Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Draugurinn Flugandi

Í tíð Jóns Þorlákssonar sýslumanns sem bjó að Víðivöllum ytri í Fljótsdal bjó bóndi á Glúmsstöðum í sömu sveit að nafni Árni, vel auðugur að gangandi fé. Eitt sinn biður Jón Þorláksson hann að selja sér ærkvígildi, en Árni neita því þverlega. Það féll hinum mjög illa og kvað hann Árna mundi ei lengur njóta fjárs síns í makindum.

Í þann tíma hafði Jón sókt um hjá þeim sem ráð áttu yfir kirkjum og svo frv., að mega byggja kirkju á bæ sínum Víðivöllum hvað honum mildilega var veitt, og sem þetta hús var nýbyggt var um sama leyti jarðað lík í Klausturskirkjugarði (aðrir segja Valþjófsstaða). Þenna mann vakti Jón Þorláksson upp úr gröf sinni og leiddi hann með sér suður að Víðivöllum. Þar eftir lét hann fjósastrák sinn er Bjarni hét sakramenta drauginn svo hann skyldi þess betur geta unnið á Árna bónda. Þetta tókst samt ekki því fóstra bónda gat svo séð til að hann sakaði ei þó draugurinn væri svona úr garði gjörður kominn á flakk. Samt treystist hún ei lengi til að verja son sinn þessum óvætti og ráðleggur honum að fara suður að Hörgslandi til séra Magnúsar sem þar var þá prestur og þótti sá margfróður að afstýra draugum og afturgöngum. Árni tekur nú þetta ráð og finnur þenna prest, en þá stóð svo illa á fyrir honum að hann lá banalegu. Segist hann því ekki geta hjálpað honum – „en ég á hérna dóttur heima,“ segir prestur; „farðu til hennar og bið hana hjálpa þér.“ Árni fer nú til prestdóttir og biður hana ásjár; hún tekur því vel ef hann vilji í öllu fylgja ráðum sínum. Bóndi játar því. „Þá skaltu,“ segir prestsdóttir, „fara strax á morgun aftur til baka og halda vel áfram á daginn. En varastu að vera á ferð eftir að rökkva tekur dag; en einkum skaltu gæta þess þegar þú fer yfir Breiðamerkursand að líta þá aldrei aftur hvað sem þér heyrist á eftir þér, því þar liggur við öll hamingja þín. Og bregðir þú af þessu þá get ég ei framar hjálpað þér.“ Bóndi lofar að fylgja hennar ráðum í öllu og fer síðan leiðar sinnar þar til hann kemur á Breiðamerkursand; og sem hann er kominn lítið austur á sandinn heyrir hann brak og bresti, dynki og óhljóð á eftir sér. En hann stillir sig vel að líta aftur, en því lengra sem hann heldur áfram því nær sér heyrast honum þessi ólæti. Og áður hann kemst af sandinum lítur hann aftur; þá sér hann allnærri sér að átján draugar eru að fást við að koma Fluganda niðrí jörðina. En sem draugurinn sér að Árni lítur aftur slítur hann sig af hinum draugunum svo þeir misstu hann upp, en vóru þó búnir að koma honum niður upp undir hendur þegar Árni leit við. Samt heldur Árni áfram í því trausti að þessir sveinar átján muni vernda sig fyrir Fluganda það sem eftir væri vegarins – þó svona tækist illa til fyrir sér — og varð honum eftir trú sinni því hann komst heill á hófi heim að Glúmsstöðum. En skömmu eftir það fær hann bréf – eður orðsending – frá prestdótturinni á Hörgslandi hvar með hún átelur hann harðlega fyrir hræðsluna og svikin með að líta aftur á sandinum; segist samt geta verndað hann fyrir draugnum með því móti að hann fari aldrei einn saman í hvarf frá bænum. Hugsar Árni sér nú að rækja þessi ráð prestdóttur og tókst honum það líka um hríð. En svo bar til eina nótt um sumar að bónda heyrðist hestur vera kominn á bæinn og fór út. Sér hann þá að rauður klár er að bíta á húsum uppi. Árni hleypur til og rekur klárinn fram fyrir túnið í hvarf að læk þeim sem enn í dag heitir Rauðslækur. Brá þá klárinn ham sínum og varð að draugnum Fluganda. Drap hann þar bónda í hvarfinu við lækinn.