Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Greftrun Þórgunnu

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Greftrun Þórgunnu

Í byrjun 11. aldar kom út til Íslands kona ein suðureysk, að nafni Þórgunna; hún var forn mjög í skapi og álitin fjölkunnug. Þórgunna fór til vistar að Fróðá undir Snæfellsjökli. Um haustið sama er hún kom út hingað tók hún sótt er hún hélt sig mundi til bana leiða. En er henni elnaði sóttin bað hún bónda að láta flytja sig í Skálholt til greftrunar; kvað hún þann stað lengi mundi verða dýrkaðan; þar væru og kennimenn er gætu haldið yfir sér helga söngva. Bóndi gjörði sem hún hafði fyrir mælt og fékk menn til að flytja hana til Skálholts. Þeir fóru sem leiðir lágu suður um land og segir ekki af ferðum þeirra fyrr en þeir komu í Borgarfjörð. Þar voru þeir nótt og gekk Þórgunna aftur sem Eyrbyggja saga segir. Daginn eftir héldu líkmenn áfram og komu svo líkinu í Skálholt og var það þar jarðað. En er verið var að taka gröfina urðu grafarmenn varir við kistu forna öðrumegin í gröfinni og gáfu þeir engan gaum að því. En er kistu Þórgunnu var niður hleypt þykir þeim hún mæla í kistunni:

„Kalt á fótum
[Ána ljótum.“[1]

Þá heyrist þeim sagt niður í gröfinni þar sem kistan sú hin forna var:

„[Af því[2] fáir unna
Þórgunna.“

Ekkert vita menn hvernig á þessu stóð eða hver lá í kistu þeirri hinni fornu.

  1. Frá [ hafa sum seinni handrit af Eyrbyggja sögu, sem hafa tekið upp þessa munnmælasögu, þannig: „Mána-Ljótur.“
  2. Frá [ hafa yngri handrit Eyrbyggja sögu: „Þat gjörir, at.“ Dr. Maurer hefur: „Það er af því að" o. s. frv.