Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Fellsendadraugurinn

Herdís hét öldruð kona á Fellsenda hér um bil 1730-1735 Hún var móðir Steinunnar Pétursdóttir sem lengi bjó á Fellsenda, en ekkja Péturs Bjarnasonar á Fellsenda, Péturssonar einnig á Fellsenda, Þórðarsonar prests í Hjarðarholti Brandssonar. Herdís þessi var sögð skikkanleg og ráðvönd kona. Hún tók sótt og andaðist eftir eins eða tveggja daga legu og var so jörðuð. Þá var Steindór Bjarnason búandi í hinum bænum á Fellsenda (hann var langafi Klemenz sem nú er í Gröf).

Steindór skipaði fólki sínu um kvöldið sem Herdís var grafin að vera búið snemma að útiverkum og fara þá inn og loka bænum, sem það og gjörði. Hina sömu nótt fór að heyrast þrusk og ókyrreiki í hinum bænum, og þessu fór fram nótt eftir nótt so hlutir vóru færðir úr stað og síðan fara að drepast skepnur í þeim bænum á því búinu, en ekki hjá Steindóri, og því næst leggst Steinunn húsfreyja rúmföst og er allt þetta kennt þessum reimleikum.

Þá bjó í Snóksdal Magnús sonur Jóns prests í Snóksdal. Hannessonar í Snóksdal Eggertssonar í Snóksdal, Hannessonar í Snóksdal Bjarnarsonar. Magnús var kallaður margkunnandi. Í þessum vandræðum sendir Steinunn til Magnúsar og biður hann ásjár, hann er tregur og lætur þó til leiðast. Hann fer fyrst fram að Fellsenda og þaðan út að Sauðafelli, en ekki vissu menn hvað hann aðhafðist, og síðan fór hann heim um kvöldið en biður fólk sitt að vekja sig ef það heyri nokkur læti úti um nóttina. Ekki líður langt af nóttu áður fólkið heyrir þrusk og barsmíð úti og vekur strax Magnús, en hann klæðir sig fljótt, gengur út og er úti lengi nætur, en enginn vissi hvað hann sýslaði. Um daginn eftir fannst foli fjögra vetra sem Magnús átti og þótti mjög vænt um, dauður upp í hálsinum fyrir ofan Snóksdal. Upp frá þessu varð ekki vart nokkurs reimleika á Fellsenda og Steinunni batnaði veikin.

Í þennan tíma var Magnús fyrir skömmu búinn að missa Ingibjörgu konu sína hvör eð dó af blóðlátum eftir barnburð, en barnið lifði og var á fyrsta ári þegar þetta var tíðinda, og var það Ólafur föðurfaðir Ólafs sem nú er á Hóli. Þegar Steinunn Pétursdóttir er heil orðin fer hún að finna Magnús og segir honum að kjósa sér laun fyrir hjálpina eins og honum hafi heitið verið. Hann kýs þá helzt hún taki barnið Ólaf til fósturs; játar hún því og hefur það heim með sér. En árið eftir í sama mund skilaði Steinunn barninu; þá sagði Magnús: „Nú skilar þú mér mínum ómaga og ég tek við honum þar ég á hann, en ég hvorki vil eða get skilað þér þínum ómaga.“ Hann hafði vonað eftir að barnfóstrið yrði ekki so endasleppt, þar hann var þá fremur bágstaddur, en Steinunn var ríkiskona.