Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Draugur sakramentaður
Draugur sakramentaður
Eitt sinn voru prestar tveir, annar á Vesturlandi, hinn á Austurlandi. Þeir voru óvinir og áttu ýmsar brösur saman. Fóru svo leikar að Vesturlandsprestur þóttist Verða undir í viðskiptum þeirra og hézt við embættisbróður sinn þann hinn austlenzka, kvaðst mundu senda honum sendingu svo honum drægi. Svo bar við að vinnumenn prests fórust á sjó í ofviðri, en ráku að landi líkin öll saman. Prestur fer til og vekur upp einn manninn með töfrum sínum og magnar drauginn sem mest hann má; fær honum síðan í hendur það erindi að drepa Austurlandsprestinn. Draugurinn þóttist til þess lítt fær og bað sig undan þeginn, en prestur skipaði honum að fara og fór hann nauðugur.
Nú víkur sögunni til Austurlandsprestsins. Vetur var liðinn allt að jólum fram. Á aðfangadag jóla leggur prestur ríkt á við heimafólk sitt að ljúka snemma af öllum útiverkum; skyldi bæjardyrum loka fyrir dagsetur og enginn út koma eftir það. Eftir dagsetur er barið að dyrum og segir prestur dóttur sinni ellefu vetra að ganga til dyra. Hún gjörir svo, lýkur upp hurðu, lítur út, en sér engan; gengur inn síðan. Ekki líður á löngu áður barið sé í annað sinn hálfu meiri högg en fyrr. Prestur skipar dóttur sinni enn að vitja dyra, en bannar hverjum manni fullorðnum fram að ganga. Fer allt á sömu leið sem fyrr: hún gengur fram, lítur út, sér engan og fer inn við svo búið. Í þriðja sinn er barið langmest og gífurlegast, svo brakar í hverju tré. Enn segir prestur dóttur sinni að vita hverju þetta mundi sæta; en stúlkan var hrædd orðin og vildi með engu móti fram ganga. En svo varð að vera sem prestur vildi; skyldi hún ganga út í bæjardyrnar og taka opna hurðina og segja: „Sé hér nokkur sem vill finna föður minn, þá komi hann inn.“ Hún gengur fram, sér fyrst engan, en mælir síðan þeim orðum sem fyrir hana voru lögð. Sér hún þá koma utan fyrir vegg strák gráan og loðinn. Hún tekur í hönd honum og leiðir hann inn í baðstofuhús til föður síns; stóð hann þar í öllum messuskrúða með handbókina í hendinni. Prestur spyr gestinn um erindi sitt og segir hinn sem var að Vesturlandsprestur hafi sent sig á hans fund til að drepa hann. Þá spyr prestur hví hann hiki sér við því. Draugurinn kveðst vera lémagna og ekki treysta sér sökum þess að líf hafi leynzt með sér í fjörumálinu þegar presturinn hinn vestfirzki vakti hann upp og nógu mikil illska því ekki getað hlaupið í sig. Prestur spyr hvort hann vilji eigi þiggja að sér sakramenti og kvaðst hinn una hag sínum stórilla og það feginn vilja. En draugurinn hafði varla dreypt vörunum í vínið áður hann datt niður dauður.
Við heimafólkið sagði prestur að hann hefði vitað að draugurinn mundi hafa drepið hvern mann fullorðinn sem til dyra hefði gengið, en að hann aftur mundi vera svo veglyndur að þyrma meynni ungri og fríðri.