Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Gleðra

Um 1840 bjó sá maður að Hvammi í Eyjafirði er Ólafur hét; hjá honum var vinnukona er Soffía hét.

Einn jóladag fór bóndi til kirkju og fékk Soffía leyfi hjá konunni að fara kynnisferð út í Kræklingahlíð því hún hafði verið vinnukona áður í Lögmannshlíð. Nú fór hún á stað seint á jóladaginn og var fylgt út fyrir Glerá, en þá fór að dimma, bæði af kafaldi og kveldi, og gerði versta norðanbyl um nóttina sem hafður er í minnum. Á annan í jólum er kafaldinu stytti upp fannst hún örend á þúfu fyrir neðan Lögmannshlíð. Hún var svo flutt heim, og Ólafur nokkur er átti að smíða utan um hana gat ei haldizt við á kveldin í húsinu fyrir reimleika.

Eftir þetta fór stúlku [er Elísabet hét] á Öngulsstöðum að dreyma kvenmann er henni þótti koma á gluggann upp yfir sér; stúlkan þóttist spyrja hana að heiti og því hún léti sig ei í friði. Hin kvaðst heita S. Gleðra, og hitt, að gera henni óróa og svefnleysi ásamt fleirum, svo sem Þorláki og Gónýju (Guðnýju). Nú var haft rúmaskipti við stúlkuna, en það fór allt á sömu leið og kom Gleðra til hennar því oftar og það á hverri nóttu er hún sofnaði. Margt talaði hún við Elísabet og er þetta hið helzta: Einu [sinni] sagðist Gleðra hafa haft fæturnar sinn í hverjum glugga á baðstofunni og horft inn um hvern á víxl. Eitt kveld kvað hún fólkið hafa mikinn hlátur inni og mest hefði það gengið yfir sig hvað hlátursefnið hefði verið lítið, og kom það heim við sögn hennar. Hún kvaðst eiga heima í Þverárgilinu og hefði hún þar tvo félaga er hétu Gíon (Guðjón) og Keián (Kristján), en það vissu menn að tveir piltar höfðu dáið af slysum, annar orðið úti í Kaupangssveit, en hinn farið í Þverá. Elísabet þóttist spyrja hana að, því hún væri svona á gangi; Gleðra kvað þær orðsakir til þess að hún fengi ei næði að hvíla kyrr, hún hefði aldrei lesið faðirvor, farið ævinlega til kirkju fyrir siðasakir og sofið undir prédikuninni bæði í kirkju og heimahúsum, og þótti mönnum það satt vera.

Eina nótt var lagt Nýja testamentið eða einhver guðsorðabók ofan á stúlkuna; þá dreymdi hana Gleðru; hún kvaðst hafa rekið sig á eitthvað illt og meitt sig. Eftir þetta var stúlkunni komið á burt að Kristnesi og hætti hana þá að dreyma Gleðru fyrir fullt og allt. En þá fór stúlku er Margrét hét í Helgárseli að dreyma Gleðru upp á sama hátt og Elísabet. Margrét þóttist spyrja hana að, því hún léti sig ei vera; Gleðra kvað hana vera svo hjartadeiga. Stúlkan spurði hana margs og leysti hún úr því. Einu sinni þóttist Margrét heyra hringl í vasa hennar og spyr um það; Gleðra kvað það vera krákuskel og nafar. Einu sinni spurði Margrét hana að hvernig á Grýtudraugnum hefði staðið; Gleðra kvað hann af manna völdum verið hafa, eða J... á M........

Einu sinni sagði hún stúlkunni að hún hefði í þremur sporum frá Lögmannshlíð og að Helgárseli. Einu sinni spurði Margrét Gleðru að hvar fyrir húfa hennar væri svona ljót og óhrein; Gleðra kvað hana samboðna þeim félagsskap er hún væri í. Einu sinni sagði Gleðra stúlkunni frá svipu er týnzt hafði, og fannst hún í þeim sama stað. Svo fór með tímanum að stúlkan varð ekki mönnum sinnandi, og vissu menn ei hvaða bragða menn skyldu neyta með það. Loksins tóku menn upp á því að láta Margrétu spyrja Gleðru að því í svefni hver ráð ætti við að hafa. Það þóttist Margrét gera. Gleðra kvað sér ei neitt um það gefið, en sagði þó að ef reknir væru fjórir stálnaglar ofan í leiðið sitt mundi það duga, eins og Nonni (Jón) í Hlíð hefði ráðlagt. Nú var farið til járnsmiðs eins, Ólafs á Svertingsstöðum í Kaupangssveit; smíðaði hann fjóra stálnagla, fékk Margrétu og fór hún eina nótt út að Lögmannshlíð. Og ráku þeir bræður Ólafur og Jón naglana ofan í leiðið og var Margrét viðstödd á meðan. Eftir þetta dreymdi Margrétu aldrei Gleðru, og varð lítið vart við hana síðan; áður höfðu ýmsir orðið varir við hana í Kræklingahlíð og oft var það í Hvammi um veturinn að sá sem leysti heyið handa kúnum í hlöðunni, að hann heyrði gengið um hlöðuna og eins og skrjáfaði í freðnum fötunum.