Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Draumur Sigfúsar bónda

Fyrir fjórtán árum síðan dó bóndi í Fagraskógi í Möðruvallasókn í Eyjafirði er Sigfús hét;[1] hann átti mörg börn. Einu sinni missti hann eitt af þeim, en skömmu eftir að það var jarðsett fór hann að dreyma barnið og kvartaði það ævinlega við hann um að stokkurinn sinn væri brotinn. Hann gat ekki annað ímyndað sér um þetta en gröf hefði verið tekin hjá leiði barnsins og hefði kistan komizt við eða verið brotin. Hann fékk því leyfi hjá prestinum að grafa upp aftur kistuna, sem hann fekk þegar. Kom þá grunur hans fram að önnur hliðin hafði verið brotin þegar gröfin hin nýja var tekin. Hann lét því setja nýja hlið í kistuna og bjó um sem áður. Upp frá því dreymdi hann aldrei barnið.

  1. Eyjólfsson, d. 1848, 68 ára.