Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Draugurinn hjá Brenninípu

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Draugurinn hjá Brenninípu

Brenninípa heitir innarlega á Hólmsbergi bjargsnös nokkur. Þar að rak einu sinni kaupskip og strandaði. Komust allir menn af nema skipherrann, en svo atvikaðist um dauða hans að hann hlóð svo miklu af peningum utan á sig að hann loftaði sér ekki upp í bergið af skipinu, heldur datt í sjóinn. Oft sást hann eftir það á kjól og stígvélum gangandi á berginu. Villti hann menn og vildi koma þeim í sjóinn.