Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Draugurinn og Jón Sigfússon

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Draugurinn og Jón Sigfússon

Snæbjörn hét maður er bjó í Vatnshorni á 18. öld. Honum var sendur draugur er ráða skyldi honum bana, en ef hann gæti það ekki átti hann að drepa frænda hans er Jón Sigfússon hét. Snæbjörn gat varizt árásum draugsins (ef til vill með því að bera töfrablöð á brjóstinu því margir telja það bezta varnarmeðal mót draugum), en á Jón Sigfússon réðist hann einhverju sinni er hann var að leysa hey í garði og urðu þar harðar sviptingar. Tók draugur allóþyrmilega [á]. En svo lauk að Jón bar hærra hlut, en vofan tók svo fast á honum að hann varð magnlaus og rænulítill og svo var hann þjakaður eftir viðskipti þeirra að hann lagðist í rekkju og lá heilan vetur nálega, en hálfvisnun kom í hönd hans.

Sögu þessa sagði Jón heitinn Sigfússon sjálfur merkum manni, Magnúsi Arasyni, og sýndi honum bæklaða höndina.