Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Draugur á barn við stúlku

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Draugur á barn við stúlku

Kvenmaður einn var einu sinni að prjóna úti á kirkjuvegg og valt bandhnykill hennar ofan í opna gröf í kirkjugarðinum. Vofan sem gröfina byggði bað hana að sækja hnykilinn fyrir alla muni, því eigi væri sér vært í gröfinni ella. Stúlkan gjörði það, en þó með hálfum huga; átti vofan síðan samskipti við hana og sagði henni að hún mundi þunguð verða af viðskiptum þeirra og ala sveinbarn er verða mundi gáfumaður mikill og námfús og því til læringar settur og verða prestur. En hinn fyrsta sunnudag er hann blessaði yfir söfnuðinn mundi kirkjan sökkva nema því aðeins að einhver væri svo snarráður að reka prest í gegn fyrir altarinu. Síðan skildi vofan og stúlkan, en allt fór sem vofan hafði sagt. Kvenmaðurinn ól son er lærði og varð prestur. En fyrsta sunnudaginn sem hann messaði gekk fram úr einu sætinu í kirkjunni maður nokkur aldurhniginn að prestinum og lagði hann í gegn þegar hann ætlaði að fara að blessa yfir fólkið, og hamlaði þannig tjóni því er ella var búið, en á altarinu voru þrír blóðdropar og voru það leifar prestsins að því leyti sem hann var af jarðneskum uppruna.