Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Draugur setur vagl á auga

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Draugur setur vagl á auga

Maður einn var sá á Árskógsströnd sem Pétur hét; lifði hann fram á 19. öld og dó gamall. Hann var einsýnn og hafði stórt vagl á öðru auganu er hann fékk snemma aldurs síns af orsök þeirri að sagan segir að hann fór að læra galdur. Og sem hann þóttist fullnuma í því vildi hann reyna mennt sína og vekja upp draug. Fór hann á náttarþeli til starfa þess í kirkjugarðinn á Stærra-Árskógi. Fólk var allt í svefni á staðnum og þar allt kyrrt. Pétur fer nú að öllu sem lög stóðu til og eftir langvinnar særingar kemur upp draugur; lízt Pétri hann heldur ófrýnn og brestur nú áræði að karra honum, en svo óhappalega tókst hér til að það var móðir hans sem hann vakti upp. Kerling magnast skjótt, bröltir á fætur og ræður heldur óþyrmilega á son sinn. Reyna þau nú fangbrögð með sér og er hún því æstari sem þau þreyta lengur glímuna.

Nú víkur sögunni til prestsins á staðnum að hann vaknar í rúmi sínu um nóttina og af vizku sinni veit hann að eitthvað er um að vera í kirkjugarðinum. Hann klæðist skjótt og kemur út; sér hann þá glímu þeirra Péturs og kerlingar og gengur þar að, og er Pétur þá að þrotum kominn. Þegar kerling sér prestinn hrækir hún í auga syni sínum, sleppir honum og hverfur á brott. Af hráka kerlingar átti Pétur síðan að hafa fengið vaglinn á augað.