Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Gudda afturganga

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Gudda afturganga

Eiríkur faðir Sveins þessa bjó að Þorpum við Steingrímsfjörð. Hann var hreppstjóri. Einu sinni flutti hann sveitarkellingu eina er Guðríður hét nauðuga til Selstrandar og átti hún Neshrepp. Skildu þeir sem fluttu við hana í fjörunni og var hún mjög reið Eiríki af hrakningnum því hún vildi vera í Tungusveit. Heitast hún þá við Eirík og deyði þar í fjörunni. Rær Eiríkur til Þorpa og sjá þá hásetar hvar Gudda er í lendingunni. Ræður hún á Eirík og verður hann brátt magnlaus og dettur niður með froðufalli blár sem hel. Einn af þeim er fluttu kellingu hét Klemenz Bjarnason, harðgjör og kallmenni. Getur hann komið Guddu af Eiríki og flytur hann til bæjar; varð að vaka yfir honum dag og nótt.

Guðmundur er maður nefndur; hann var fróður maður og fékkst við lækningar. Bú átti hann að Felli við Kollafjörð. Hann var til fenginn að deyfa afturgönguna, en ekki gat hann fyrirkomið henni. Líður nú tími nokkur þar til hún tekur að ásækja Svein son Eiríks og tekur hann til að kveða. Léttir þá af um hríð. Er það sögn sumra að Sveinn færi til legstaðar kellingar, græfi upp og ræki járn nokkuð í iljar henni og lófa, en eftir það fylgdi hún þeim feðgum á hnjám og olnbogum og væri þó fljót.

Sveinn var víða vel metinn fyrir skáldskap og sönglist. Sat hann hjá vinum sínum oft viku eða lengur og skemmti með kvæðum. Halldór hét bóndi að Sandnesi á Selströnd. en Guðrún kona. Þar kom Sveinn og skyldi gista. Var það í hálfrökri um kvöldið að hann sat við borð. Stendur hann upp frá hálfnaðri máltíð, biður fólk vel lifa og hleypur í kringum Steingrímsfjörð og til Þorpa og kemur þar eftir miðja vöku og þykir slíkt á fárra færi. Var Sveinn líka orðlagður göngumaður. Þegar Sveinn kom að Þorpum var verið að leggja föður hans til. Hafði hann orðið bráðdauður um kvöldið um sama leyti og Sveinn fór frá Sandnesi. Þótti þetta sýna framsýni Sveins því so er haft eftir honum að hefði hann ekki verið við þegar faðir hans var lagður til mundi það hafa orðið sinn bani. Bar minna á Guddu eftir dauða Eiríks, en ekki þótti Sveinn sækja vel að eftir sem áður.