Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Ekkjan á Álftanesinu

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Ekkjan á Álftanesinu

Þorkell hét maður norðan úr Húnavatnssýslu; hann var vænn yfirlitum og ásjálegur. Um tvítugs aldur fór hann suður til sjóróðra; var hann duglegur til hvers sem gekk. Ílentist hann á Álftanesi og var í þjónustu danskra á sumrin og kom sér vel við þá, enda lét hann þá hafa sig til hvers sem þeir vildu. Græddist honum nú fé og var mælt hann væri í þingum við unga ekkju þar á nesinu, ásjálega og efnaða; en skapmikil og skörugleg þótti hún vera. Sagði margur að þar væri jafnræði.

En um þessar mundir komst Þorkell í mikla kærleika við hirðstjórann sjálfan; var hann honum fylgisamur gegn innanlands höfðingjum og biskupum. Hugðist nú hirðstjórinn að launa honum liðveizluna, hét honum þjónustustúlku sjálfs sín og gjörði Þingeyraklaustur upptækt til handa honum; skyldi Þorkell fara norður um vorið til að losa klaustrið, en vitja ráðahagsins vorið eftir. Þó fór ráðagjörð þessi dult.

Þegar Þorkell bjóst af stað grunaði þó ekkjuna hvað um var að vera og spurði hann hvort hann væri heitinn öðrum kvenmanni. Þorkell gaf henni óglögg svör. Hún mælti: „Vita skaltu það Þorkell að bráðum skal ég verða vís hins sanna, og séu svik í tafli, skal ég verða bani hinnar dönsku pútu er þú hefur metið meira en mig og síðan drepa sjálfan þig; muntu þá stutta stund búa að þeirri höfðingjahylli er þú hefur keypt með drengskap þínum.“ Ekki er getið annara orða þeirra. Fór Þorkell norður og tók Þingeyraklaustur undir sig.

Um sumarið kom ekkjan að Bessastöðum; hitti hún þá hina dönsku stúlku að máli og spurði hver hefði gefið henni fingurgull það er hún hafði á hendi. Hún sagði Þorkell hefði gjört það; rausaði hún nú allt af högum sínum eins og dönskum er títt. Sagðist hún muna önnur orð hirðstjórans en þau að hann mundi gifta sig íslenzkum sveini sínum. Ekkjan sagði: „Berðu engan kvíðboga fyrir því.“ Skildi hún síðan við hana heldur fálega og varð ekki af kveðjum.

Fám dögum síðar dó ekkjan, og þótti það kynlegast að líkið hvarf fyrstu nóttina sem það stóð uppi. Nóttina eftir tók hin danska stúlka á Bessastöðum meinsemd mikla svo hún mátti engan frið hafa; dó hún innan þriggja nátta með mestu harmkvælum. Þetta var að áliðnum slætti þegar nótt var farin að verða dimm.

Þess er getið að kaupamaður nokkur sunnan af Álftanesi, heldur aldurhniginn, fór suður um haustið og fór einn sér. Maður þessi var skyggn og vissi svo mikið frá sér að hann gat forðað sjálfum sér voða. Í rökkrinu reið hann upp Skútaeyrar og hafði hest í taumi. Sá hann þá hvar kvenmaður kom móti honum og þekkti þar ekkjuna. Þótti honum hún vera heldur skrefadrjúg og fasmikil; þóttist hann sjá hvað vera mundi því hann hafði grun á hvernig á stóð. Hann hopaði hestinum úr götunni. En þegar hann ætlaði að bera framhjá, segir hann: „Hvert ætlarðu núna?“ „Að Þingeyrum,“ segir hún; „það er ekki svo langt þangað að ég nái ekki háttum og geti gengið til sængur með Þorkeli því þeir fara seint að hátta höfðingjarnir. En þú varst hygginn að tálma ekki för minni því það hefði hvorugu okkar verið til gagns.“

Hið sama kveld þá er Þorkell gekk til sængur fannst honum eins og gripið utan um sig; fylgdi því hið harðasta tak. Kvaldist hann svo að beinin skröptu í skinninu og þóttust menn oft heyra millum kastanna að hann beiddist vægðar. Við þessi harmkvæli lá hann fram til jóla og andaðist svo. En þó Þorkell yrði ekki langgæðari en þetta var hann þó hinn fyrsti valdsmaður á Þingeyrum og hefur þar jafnan síðan verið höfðingjasetur.