Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Gísli heiftrækni

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Gísli heiftrækni

Guðrún kona Teits er drepinn var í hinni síðustu jólagleði undir Jökli flutti eftir lát manns síns að Klettsbúð. Það var siður hennar að fara suður í réttir í fjárkaup.

Einu sinni þegar hún kom þaðan dvaldi hún í Ólafsvík við litla verzlun, en samfylgdarmenn hennar héldu áfram með reksturinn. Seint um kvöldið fór hún á stað og út að Enni; var þá sjór fallinn undir forvaðana svo hún komst hvorki fram né aftur; fór hún þá upp undir klettana til að verja sig sjónum og hugði að bíða þar útfallsins. Tók hana þá að sigra ákaflegur svefn svo hún batt tauminn á hestinum við beltisband sitt og sofnaði síðan fast. Loksins vaknaði hún við það að hesturinn kippti svo fast í að beltisbandið slitnaði; sá hún þá mann standa hjá sér og spyr hún hann að heiti, en hann segist heita Gísli. „Hvar áttu heima?“ segir hún. „Hérna fyrir framan þaragarðinn,“ segir hann, „og er ég þar hjá kvenmanni sem var drukknaður fjórtán árum áður en ég og erum við svo innibyrgð undir þungum þara, og munum við ekki leysast þaðan fyrr en á dómsdegi.“ „En hvað viltu mér?“ segir hún. „Drepa vil ég þig,“ segir hann. „Hvers á ég að gjalda?“ segir hún. „Það skal ég segja þér,“ segir hann: „Einu sinni var ég í Hólskirkju og sá konu koma þar inn sem mér þótti bera af öðrum; ég sá að hún var ekki einsömul. Eftir embættið fann ég hana að máli og bað hana að láta heita í höfuðið á mér það sem hún gengi með, en hún afsagði mér um það. Skömmu síðar drukknaði ég. Kom ég þá til hennar í svefni og bað hana hins sama, en hún þverneitaði því. Þessi kona var móðir þín og skaltu nú gjalda hennar.“ Nú fór Guðrúnu ekki að lítast á, fór á bak hesti sínum og var þá sjór fallinn undan forvaðanum. Reið hún nú af stað; en brátt varð hún þess vör að Gísli veitti sér eftirför og annars sem verra var, en það var það að hún var orðin sjónlaus; lét hún þá hestinn ráða ferðinni; en af því hún var skáld gott fór hún að yrkja; en ekki vita menn hvað hún orti; fór hún þannig lengi að hún vissi að Gísli elti sig. Loksins fékk hún litla sjón aftur og var hún þá nærri komin fram af bjarginu fyrir innan Keflavík; gat hún þá tekið rétta stefnu heim til sín og vissi hún ekki fyrri til en hesturinn stóð á hlaðinu; fékk hún þá sjónina aftur, en marga daga eftir var hún veik. Guðrún var kona sannsögul og ráðvönd.