Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Farðu á stað og finndu mig

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
„Farðu á stað og finndu mig“

Maður einn gekk yfir fjallveg og ætlaði til næstu sveitar. Á fjallinu gerði á hann kafald svo hann varð úti og vissi þetta enginn. Litlu eftir dreymdi einn kunningja hans að maður þessi kæmi á gluggann hjá honum og kvað þessa vísu:

Farðu á stað og finndu mig,
farið er líf og kraftur;
þeirrar bónar bið ég þig,
biddu mig einhvers aftur.

Fór þá kunninginn að leita og fann manninn dauðan og kom honum til byggða og greftrunar. Ekki er getið um hann hafi beðið þann látna neins aftur.