Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Fáðu mér beinið mitt, Gunna

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
„Fáðu mér beinið mitt, Gunna“

Það er venja í sveitum að hafa ljós með sér á vetrum í fjósið. Eru jafnaðarlega höfð til þess ljósfæri þau er kola (eða panna) heitir; er það þunnt ílát og flatt með skafti aftur úr mjóu sem sett er inn í gat á einhverri fjósstoðinni til að bera birtu meðan verið er að athafna sig í fjósinu. Í kolunni logar á kveik og lýsi og er hún jafnan borin með ljósinu logandi á í fjósið í hulstri nokkru sem til þess er gjört og ljósberi heitir og líkast er timburhúsi í lögun með hvössum þakhornum; lítið og lágt op er haft neðst við botninn á öðrum enda ljósberans og þar er kolunni rennt inn í er ljós er borið í fjósið.

Einn vetur tók griðkona nokkur er Guðrún hét og var fjósakona á kirkjustað það til bragðs er hún hafði týnt eða brotið fjóskoluna að hún hafði brot af hauskúpu af manni sem komið hafði upp úr kirkjugarði fyrir kolu í fjósið, og lét loga á henni. Ekki bar neitt á neinu fyrir það allan veturinn fram yfir jól. En á gamlárskvöld er griðka þessi var búin að bera ljós í fjósið og hafði það eins og hún var vön í hauskúpubrotinu var kallað á fjósgluggann til hennar og sagt: „Fáðu mér beinið mitt, Gunna.“ Guðrún gjörði sér lítið fyrir, tekur höfuðskelina eins og hún var með ljósinu, fleygir henni á flórinn, treður ofan á hana og segir: „Sæktu það þá, bölvaður.“

Aðrir segja að Guðrún hafi aðeins fleygt brotinu af hauskúpunni þangað sem henni heyrðist hljóðið koma, en ekki troðið ofan á það. En hvort heldur sem var varð stúlkunni ekkert meint við þetta.