Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Garpsdalsdraugurinn
Garpsdalsdraugurinn
Um haustið 1807 varð sá ókyrrleiki um nótt í skálanum í Garpsdal að skálahurðin lamaðist, en þar sváfu inni vinnumenn prests, Þorsteinn Guðmundsson, Magnús Jónsson, og barn eitt sem Þorsteinn hét. Síðar um haustið, 16. nóvember, var brotinn bátur sem presturinn átti niður við sjó um bjartan dag, og þótt höggin heyrðust heim að bæ var engin mannleg mynd sýnileg sem þetta framkvæmdi. Allt fólkið var heima við bæinn í Garpsdal og unglingsdrengurinn Magnús Jónsson ýmist út við fjárhús eða heima við bæinn, og honum hefur andinn oftast birzt í kvenlíki. 18. dag s. m. voru brotnar fjórar fjárhúshurðir á björtum degi meðan prestur var í kirkju að gefa saman hjón og flestir heimamenn þar viðstaddir og Magnús með þeim. Sama daginn um kvöldið varð vart við þenna kvenanda í fjárhúsunum því hún lézt vilja fá sér í steik eina ána sem presturinn eignaði sér, en þegar gömul kona sem var í Garpsdal, skýr og margfróð, sem Guðrún hét Jónsdóttir, handfór ána minnkaði korrið í henni svo hún rétti við og kom aftur á fætur. En Magnús stóð í húsdyrunum á meðan Guðrún fór höndum um ána, en í þessum svifum var brotinn einn raftur úr húsinu og brotunum fleygt framan í Magnús; í því sagði hann að kvenandi þessi hefði farið burtu. Hestar prestsins voru þar á vellinum og í sömu svipan setti svo mikla fælni að þeim að þeir hlupu jafnt yfir blásvell sem svellalausa jörð; þó varð þeim ekkert meint við hlaupin.
Að kvöldi hins 20. s. m. kvað einna mest að þessum ókyrrleika; þá voru brotin þil frá húsum innanbæjar og stofuhurðin. Presturinn stóð þá í bæjardyrunum, Magnús og stúlkur tvær eða þrjár og segir Magnús við prest að andinn hafi farið inn í stofuna. Prestur hljóp í stofudyrnar og þegar hann hafði staðið þar litla stund og verið að tala við fólkið brast ein rúða í glerglugganum í stofunni fyrir innan hann. Magnús stóð þar hjá presti fyrir framan stofudyrnar og var að tala við hann, en segir þegar rúðan brast að nú hafi andinn farið út um rúðuna. Gekk þá presturinn að rúðunni og sá að hún var brostin og öll brotin í smámola. Um kvöldið eftir, 21. s. m., gerði andinn enn vart við sig með bramli, skrölti og illum látum.
28. s. m. tók yfir um aðgang þessa anda því um kvöldið var lagt gríðarhögg ofan í baðstofuna. Var þá presturinn inni, en Magnús með tveim stúlkum úti í hlöðu. Í sömu andránni var brotið þilið frá vefarahúsinu á baðstofugólfinu og síðan gluggar á baðstofunni, einn yfir rúmi prestsins, annar yfir skrifborðinu og þriðji fyrir framan kamersdyrnar. Inn um einn þeirra var sent bakflettingur af borði, en inn um annan páll. Við þetta hrukku hjónin úr húsinu fram á loftið, en með því presturinn var hugmaður hljóp hann ofan og fram og út; var þá og með honum Guðrún kerling, sú sem áður var nefnd; þar kom og Magnús og fleira bæjarfólk. Í þeirri svipan var hlandkeraldi hent í höfuð Guðrúnar frammi á hlaði, en keraldið hafði staðið inn í eldhúsi. Hljóp þá presturinn inn og Magnús með honum og stúlkurnar; var þá allt á lofti sem lauslegt var, bæði hurðir og spýtur og spýtnabrot. Prestur lauk þá upp stofunni frammi í bæjardyrunum og ætlaði þar inn, en í því var send sleggja sem lá í dyrunum í prestinn, og snerti hún hann aðeins neðan til á síðunni og um huppinn, en gerði honum ekki grand. Fór svo presturinn þaðan með fólkinu innar í baðstofuna er lék þá öll á reiðiskjálfi, þar með fylgdi og skothríð allhörð með fjalasprekum úr þiljunum. Flýði prestur þá af staðnum og fór með konu sína og barn til Múla, næsta bæjar, og skildi hana þar eftir, því hún var orðin dauðhrædd af öllum þessum aðgangi. Síðan fór prestur aftur heim; mættu honum þá tvær stúlkurnar felmtsfullar og fylgdi hann þeim sjálfur um nóttina að Gróustöðum, næsta bæ á hina hliðina við Garpsdal, og var þar einnig sjálfur það eftir var næturinnar. Í þessari lotu brotnuðu glergluggar, bæði í baðstofunni og stofunni.
8. dag desembermánaðar gerði þessi kvenandi vart við sig að nýju á björtum degi; braut hann þá hillur í búrinu og þilið framan undan því; stóð prestur sjálfur þar fyrir framan og Magnús hjá og enn fleira fólk. Er það haft eftir Magnúsi að andinn hafi þá hörfað burtu undan orðum prestsins, út í vegginn og farið þaðan í fjósrangalann. Þau Magnús og Guðrún fóru þangað, en fengu þar þær viðtökur að framan í þau var fleygt blautri mold og mykju, þá var og snarað að Magnúsi svo stórum steini að enginn karlmaður mundi stærri stein hefja, en slegið í handlegg Guðrúnar; af því höggi lagðist hún handlama í rúmið í þrjár vikur, en batnaði þó aftur.
26. dag s. m. varð enn vart við þenna anda þannig að Einar smali Jónsson, harður drengur og einbeittur, særði mynd þessa til að sýna sig. Kom þá þegar yfir hann vingl og æði svo mikið að það varð að hafa sterkar gætur á honum að hann færi sér ekki sjálfur að voða. Var hann svo fluttur til bæjar og vakað yfir honum með ljósi og haldið í rúminu. En þegar hann kom til sjálfs sín aftur sagði hann að þessi stúlkuangi hefði komið yfir höfuðið á sér og ásótt sig einlægt eftir það; þegar hann hafði alveg náð sér aftur fór hann alfarinn burt frá Garpsdal. Nokkru síðar var fleygt í prestinn á baðstofugólfinu taðflögum, en allt fólk annað var uppi og þegar að var gætt með ljósi sást ekkert annað en taðhraukurinn sem þar átti að vera. Síðar meir fannst hestur prestsins dauður í hesthúsi í Múla og sögðu heimilismenn þar að hann hefði verið blár og bólginn.
„Þetta eru nú þeir markverðustu tilburðir eftir vitnisburðum prestsins sjálfs, séra Sæmundar, einnig Magnúsar, Guðrúnar og alls heimilisfólksins í Garpsdal sem allt vill með eiði þetta staðfesta satt vera og undireins að hér kunni ekki mennskur maður að vera so ósýnilegur sovel á nótt sem degi, heldur sé það einhvers slags andamynd sem illverkin framkvæmi, og af sögunni sjálfri sést að hvorki Magnús[1] né nokkur annar maður gat slíkt framkvæmt, hvað allt fólkið vill einnig staðfesta og alla menn að þess vitund frákenna hér út í. – Þannig samin historía var okkur, mér undirskrifuðum ásamt Samúel Egilssyni og Bjarna Oddssyni frá sögð í Garpsdal af sjálfum prestinum og heimilisfólkinu d. 28. maí 1808. Að þetta sé rétt í röð samið eftir því sem velæruverðugur presturinn sr. Sæmundur mér fráskýrði vitna ég að Stað á Reykjanesi 7. júní 1808.
- G[ísli] Ólafsson.“
- ↑ Magnúsi þessum var þó einmitt kennt um allan draugaganginn í Garpsdal enda hefur loðað við hann síðan viðurnefnið „Garpsdalsdraugur“; er hann nú orðinn gamall karl. Svo hafa sagt mér tveir fróðir menn og gætnir og var annar sýslungi Magnúsar, en hinn úr Garpsdalssókn.