Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Förukerlingin á Stóranúpi

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Förukerlingin á Stóranúpi

Einu sinni var prestur á Stóranúpi sem Þorsteinn[1] hét. Það kom einu sinni til hans förukelling og bað hann um gistingu, en hann synjaði henni þess svo kellingarauminginn rólaði í burtu, en um leið og hún fór þá hézt hún við prest, en hún rólaði í burtu og varð úti því hálfslæmt veður var. Þar var fjósamaður sem Þorleifur hét. Það var vani prests að loka bænum sjálfur á kvöldin eftir vinnufólki sínu. Þetta kvöld lokaði prestur eins og hann var vanur á eftir fjósamanni þegar hann fór út að gefa. Það var siður þegar hann var búinn að gefa þá lagðist hann í moðbás. Þetta kvöld gjörði hann eins. Þegar hann er búinn að liggja lítið þá heyrir hann óvanalegt snúss í kúnum og svo er tekið í fæturnar á hönum og dreginn fram á flórstokkinn. Hann stóð upp og sá ekkert og lagðist svo niður aftur; það fór á sömu leið; þá stóð hann upp og varð grimmur og leitaði um allt fjósið og fann ekkert. Svo lauk hann við fjósverkin og varð ekki var við neitt, en þegar hann fer úr fjósinu í bæinn þá sér hann för ljót og óþekkjanleg og þegar hann kemur að bæjardyrunum þá sér hann þar mikið traðk og að bæjardyrnar eru opnar. Hann fer inn í bæjardyrnar og sér að opinn stendur gestaskálinn; gengur hann svo inn í skálann, en þegar hann kemur inn í skálann þá slær út um hann köldum svita og ónotahryllingur fer um hann allan. Svo gengur hann inn til baðstofu og sezt á pallstokkinn og spyr hvurt enginn sé kominn og er honum sagt nei. Þá segir hann frá öllu sem hann varð var við. Prestur segir sig gruni hvað þetta muni vera. Svo fer fólk að heyra læti frammi. Svo fara allir vinnumenn prests og taka alla hnífa og ljái sem upp undir eru í baðstofunni, fara ofan og svo fer prestur á eftir með þrjú ljós, en þegar að þeir koma fram þá sjá þeir að einhvur ókind er í bæjardyrum svo ljót að þeir gátu ekki lýst því. Þegar að þeir komu með ljósin og voðann þá dreif það sig út og fór með dyraumbúninginn um leið. Svo fóru þeir inn aftur. En eftir þetta bar ekki á því, en prestur varð svo myrkfælinn að hann þorði hvurgi nema hann hefði mann með sér þar til hann tók sér mann um tíma sem var margkunnandi, og þegar hann var búinn að vera hjá hönum um tíma þá sagði hann presti að það mundi ekki bera á myrkfælni í hönum framar, enda varð það orð og að sönnu að hann fann aldrei til myrkfælni eftir það.

  1. Enginn prestur hefur verið með því nafni á Stóranúpi. Stefán Þorsteinsson var þar (sat í Steinsholti) prestur 1717-1757 og annar samnefndur 1828-1834.