Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Draugurinn og peningakistillinn

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Draugurinn og peningakistillinn

Fyrrum bjó staðarhaldari fyrir norðan. Hann var maður kvongaður. Bóndi var auðmaður mikill og stundaði mjög að safna peningum svo menn vissu fyrir víst að hann mundi eiga ógrynni peninga. Hann var aðsjáll, en konan var góðmenni og góðgjörðasöm, en hún átti einkis ráð hjá bónda sínum.

Einn vetur veiktist bóndi og dó litlu síðar. Var þá búið um lík hans og jarðað. Var þá bú bónda skrifað upp og komu engir peningar fram eftir hann. Var þá konan spurð hvert hún vissi nokkuð um peninga bónda, en hún sagðist ekki vita þar af einum skildingi, og af því menn þekktu konuna að góðu var hún ekki rengd framar um það. Voru getur manna að hann mundi hafa fólgið peningana í jörðu sem raun gaf síðar vitni. Þegar á leið veturinn þóttust menn verða varir við reimleika þar á bænum og þóttust menn nú vita að bóndi mundi afturgenginn til peninga sinna. Það fór svo heldur í vöxt svo fólk ætlaði flest í burt frá ekkjunni um vorið og hún farin að gjöra ráð fyrir að bregða búi. Leið svo fram til fardaga. Þá kom kaupamaður til ekkjunnar og bauð henni vinnu sína og þá hún það. En er hann hafði þar litla stund verið verður hann var við að þar er reimt mjög. Eitt sinn spyr kaupamaður ekkjuna að hvert bóndi hennar hefði ei átt mikla peninga. En hún kvaðst það ei vita.

Leið svo fram að kauptíð. Fór þá kaupamaður í kaupstað og keypti hann meðal annars mikið af plötujárni og hvítu lérefti. En þegar hann kom heim lét hann sauma sér hjúp úr léreftinu, en sjálfur settist hann við smíðar – því hann var járnsmiður góður – og smíðar sér járnglófa. Líður svo þangað til nótt var dimm orðin. Þá var það eitt kveld þegar allir voru sofnaðir að kaupamaður lætur á hendur sér járnglófana og járnplötu á brjóstið og víðar, og því næst fer hann í hjúpinn og gengur út í kirkjugarð og allnær leiði bónda og gengur þar um gólf og leikur sér að einu ríksorti í lófa sér.

Líður ei langt þar til draugur kemur upp úr leiði bónda og gætir hann fljótt að vinnumanni og spyr: „Ert þú einn af oss?“ segir hann. „Já,“ segir vinnumaður. „Lát mig finna,“ segir draugsi. Réttir þá vinnumaður að honum hendina og finnur draugsi að hún er köld. Þá segir hann: „Það er satt, þú ert draugur líka; til hvers gekkst þú aftur?“ segir draugsi. „Til að leika mér að ríksortinu því arna,“ segir vinnumaður. „Ja, óhræsið,“ segir draugsi, „vænti mér ef þú hefðir átt eins mikið af peningum og ég.“ „Átt þú mikla peninga?“ segir vinnumaður. „Já,“ segir draugsi og í því stekkur hann út úr kirkjugarðinum og vinnumaður á eftir. Fara þeir svo þar til þeir koma á utanvert túnið. Þar spyrnti draugsi um þúfu og kippti þar upp peningakistli sínum. Fóru þeir þá að risla í peningunum og gekk það fram eftir allri nóttu. En þegar fór að líða undir dag þá vill draugsi fara að ganga frá peningunum, en vinnumaður kvaðst eiga eftir að skoða kúrantið og ruslar aftur sundur peningunum. Þá segir draugsi: „Þú ert víst ekki draugur.“ „Jú,“ segir vinnumaður; „finndu til,“ og réttir hann þá hina hendina. „Það er satt,“ segir draugsi og fer hann að tína saman aftur peningana, en vinnumaður grýtir þeim þá víðs vegar. Þá varð draugsi ólmur og sagði að hann væri maður og ætlaði að svíkja sig, en hinn kvað nei við. Grípur þá draugsi í bringuna á vinnumanni og finnur að hann er þar kaldur. Þá segir draugsi: „Það er satt sem þú segir; þú ert eins og ég,“ og fer hann að safna saman aftur peningunum og þorir vinnumaður ei annað en láta draugsa ráða og segir: „Ég ætla að láta ríksortið mitt vera í peningunum þínum.“ „Já, það má gjarnan vera,“ segir draugsi og gengur hann nú frá þeim svo ekki sá á þúfunni. Fara þeir þá heim í kirkjugarð. Þá segir draugsi: „Hvar er holan þín?“ „Hún er hinumegin kirkjunnar,“ segir hinn. „Far þú fyrr í hana,“ segir draugur. „Nei,“ segir vinnumaður, „far þú fyrst í þína.“ Þarna voru þeir að þrátta um þetta þangað til í dögun. Stökk draugur ofan í gröfina, en vinnumaður gengur inn í bæinn, lætur fylla sá af vatni og setja inn undir pall, lætur þar í næturklæðnað sinn og sækir peningakistilinn og lætur hann þar í líka.

Líður svo til kvelds og fara þá allir að sofa. Vinnumaður svaf á móti baðstofudyrum, og er ei langt liðið á nótt áður draugsi kemur inn með þefi miklu og rekur högg í pallstokkinn og fer síðan út og vinnumaður eftir. Og er svo sagt að vinnumaður hafi gengið svo frá leiði bónda að draugurinn hafi aldrei sézt eftir það. En því lét vinnumaður klæðin og kistilinn í sáinn að draugsi skyldi ekki finna moldarlykt af því. Vinnumaður giftist ekkjunni og bjuggu þau saman lengi síðan, og endar hér so þessi saga.