Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Flóðalappi eða pastursdraugur

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Flóðalappi eða Pastursdraugur

Svo er sagt að þegar Markarfljót var að brjóta sig sem mest austur með Eyjafjöllum hafi bóndi búið í Stóradal er Magnús hét er varð mjög reiður við ferðamenn út af því þeir riðu engjar hans sem orsakaðist af því fljótið braut upp á landið svo göturnar færðust ofar og ofar á engjarnar. Þá hafi bóndinn lofað að hefna sín á mönnum dauður ef hann gæti það ekki lifandi. En eftir það hann var dáinn fór að bera á [að] gletzt var við ferðamenn, einkum að setja ofan bagga fyrir þeim í svo nefndu Kaldaskarði hjá Hvammi. Þar var tæpan einstíg að fara eða hillu millum hamranna og fljótsins; veltust svo klyfjarnar ofan í vatnið. Þessu var kennt um að bóndinn í Dal væri afturgenginn því menn þóktust sjá hann þar á gangi og um mýrarnar og flóðin hjá Núpi, og var svo kallaður Flóðalappi eða Pasturdraugur af klettum þar við skarðið.

Einu sinni var maður frá Sauðsvelli á ferð um kvöld [og sér] hvar Flóðalappi kemur á eftir sér. Hann slær upp á hestinn, en hinn dregur hann uppi. Svo þegar maðurinn er kominn yfir bæjarlækinn er draugurinn á bakkanum. Maðurinn tekur hattinn af höfðinu á sér, dýfir í lækinn og segir sem hann kvað á: „Kondu nú djöfullinn þinn, ég skal skíra þig í nafni heilagrar þrenningar,“ en við það sneri draugurinn til baka.

Öðru sinni var það að maður frá Núpi ætlaði að ganga um kvöld að Hvammi, en hann kom ekki heim um nóttina. Um morguninn var leitað og var traðkið rakið fram að sjó; þar fannst [hann] tórandi, en gat ekkert mælt nema: „Kindin, kindin“ (ekki svo að skildist „ókindin“) og dó svo skömmu seinna.

En svo er sagt að Flóðalappi hafi einu sinni sett ofan af lest síra Magnúsar Péturssonar á Hörgslandi, en hann kom sjálfur á eftir og frétti hvað um var að vera og tafði ekki við að finna drauginn og fer að kveða [hann] niður, en það gengur erfitt því hinn kvað á móti svo hann gekk ekki nema fáa þumlunga við hvurja vísu, og loksins varð síra Magnús að stíga á hausinn á honum til að hafa hann niður, en þá varð skórinn fastur, en prestur hafði haft fyrirvarann og leyst þvengina svo hinn fór með skóinn, og hefur ekki orðið vart hans síðan. En grjótkró (eða byrgi) var hlaðin þar í kringum sem hann var kveðinn niður og sést hún enn.