvurju biðillinn hafði heitið, en leizt ekki á þenna ókennda mann um kvöldið og grunaði hvað vera mundi. Hann klæddi sig og fór út í kirkjugarð og sér að gröfin biðilsins er opin. Þá tekur hann snæri, bindur stein í endann og hengir ofan í gröfina og heldur í endann og bíður þangað til hinn kemur, og þegar hann kom að gröfinni segir hann við vinnumanninn: „Hvað ert þú að vilja hingað um nótt?“ Vinnumaðurinn sagði það væri ekki meira fyrir sig en hann, – „því þú ert líklega maður,“ segir hann. „Harðast stendur það,“ segir draugurinn, „ég var að sönnu maður, en nú er ég heldur andi en maður. Lofaðu mér nú ofan í gröfina mína.“ „Nei,“ segir vinnumaður, „ekki nema þú segir mér hvað þú varst að fara.“ „Það skal vera,“ segir draugsi; „ég var að komast yfir dóttur prestsins. Ég lofaði að komast yfir hana dauður, ef ekki lifandi.“ „Hvað mun leiða af þessu?“ segir vinnumaður. „Hún mun verða barnshafandi,“ sagði draugur, „og ala sveinbarn.“ „Segðu mér forlög hennar og barnsins,“ sagði vinnumaður. „Þú fær ekki að fara ofan í gröfina fyrr en þú ert búinn að því.“ „Það verður að vera,“ segir draugsi. „Stúlkuna mun ekki saka og hún mun seinna verða kona þín.“ „Það þykir mér leitt,“ segir vinnumaður, „að taka rökin eftir draug.“ „Svo mun verða að vera,“ segir draugur, „og mun það ekki saka þig.“ „Hvurnig fer fyrir barninu?“ segir vinnumaður. „Það verður,“ segir draugur, „hinn mesti gáfumaður sem landið hefir borið. Það hefir hann af mér, því ég er andi og veit miklu meira en menn vita. Hann mun verða settur í skóla og mun honum ganga vel að læra, og hann mun verða prestur, en þegar hann snýr sér við fyrir altarinu fyrsta sinni mun kirkjan sökkva með öllu sem í henni er, nema einhvur verði svo hugaður að ganga að honum og reka hann í gegn þegar hann ætlar að snúa sér við. Þá mun ekkert verða eftir af honum nema herðarblað og blóðlifur; það eitt er frá móðurinni. Segðu nú engum frá þessu sem ég hefi sagt þér fyrr en það er fram komið. Þar skal líf þitt við liggja.“ Vinnumaður lofaði því og hleypti honum síðan ofan í gröfina og bað hann að fara aldrei oftar á flakk. Hann sagði að ekki þyrfti að óttast það. Gröfin luktist, en vinnumaður fór inn og lagðist í rúmið sitt og lét ekki á neinu bera, og þegar fólk kom á fætur var ókenndi maðurinn í burt og þótti það undarlegt.

Nú liðu stundir og að hæfilegum tíma liðnum fæddi stúlkan sveinbarn og kenndi ókennda manninum. Prestur ól upp sveininn, og bar snemma á gáfum hjá honum. Hann kom honum í skóla, og var hann þar fá ár og útskrifaðist með bezta vitnisburði og vígðist síðan kapellán til afa síns. Þegar hann messaði fyrsta sinn hlökkuðu allir til að heyra til þessa mikla gáfumanns og safnaðist múgur og margmenni til kirkjunnar. Þar var móðir hans og vinnumaðurinn; hann settist í kór nálægt grátunni og var undarlegur á svip, og þegar prestur ætlar að snúa sér við fyrir altarinu stóð vinnumaðurinn allt í einu upp, brá saxi og lagði í gegnum prestinn. Hann hné þar niður. Allir þustu upp; sumir tóku vinnumanninn og héldu honum, aðrir tóku til líksins og færðu það úr messuklæðunum. Þeim fannst það verða að engu í höndum sínum og fóru að gæta að, og var þá ekkert líkið nema vinstra herðarblað og blóðlifur, aðrir segja þrír blóðdropar. Þetta undrar alla og kemur stanz á fólk. Þá tekur vinnumaðurinn til máls og segir öllum söfnuðinum hátt og skilmerkilega alla söguna um viðurtal sitt við drauginn og allt þar að lútandi. Þeir voru í kirkjunni sem mundu eftir að þeir höfðu heyrt biðilinn lofa að komast yfir stúlkuna, ef ekki lifandi, þá þó dauður. Þóttist fólk þá vita að vinnumaðurinn sagði satt. Gamli presturinn þakkaði vinnumanninum þessa hjálp sem hann hafði áunnið öllum söfnuðinum, og elskaði hann enn meir eftir en áður. Og skömmu seinna gifti hann honum dóttur sína. Fóru þau að búa og unntust vel og lengi og urðu mestu gæfuhjón til dauðadags.